29.12.1939
Sameinað þing: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

1. mál, fjárlög 1940

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég ætla aðallega að gera stutta grein fyrir brtt. 619, XXIII, sem er um að hækka framlagið til jarðakaupasjóðs úr 20 þús. kr. upp í 85 þús. Ástæðan til þessarar brtt. er hv. þm. kunn, en till. frá fjvn. hafði ekki komið um þetta atriði, þegar ég lagði till. fram, en daginn eftir var þetta mál tekið fyrir, og þá mun hafa verið í ráði, að fjvn. bæri fram samskonar eða svipaða till., svo að n. hefir tekið þessa till. að sér, en ég hafði óttazt, að þetta hefði gleymzt.

Þá flyt ég aðra till. á þessu sama þskj. Það er XXXVII. till. Er þar farið fram á heimild til að kaupa, ef um semst, Kaldaðarnestorfuna í Árnessýslu. Ég vil upplýsa, að þessi heimild var áður samþ. hér á þingi, en ekki notuð. Ég geri tæplega ráð fyrir, að ríkið geti fengið nokkurt hentugra landsvæði en þessar jarðir. Þær eru nærri jörðum, sem ríkið á á Eyrarbakka, og landspildu, sem einnig er þar stutt frá, og hefir þar verið mikið unnið. Er það land almennt kallað Síbería. Er mikill ávinningur fyrir ríkið, ef framkvæmdir verða í þessu efni, að landsvæðin séu samliggjandi. Á það er nú komin örugg reynsla, að einna arðsamast land, sem við höfum til búrekstrar fyrir nautgriparækt, er flæðiengi. Þar er enginn tilkostnaður við útlendan áburð, sem er annars þungur baggi, viða allt of þungur. Fjvn. í heild hefir ekki tekið afstöðu til þessa máls og hefir því óbundin atkv. um till.

Ég ætla ekki sérstaklega að minnast á brtt. almennt, — þær eru orðnar æðimargar — en vil þó minnast aðeins á brtt. 637, XIV, frá hv. 1. þm. N.-M. og hv. þm. Mýr., um framlag til ræktunarsjóðs Íslands, vangoldið framlag fyrir árin 1938 og 1939. Eins og tekið var fram af hv. þm. Mýr., þá er brtt. raunverulega leiðrétting á misrétti, sem Búnaðarbankinn hefir orðið fyrir eða ræktunarsjóður, en um þetta hefir staðið ágreiningur milli bankans og fjmrn., því að ákvæðin um þetta eru ekki nægilega skýr, en ég tel upplýst, að aldrei hefir verið ætlazt til þess, að ákvæðin yrðu skilin á þann veg, sem gert hefir verið gagnvart bankanum. Um þessa brtt. ætla ég svo ekki fleira að tala.

Um fjárl. vildi ég segja fyrst og fremst, að sem landbrh. get ég fallizt á og hefi fallizt á, að fært verði niður margt af þeim framlögum, sem landbúnaðurinn hefir fengið. Ég tel þetta rétt vegna þess, að ég álít ekki heppilegt, eins og tímarnir eru nú, að örva bændur til að leggja fjármuni í framkvæmdir, sem kosta erlent efni. Líklegt er, að þeim væri lítill greiði ger og þær framkvæmdir, sem þannig væri stofnað til, yrðu landbúnaðinum þung byrði, þegar verðlag breytist aftur og á að standa undir þeim böggum, sem menn tækju á sig á dýrari tíma, og borga með vörum, sem yrðu með allt öðru verðlagi en því, sem hefir ríkt nú um skeið. Ég tel rétt að fylgja nú þeirri höfuðreglu, að leggja sem minnst í þær framkvæmdir, sem erlent efni þarf til, bæði í sveitum og eins við sjávarsíðuna. Þessari reglu er fylgt í aðalatriðunum í þessu frv. Þó er víkið frá því í einstöku atriðum, og til þess mun ég að sjálfsögðu taka afstöðu við atkvgr.

Um frv. í heild vil ég annars segja það, að ég tel, að ekki hafi verið auðvelt að ganga í höfuðatriðunum frá því mikið á annan veg en fjvn. hefir gert. Það er rétt, sem oft hefir verið tekið fram undir umr., að það er ekki hægt að semja fjárlfrv., sem miðað er við hallærisástand, meðan við höfum a. m. k. nokkra von um, að hallæri sé ekki framundan. Það er ekki annað hægt að segja en að útlitið er ákaflega óvíst og við vitum ákaflega lítið, hvað framtíðin ber í skauti sínu. Ég tel í raun og veru, að útlitið síðustu 3 mánuðina hafi litið eða ekkert breytzt, en hinsvegar álít ég rétt að miða fjárlfrv. við þær vonir, sem við viljum í lengstu lög gera okkur.

Um einstakar brtt. ætla ég ekki að tala, en ekki er hægt að ganga framhjá því, að hér kemur fram mikið af brtt., auk till. fjvn., og eru nú stöðugt að koma, eins og við höfum hvað eftir annað orðið varir við í sambandi við þau afbrigði, sem við höfum margsinnis greitt atkv. um nú á þessum fundi, og um þær því nær allar má segja það sama, að þær eru um hækkun á útgjöldum. Ég tel þess vegna, að ekki verði komizt hjá því, eins og líka hefir verið tekið fram af öðrum ráðh. á undan mér, og er í samræmi við það, sem við höfum talað um, að stj. og flokkarnir taki þessar till. til athugunar, áður en gengið er til atkv. um þær. Ég tel, að tæplega geti komið til mála að láta skeika að sköpuðu um það, hverja afgreiðslu allar þessar till. fá, því að við höfum talið skyldu okkar að semja um hvert einstakt mál, sem eru vissulega mörg minni en þetta atriði, enda hygg ég, að ég tali þar í samræmi við það, sem er skoðun allrar stj., eftir því sem við höfum talað saman.