29.12.1939
Sameinað þing: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

1. mál, fjárlög 1940

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Það væri að sjálfsögðu nokkur ástæða til, a. m. k. fyrir þann mann, sem er atvmrh. og á að taka við þeim niðurskurði á fjárl., sem ætlazt er til, að atvmrh. geri, að hann gerði nokkra grein fyrir afstöðu sinni til fjárl. En ég þarf síður að gera það, bæði vegna þess, að hæstv. fjmrh. hefir sagt margt af því, sem ég annars hefði talið ástæðu til að segja, og eins af hinu, að aðstaða og álit ríkisstj. í þessu máli er flestum hv. þm. kunnugt. Ég kann þó betur við að láta nokkur orð falla við þessa umr. fjárl., þó ég geri ekki ráð fyrir, að það verði til að upplýsa málið sérstaklega eða breyti neinu um það, sem ætlunin er, að fram muni ganga.

Ég held, að það sé ekki nema eðlilegt, að atvmrh. á hverjum tíma hafi tilhneigingu til að láta ekki draga úr því framlagi, sem ríkið á hverjum tíma innir af hendi til þess að halda uppi verklegum framkvæmdum. Ég hefi samt átt minn þátt í, að ríkisstj. hefir lagt til og gert um það till. til fjvn., að veruleg niðurfærsla verði á útgjöldum fjárl. til verklegra framkvæmda. Þetta hefir viða komið niður á þörfum framkvæmdum, eins og bryggjugerðum, hafnargerðum, vitabyggingum og ýmsu öðru, sem ég í raun og veru tel nauðsynlegt, að framkvæmt verði. En ástæðan til þess, að ég sætti mig við þetta, er sú, sem hv. Alþ. er kunnugt um, hversu mikil óvissa ríkir um afkomu ríkissjóðs á næsta ári.

Ég vil almennt láta falla þau orð, að ég tel. að að því er hafnargerðir snertir, sem ég af eðlilegum ástæðum vil stuðla að, að verði framkvæmdar svo sem geta ríkissjóðs framast leyfir, hafi of mikið handahóf ríkt á undanförnum árum og þar hafi meiru ráðið, hve mikið kapp einstakir þm. hafi lagt á að koma fram jafnvel stórfelldum hafnargerðum, heldur en forsjá. Ég tel óhugsandi í framtíðinni, að þessu fari svo fram sem farið hefir. Það verður að vera þannig í þessum efnum, að þeir, sem fara með yfirstjórn þessara mála, og þá fyrst og fremst vitamálastjórinn, verða að gera um þetta rökstuddar till., sem hníga að því að leiðbeina þinginu um það, hvar mest er þörf á þessum verkum fyrir þjóðarheildina og hvernig þjóðin verji sínum fjármunum bezt á þessu sviði. Ég gæti bent á hundruð þúsunda og jafnvel millj. kr., sem lagðar hafa verið fram á þessu sviði, sem ég tel, að hefði mátt verja öðruvísi og á hagkvæmari hátt fyrir heildina en gert hefir verið. Að ég fyrir mitt leyti hefi ekki gert gangskör að því, að rökstuddar till. um þetta efni komi frá vitamálastjóra, stafar af því, að ég eins og aðrir, sem sæti eiga í ríkisstj., hefi orðið að sinna meir öðrum störfum en ég ætlaði að gera þegar stj. tók við völdum. Það hefir þess vegna orðið minna úr framkvæmdum í þessu efni en ég hefði viljað.

Mér er þó kunnugt um, að fjvn. hefir snúið sér til vitamálastjórans um þetta, en ég hefði viljað eiga hlut að því, að þetta kæmist þannig í framkvæmd, að þingið gæti á hverjum tíma fengið leiðbeiningar, sem ég hefi tilhneigingu til að styðja að, að gætu orðið miklu ráðandi um það, hvaða stefna væri tekin á þinginu á hverjum tíma um framkvæmdir í þessu efni. –Ég skal láta þetta nægja um hafnarmálin.

Ég vil í sambandi við vitamálin og vegna þess, að ég álít sjálfsagt að samþ. till. fjmrh., sem hann gerði til fjvn. um niðurfellingu vitabygginga, skýra Alþ. frá því, sem ég hefi í raun og veru drepið á undir umr. um annað mál, að ég ætlaði áður en ófriðurinn brauzt út að gera það að till. minni, að Alþ. samþ. um það l., að allar tekjur af vitunum rynnu til þarfa vitanna, en það skortir á 2. millj., að þeir hafi fengið þær að fullu frá því að vital. voru sett.

Nú hefi ég horfið frá þessari stefnu í bili og í stað þess gengið inn á till. fjmrh. um að fella niður framlag þeirra vitabygginga, sem kalla á aðkeypt efni. Ég hefi gert þetta í raun og veru með samvizkunnar mótmælum og í fullu trausti þess, að þingið virði þá sparnaðarviðleitni, sem þarna kemur fram, með því að sýna í verki, að það verði reiðubúið á næstunni til þess að samþ. l. þess efnis, sem ég gat um, þó þau komi ekki til framkvæmda fyrr en breyttar kringumstæður leyfa þær fjárveitingar úr ríkissjóði.

Ég vil svo að öðru leyti segja það, að mín afsökun fyrir þessari afstöðu til verklegra framkvæmda er hin óvissa fjárhagsafkoma ríkissjóðs. Ég get tekið undir með þeim mönnum, sem gera ráð fyrir, að fyrir geti komið, að tekjur ríkissjóðs verði allmiklar vegna breyttrar aðstöðu og breyttrar löggjafar, og það er langur vegur frá því, að ég staðhæfi, að yfir þurfi að skella nokkurt hrun, en hitt er víst, að það er óðs manns æði að treysta því, að tekjurnar verði mjög miklar. Það má með sama rétti gera ráð fyrir því, að einstakir tekjuliðir geti hækkað um hundruð þúsunda og jafnvel milljónir, og að tekjuliðirnir geti lækkað jafnmikið. Vegna þeirrar óvissu, sem er ríkjandi í þessum efnum, getur enginn fullyrt, að annað sé líklegra en hitt.

Ég hefi því talið, að Alþingi bæri skylda til þess að sýna hina ýtrustu varfærni við samningu fjárl. Hitt er rétt, sem hv. fjvn. segir í nál. sínu, að það er ekki hægt að ætlast til þess, að Alþingi samþ. hallærisfjárlög áður en hallærið er dunið yfir. Annarsvegar vofir yfir, að allmikið geti þrengzt um atvinnuhorfur landsmanna; það er' öllum ljóst, en hinsvegar er ekki hægt að staðhæfa, að tekjur ríkissjóðs hljóti að minnka. Þetta hefir haft þær afleiðingar, að einstakir þm. kalla á útgjöld úr ríkissjóði til þess að fullnægja kröfum kjósenda að framkvæma ýms nauðsynjaverk. Þetta er vel skiljanlegt, en ég álit, að hafa beri alla varfærni um afgreiðslu fjárl., þó án öfga, og virðist mér, að fresta mætti sumu af því, sem fjvn. flytur, en ýmsar till. hv. þingmanna eru þess eðlis, að ég álít, að ekki nái nokkurri átt að samþ. þær.

Ég vil leyfa mér að orða mína hugsun í þessu efni á þann hátt, að ég tel ekki óskynsamlegt að gera sér vonir um, að tekjur ríkissjóðs verði meiri 1940 en í ár, en ég vil leiða athygli að því, að það er alveg áreiðanlegt, að útgjöldin verða miklu hærri. Þannig er þegar komið í ljós, að útgjöld til ríkisspítalanna einna munu verða 280 þús. kr. hærri en á árinu 1939, og svona mun verða viðar. Ég hefi í höndum bréf frá stjórn skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda, sem leiðir athygli að því, að 160 þús. kr. fjárveiting. sem ætluð er sjóðnum, muni ekki nægja til greiðslu ófrávíkjanlegra gjalda, heldur þurfi um 8000 kr. viðbót vegna gengisbreytingarinnar. Slíkar kröfur berast ríkissjóði hvaðanæva, og þó að ekki sé óskynsamlegt að gera sér vonir um, að tekjur ríkissjóðs verði meiri en 1939, fara útgjöldin langt fram úr útgjöldum yfirstandandi árs, og sennilega einnig fram úr því, sem gert er ráð fyrir í fjárl.

Læt ég svo þessi fáu orð nægja til að skýra afstöðu mína til afgreiðslu fjárl., og mun ég ekki tefja umr. með því að fara inn á einstakar brtt., sem fluttar hafa verið. En ég tel nauðsynlegt, að þeir flokkar, sem styðja ríkisstj., taki til alvarlegrar athugunar, hvort sleppa eigi beizlinu fram af sér, eða hafa eitthvert taumhald á útgjöldum ríkissjóðs, að svo miklu leyti sem hægt er. — Mér fyrir mitt leyti finnst óverjandi að samþ. allan þorra brtt. frá einstökum þm., og enda nokkurn hluta af brtt. fjvn., og legg því til, að þær verði felldar. Öðruvísi finnst mér ekki vera hægt að afgreiða fjárl.