29.12.1939
Sameinað þing: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

1. mál, fjárlög 1940

*Jörundur Brynjólfsson:

Ég hefi leyft mér að flytja brtt. við fjárl., sem er á þskj. 637, rómv. 7. Till. er um að reisa í skólagarðinum á Hvanneyri brjóstlíkan af Hirti Snorrasyni, fyrrv. skólastjóra.

Eins og kunnugt er, var þessi maður skólastjóri á Hvanneyri langa stund. Hann kom að skólanum þremur árum eftir að hann byrjaði, og var hann skólastjóri allan tímann, þar til Halldór Vilhjálmsson tók við skólastjórn, eða til 1907. Hjörtur Snorrason reisti þennan stað úr rústum. Hann var í senn ágætur kennari, mikill skólastjóri og sérstaklega atorkusamur og duglegur maður. Við, sem höfðum kynni af honum og nutum tilsagnar hans, getum bezt um það borið, hvílíkur kennari hann var og hve atorkusamur og ósérplæginn hann var um það að reisa staðinn úr rústum.

Þegar Hjörtur kom að Hvanneyri, mátti heita, að þar stæði ekki steinn yfir steini. Eins og víðast hvar á þeirri tíð hér á landi, þá hafði lítið verið gert þar að jarðabótum, og enn minna að húsabótum. Þó þetta sé dregið hér fram, þá er það á engan hátt sagt þeim til lasts, sem áður veittu skólanum forstöðu. Hinn fyrsti skólastjóri var þar aðeins rúmt ár, að ég ætla, en sá næsti var þar ekki nema 2 ár, svo það var ekki von, að þeir hefðu tækifæri til að gera þar nokkuð verulegt. Hjörtur var aftur á móti skólastjóri milli 10 og 20 ár, og eftir þeirri aðstöðu, sem hann hafði þar, þá hygg ég, að það leiki ekki á tveim tungum, að hann hafi þar skilið eftir sig mikið dagsverk.

Launin fyrir það starf, sem hann rækti þar, voru mjög lág. Svo að segja allar þær umbætur og það mikla kapp, sem hann lagði á þessar umbætur, var gert í þágu staðarins og aðeins til þess að koma þar á þeim myndarbrag, sem bæði hans skaplyndi stóð til og hann taldi að hæfði slíkum stað. Svo ósleitilega barðist hann fyrir þessum umbótum, að eftir fá ár hafði hann slítið kröftum sínum svo, að hann var bilaður að heilsu alla stund síðan.

Mér þykir vel við eiga, að einmitt þessum stað sé sómi sýndur. Hann stóð strax til þess að verða höfuðvígi bændamenntunar í landinu. Það gerðu staðhættir þessa skóla og aðstaða öll.

Sá maður, sem tók við af Hirti Snorrasyni, hélt uppi því merki, sem Hjörtur Snorrason hafði reist, og gerði það af dugnaði og myndarskap. Nemendur hans, sem voru margir, hafa og sýnt, að þeir kunna að meta starf hans, því þeir hafa reist minnismerki af Halldóri Vilhjálmssyni í skólagarðinum á Hvanneyri.

Nemendur Hjartar Snorrasonar eru nú á lífi mjög fáir, og sakir fyrirkomulags skólans, sem þá var, voru þeir alltaf heldur fáir. Ég get því ekki búizt við því, að þeir fáu nemendur hans, sem eru á lífi, séu þess megnugir að reisa honum það minnismerki, sem vera ætti og ætti að koma á þessum stað. En þar sem hann starfaði fyrir lítil laun í þágu alþjóðar á þessum stað, þá finnst mér, að það eigi mjög vel við, að það opinbera sýni minningu hans þann virðingarvolt, að leggja fjármuni fram til þess að reisa þetta minnismerki. Ég get búizt við, að það kosti töluvert meira fé að koma þessu í framkvæmd en till. mín hljóðar upp á, en ég ætla, að mér sé óhætt að fullyrða, að nemendur hans, sem á lífi eru, muni sjá um, að það standi ekki á því fé, sem þarf að leggja fram þessu til viðbótar, svo þetta komist í kring.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þessa till. Ég vil vona, að hv. þm. hafi haft þau kynni af vinnubrögðum Hjartar Snorrasonar, að þeir telji vel hlýða að sýna minningu hans þá rausn og þann myndarskap, að þetta komist í framkvæmd. Ég hefi líka í fullu trausti þess, að hv. þm. hafi haft þau kynni af Hirti Snorrasyni, borið þessa till. fram, því mér þætti það meira en leiðinlegt, ef framburður minn á þessari till. yrði til þess að kasta rýrð á minningu hans og valda sársauka þeim, sem höfðu kynni af honum og vissu, hver ágætismaður hann var í störfum sínum fyrir þennan stað og í öllu hátterni sínu og allri breytni sinni sem skólastjóri á þessum stað, meðan hans naut við. — Ég vona svo, að hv. þm. bregðist vel og myndarlega við þessari málaleitan minni.

Ég hefi gerzt meðflm. að smátill., sem er um ofurlítil eftirlaun handa manni, sem starfað hefir áratugum saman að uppfræðslu æskulýðsins í þessu landi, en nýtur ekki neins stuðnings á efri árum af hálfu hins opinbera, sakir þess, að hann hefir kennt mest við prívatskóla. Hv. 1. þm. Reykv. hefir mælt vel og skörulega fyrir þessari till., svo ég hefi þar engu við að bæta. Ég vona aðeins, að hv. þm. láti þennan mann njóta þess, hvað vel og giftusamlega honum hefir farið í starfi sínu við uppfræðslu æskunnar í þessu landi.

Um till þær, sem fyrir liggja að öðru leyti, ætla ég ekki að fjölyrða. Ég býst við, að um þær verði alllangar umr., en þar sem tími þingsins er naumur og margir eiga eftir að taka til máls, þá ætla ég ekki að fjölyrða frekar um þetta en orðið er.