28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

1. mál, fjárlög 1940

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Það er með mig eins og með marga aðra, að ég á lítils háttar brtt. við þetta frv. Ég verð að segja það, að ég hefði e. t. v. ekki flutt sumar þeirra, þótt ekki séu þær stórvægilegar, ef ég hefði séð verulega alvöru í því hjá Alþingi, að gæta hins ýtrasta sparnaðar í fjármálum, eins og ég satt að segja bjóst við, að lagt yrði kapp á. En þegar ég hinsvegar sé, að þeirri stefnu er eigi haldið, þá get ég ekki stillt mig um að bera fram þær brtt., er varða áhugamál mín og míns kjördæmis.

Það er í fæstum orðum að segja, að mitt kjördæmi, Vestmannaeyjar, hefir átt örðugast allra um fjárframlög úr ríkissjóði, miðað við þær tekjur, sem þjóðarbúinu hafa borizt frá Vestmannaeyjum. Hafnargerð í Vestmannaeyjum er mjög örðug — líklega örðugri en nokkurstaðar annarstaðar á landinu, — en þó höfum við orðið að láta okkur nægja nú um mörg undanfarin ár einar 30 þús. kr. til þeirra hafnarmannvirkja, sem ríkið hefir stutt.

Ég er að vísu þakklátur hv. n. fyrir það. að hún hefir eftir beiðni minni gert ráð fyrir 30 þús. kr. tillagi til hafnarinnar, en þó hefir hún látið fylgja þessu fé einkennilegt skilyrði, sem sé það, að Vestmannaeyjakaupstaður gefi ríkissjóði kost á að leigja dýpkunarskipið. Ég veit naumast, hvernig ber að skilja þetta, en vil þó leggja í það þann skilning, að ef Vestmannaeyjakaupstaður vill ekki leigja skipið vegna þess að þörf sé fyrir það í Vestmannaeyjum, þá sé fjárveitingin þar með úr gildi felld. Ég vil ekki leggja annan skilning í þetta skilyrði en ósk ríkisstj. um að fá skipið leigt. Það getur verið Vestmanneyjum alveg ómögulegt að leigja skipið á hvaða tíma sem er.

Ég fór fram á dálítinn aukastyrk til dýpkunar á sjálfri innsiglingunni, en fjvn. sá sér ekki fært að taka upp á sína arma neina till. í þá átt. Hefi ég því leyft mér að flytja um þetta brtt. á þskj. 619. Er farið fram á 20 þús. kr. fjárveitingu, en til vara 15 þús.

Mér er sagt, að bæði þessi till. og aðrar, sem ég flyt hér, eigi litlu fylgi að fagna hjá fjvn., og verður hún vitaskuld að ráða sinni afstöða. Ég mun bera mínar till. fram allt að einu.

Þá hefi ég borið fram till. um, að 500 kr. verði veittar til sjómannalesstofu í Vestmannaeyjum. Slík lesstofa er starfrækt í Reykjavík og á Ísafirði, og um Ísafjörð þori ég að fullyrða, að þar er miklu minna af sjómönnum heldur en safnast saman í Vestmannaeyjum úr ýmsum héruðum landsins. — Þá hefi ég farið fram á, að heimild sú, sem er í núgildandi fjárl. um að ríkisstj. megi gera ráðstafanir til hindrunar landbroti í Vestmannaeyjum, fái að haldast óbreytt næsta ár. Ég vona, að fjvn. leggist ekki á móti þessu, þar sem lítils háttar er nú byrjað á þessu verki, og sá undirbúningur er þess eðlis, að ef ekki verður haldið áfram, má segja, að verr sé farið en heima setið. Varnargarðsbygging hefir verið undirbúin, en eðlilegast er, að þetta verk sé unnið smátt og smátt á mörgum árum, en ekki allt í einu. Þarf nauðsynlega að vera hægt að halda þessu verki áfram.

Ásamt mörgum öðrum þm. flyt ég till. um það, að Grænlandsritgerðir dr. Jóns Dúasonar verði gefnar út á prent. Það er vitanlegt, að þingið hefir stutt þennan mann til rannsókna að því er snertir Grænlandsmálin og þann sögulega rétt, er Íslendingar hafa til Grænlands. Þegar það spor var stigið, tel ég víst, að ætlunin hefir verið að gera honum mögulegt að koma ritunum á prent smátt og smátt. Ég vil ekki orðlengja meira um þetta mál. Það er óþarfi, því að þm. er það vel kunnugt.

Hefi ég þá gert grein fyrir mínum brtt., en langar til að biðja fjvn. um upplýsingar í sambandi við eina af hennar till. Þar er ekki um stórmál að ræða, en snertir dálítið mitt kjördæmi. Stj. hafði lagt til, að til dýralækninga víðsvegar á landinu skyldi varið 4500 kr. Áður voru þessir styrkir bundnir við ákveðin nöfn á ákveðnum stöðum. Nú hefir n. borið fram brtt. um að lækka þetta niður í 2550 kr. Hafa margir spurt, hvort ætlunin sé að fella styrkinn alveg niður til einhverra staða, eða skera þetta hlutfallslega jafnt niður alstaðar. Ég veit ekki, hvort tilgátan er rétt, en mér finnst hvorttveggja fráleitt, bæði vegna þess, hve litlir þessir styrkir voru, og hins, að full þörf er fyrir þessar lækningar.

Það hefir verið rætt nokkuð um þessa síðustu, nýstárlegu till. fjvn., um kaup á síldarbræðslunni á Húsavík og vegalagningu fyrir handbært fé síldarverksmiðja ríkisins. Ég vil ekki fjölyrða um þessar till., en þær eru fram komnar á allra síðustu stundu og bera eiginlega glöggan vott um það, hve nefndarstarfið hefir farið út um þúfur, ef menn hafa gert sér vonir um heilbrigðari fjármálastefnu en áður var.

Þá vil ég loks minnast á eina brtt., sem líka er mjög seint fram komin. Það er svo undarlegt, að það skeður þing eftir þing, þrátt fyrir það, að fjvn. og þm. séu sammála um nauðsyn þess að fella niður bráðnauðsynlega útgjaldaliði, þá skýtur sífellt upp tiltölulega háum og nauðsynlegum till. undir lok umr. um fjárlögin. Þetta endurtekur sig þing eftir þing, svo að þeir, sem af alvöru hafa trúað á sparnaðarvilja Alþingis, verða ákaflega efagjarnir um það, að niðurskurður nauðsynlegra útgjalda sé í raun og veru framkvæmdur af heilbrigðum sparnaðarvilja. Hér er t. d. till. um, að gífurlegri fjárhæð sé varið til íslenzku sýningarinnar í New York á næsta ári, eða um 50 þús. af ríkisfé, en sjálfsagt má tvöfalda þá fjárhæð, ef heildargreiðslur landsins í þessu skyni á að telja.

Ég var víst einn um þá skoðun á sínum tíma — og get gjarnan kannast við það enn í dag — að því fé, sem varið er til sýningarinnar í New York, væri illa varið, og ég leyfði mér að draga í efa, hvort slík geysileg auglýsingarstarfsemi kæmi okkur að notum. Síðan eru liðin ár og dagur, og ég veit, að það stendur mikill auglýsingarljómi í kringum þátttöku okkar Íslendinga í sýningunni vestan hafs. Og mér þykir vænt um, að landið okkar hefir haft sóma af því að taka þátt í þessari sýningu. En það er nú svo, að sóminn er góður og dýrðin er glæsileg, en stundum eru menn að velta því fyrir sér, hvort þeir eigi að kaupa sig inn á skemmtun, þótt hún í alla staði sé prýðileg og mikill mannfagnaður, vegna þess, að inngangseyririnn hefir verið hafður of hár. En þrátt fyrir þann mikla sóma og þá eftirtekt, sem Íslendingar hafa vakið á sér við þetta tækifæri, þá er ég jafnefasamur um, að frá hagsmunalegu sjónarmiði hafi þessi fjárútlát komið okkur að fullum notum. Og þegar nú er verið að ræða um það að eyða þarna ennþá tugum þús. kr., um leið og dýrtíðin og atvinnuleysið krepp:r að í landinu, þá verður mér ennþá á að líta á þetta sem nokkuð dýran aðgangseyri að þeim mikla sóma, sem fullyrt er, að við öflum okkur á þennan hátt.

Það er nú einu sinni svo, að atvinnulíf landsmanna lifir ekki á blaðaskrifum og veizluræðum, heldur á því, að það borgi sig, sem verið er að fást við.

Ég skal ekki alveg fullyrða, að ég hafi rétt fyrir mér, en ég held, að ég hafi séð það í blöðum eða tilkynningum, að það muni ekki standa til, a. m. k. ekki hjá öllum Norðurlandaþjóðunum, að halda áfram þátttöku sinni í New York sýningunni næsta ár. Það getur vel verið. að við höfum ekki ráð á að verja nema litlu fé til atvinnubóta og verðum að neita ýmsum fjárframlögum til ýmissa umbóta í landinu. En áður en heimssýningin var haldin, voru íslenzkar afurðir þegar komnar inn á Ameríkumarkað meira og minna, t. d. hér um bil allt lýsi landsmanna var þegar selt til Ameríku áður en heimssýningin heyrðist nefnd. Íslenzk ull hafði líka verið keypt í Ameríku án heimssýningar, og sömuleiðis íslenzk síld án þess að Íslendingar þyrftu að eyða tugum þúsunda í þannig lagaðan auglýsingarkostnað.

Það er sagt, að við þurfum að beina viðskiptum okkar meir og meir vestur um haf. Það er náttúrlega alveg rétt eins og sakir standa, vegna ófriðarins í álfunni, að við erum neyddir til þess, alveg eins og við vorum 1914, þegar ófriðurinn hófst þá. En mér er nú sagt, að við fáum alveg að fullborga þær vörur, sem koma að vestan, því áhrif ófriðarins ná þangað.

Ég skal ekki neita því, eins og nú er ástatt, að nauðsynlegt sé að nálgast þessar nauðsynjar okkar að vestan; það er alveg það sama og við urðum að gera 1914, að beina viðskiptum okkar til Ameríku á ný. En ég hefi mjög takmarkaða trú á því, að Íslendingar geti með góðum árangri beint öllum viðskiptum sinum vestur um haf. Reynslan 1914 benti í þá átt, að um leið og stríðið hætti 1918, hurfu viðskiptin í sinn forna farveg aftur.

Það er ekki svo þægilegt fyrir hvaða þjóð sem er að kippa aldagömlum viðskiptum upp úr fornum farvegi og koma þeim í nýja farvegi; slíkt tekur óhjákvæmilega langan tíma.

Ég er samþykkur þeim mönnum, sem telja rétt að beina þeim viðskiptum okkar vestur um haf, sem Íslendingum er hagur af að heina þangað. Og ég er samþykkur þeirri neyðarráðstöfun, sem átti sér stað 1914 og á sér stað enn þann dag í dag, að sækja vestur um haf vörur, sem við getum ekki annars fengið. En ég er jafnsannfærður um það, að þegar ró og friður kemst á í álfunni, þá breytast þessar leiðir aftur eins og þær áður voru. Okkur hefir tekizt að vinna markaði fyrir allskonar afurðir í Mið-Evrópu og á Norðurlöndum án þess að verja hundruðum þúsunda kr. í sýningarkostnað. Og okkur ætti að geta tekizt að vinna markaði í Ameríku fyrir þær íslenzku afurðir, sem Ameríkumenn vilja og geta notað, án framhaldandi auglýsinga á okkur sjálfum í Ameríku. Ég tel þann sóma, sem okkar löndum hefir hlotnazt vegna New York sýningarinnar, vera keyptan fyrir mikla fórn til þess að vegsama þeirra dýrð í Ameríku. Ég tel, að við gætum vel unað við þau afskipti og þann mikla sóma, sem við hingað til höfum haft af því að taka þátt í þessari sýningu, án þess að leggja enn á ný út í stórkostlegan kostnað í þessu skyni. En ef á að fara að kosta til þess að leifa markaða í Ameríku, þá vona ég, að farnar verði aðrar leiðir heldur en auglýsingaleiðin, og peningum verði þá frekar varið til þess að hafa hæfa menn til þess að bjóða vörurnar og reka verzlunarstarfsemi á verzlunarlegum grundvelli. Þó segi ég þetta með þeim fyrirvara, að þess gerist þörf og af því geti hagur hlotizt fyrir land og þjóð.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þessar brtt., sem hér liggja fyrir; það gæti orðið of langt mál að láta alla hluti til sín taka. Þegar upphaflega var lagt inn á þessa sýningarbraut, benti ég á, að aðrir leiðir væru til kostnaðarminni til þess að vekja eftirtekt á íslenzkum afurðum í Ameríku, og ég vildi láta þær aths. fylgja þessari till., sem þessir 3 hv. þm. hafa flutt hér á síðasta þskj., sem útbýtt var, um þessi afskipti af væntanlegri sýningu í New York 1940.