29.12.1939
Sameinað þing: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

1. mál, fjárlög 1940

*Magnús Gíslason:

Herra forseti! Ég hefi borið fram eina brtt., sem engu skiptir um fjárhagsafkomu ríkissjóðs. En af því að þessi till. var s.l. nótt gerð að nokkru umtalsefni, ætlaði ég að fara um hana nokkrum orðum, en sá maður, sem mest ræddi um hana, er ekki viðstaddur, og ætla ég því að láta bíða að ræða um hana. Ég ætla í stað þess að tala um fjárl. í heild sinni.

Þegar þingi var frestað í vor, var gefin upp sú ástæða fyrir því, að vegna þeirrar óvissu, sem ríkti um atvinnuvegi landsins, þætti ekki fært að afgr. fjárl. að svo stöddu. Ég var þá þeirrar skoðunar, að rétt væri að biða fram á haustið og sjá hvernig úr rættist. Ég heyrði um það talað á Alþingi þá, að þau fjárl., sem lágu fyrir þinginu, væru ein hin útgjaldahæstu, sem nokkurn tíma hefðu verið lögð fyrir Alþingi. Ég heyrði um það talað, að það bæri að draga úr þessum útgjöldum, — atvinnuvegir landsmanna væru ekki því vaxnir, að standa undir þeim útgjöldum, sem á undanförnum árum hefði verið velt yfir á þá af því opinbera. Mér virtist, að svo að segja allir alþm. væru þeirrar skoðunar. að það væri komið nokkuð langt á þessari braut, og bæri að stefna að því að fara að snúa við og takmarka útgjöld hins opinbera. Svo liður fram á haust, og frá því þingi var frestað og þangað til það kemur saman aftur skeður það, að út brýzt styrjöld, sem enginn veit nú enn þann dag í dag, hvenær muni taka enda. Við þetta breyttist náttúrlega viðhorf þm. til þess, hvernig eigi að snúast við örðugleikunum, sem af þessu rísa, og hvernig afkoma ríkissjóðs muni verða í sambandi við þetta. Ég held, að það sé enginn maður svo, að hann haldi, að afkoma ríkissjóðs geti orðið glæsileg við það, að í millitíðinni brýzt út styrjöld. Flestir eru þeirrar skoðunar, að heldur hafi versnað aðstaða ríkissjóðs til þess að afla þeirra tekna, sem nauðsynlegt er til þess að halda uppi nauðsynlegum útgjöldum, hvað þá ef talað er um ónauðsynleg útgjöld. Svo þegar þingið kemur saman í haust, þá virðist þessi skilningur vera óbreyttur hjá þm. Sérstaklega varð ég var við það, að margir menn, sem ég talaði við, voru sannfærðir um, að hér væri meiri voði fyrir dyrum en menn hefðu almennt gert sér grein fyrir. Ég er fullviss um það, að fjvnm. voru þá reiðubúnir að gera allar hugsanlegar ráðstafanir til þess, að skorin yrðu niður útgjöld og að ríkið yrði gert fært um að standast þau áföll, sem nú lægju fyrir. Nú liður og bíður, þar til við 2. umr. fjárl., að fjvn. lagði fram brtt., sem mér virtust tiltölulega mjög lítilfjörlegar. Auðvitað lagði hún fram sömu dagana frv. um ýmiskonar ráðstafanir, sem hefir verið hér til meðferðar á þinginu í nokkurn tíma, og sem ekki hefir fengizt full afgreiðsla á, enda þó að það sé nokkurn veginn víst, að það verði ekki í neinni líkingu við það, sem þeir höfðu hugsað sér. Ég bjóst nú við, að hv. fjvn. mundi við 3. umr. skila einhverjum þeim niðurstöðum, sem væru í samræmi við það ástand, sem ég held, að ríki bæði utanlands og innan. En svo fer það þannig, þegar till. n. koma seint og síðar meir — ég verð að segja það, því að nokkrum till. var ekki skilað fyrr en í nótt —, að það virðist svo sem sparnaður sé þar enginn, þvert á móti, útgjöldin hafa vaxið verulega. Af því að þessar till. koma seint, hafði ég ekki tækifæri né tíma til þess að gera mér grein fyrir því, hvernig heildarniðurstaðan myndi verða, ef till. fjvn. yrðu samþ. Ég byggi aðallega á því, sem hv. frsm. fjvn. sagði; mér skildist hann gera ráð fyrir því, að tekjur og útgjöld stæðust nokkurnveginn á, en að greiðsluhalli verði um ½ millj. kr. Ég spyr hv. frsm., hvort þetta sé ekki rétt haft eftir honum.

Í frv. því, sem stj. lagði fyrir þingið, var gert ráð fyrir, að hagur á rekstrarreikningi nemi tæplega 1 millj. kr., en að greiðslujöfnuður verði 130 þús. kr. M. ö. o., ef þetta er rétt, þá hefir hallazt ekki svo lítið áætlunin frá því, sem fyrrv. ríkisstj. hafði gert, þegar hún lagði frv. fyrir í vetur. Þetta hefir því farið dálítið öðruvísi en þm. bjuggust við í vor, og öðruvísi en ég bjóst við, og að ég held meiri hluti hv. fjvnm.

Ég skal játa það, að n. hefir gert tilraun til þess að lækka útgjöldin á ýmsum sviðum. En það, sem mér þykir einkennilegt við starf fjvn., er það, að hún hefir leyft sér að bera fram aukatill. á svo að segja öllum gr. fjárl., aukatill., sem a. m. k. mun orka tvímælis, að væru nauðsynlegar í verulegu góðæri, hvað þá heldur á þeim tímum, þegar þröngt er um að afla ríkissjóði tekna. Sérstaklega er þetta áberandi í 13. gr., þar sem hækkanir til nýrra vegagerða eru um 188 þús. kr. frá því, sem frv. það, sem núv. viðskmrh. lagði fyrir þingið í vetur, gerði ráð fyrir. Að vísu er till. um það frá hv. fjvn. að fella niður malbikun á Elliðaárvegi og Hafnarfjarðarvegi; það nemur 100 þús. kr. Svo kemur annar liður í 13. gr., til vitamála; þar er fremur hækkun á framlagi, sem er að vísu ekki nema sjálfsagt, og svo koma margir liðir til lendingarbóta og hafnargerða. En mér telst svo til, að þessar fjárhæðir, sem ætlazt er til, að verði bætt við útgjöldin, nemi um 90 þús. kr. Á 14. gr. er líka stórhækkun; — mig minnir, að það sé álíka fjárhæð, eða um 90 þús. kr.

Það er gert ráð fyrir, að því er mér skilst, í sjálfu frv., að tekjur og gjöld standist á, en greiðsluhalli verði um ½ millj. kr. Nú væri ekki svo mikið við þessu að segja, ef þær tekjur, sem gert er ráð fyrir, að renni í ríkissjóðinn, væru vissar og öruggar. En mér skilst á þeim brtt., sem hér liggja fyrir frá fjvn., að það sé fremur ógætilega áætlað um þetta, hvað muni. vera hægt að fá inn af tekjum á árinu. Tekjuskatturinn er áætlaður af n. 1600 þús. kr. og hátekjuskattur 200 þús. — eða samtals 1800 þús. kr., en í fjárlfrv. stj. eru þessir skattar áætlaðir 1940000 kr., — lækkunin er því 140 þús. kr. Nú hefi ég látið n. í té skýrslu um það, hvað tekjuskatturinn að viðbættu lífeyrissjóðsgjaldi hafi orðið mikill, og hefir talizt til, að árið 1939 hafi hann orðið 1 millj: og 900000 kr., eftir þeirri skýrslu, sem ríkisskattan. hefir gefið. Nú eru ekki nokkur líkindi til þess, eftir því hvernig atvinnuvegirnir voru í ár, að tekjurnar næsta ár verði meiri en þær urðu í ár. Þannig er mjög ógætilegt að búast við því, að tekjuskatturinn næsta ár verði hærri heldur en hann var í ár. Nú vitum við allir, að það, sem áætlað er á næsta ári, kemur vitanlega ekki inn á því ári; mikið af því kemur aldrei inn, og ein aðalástæðan fyrir því er vitanlega sú, að það eru margir, sem aldrei borga, — þetta fé næst ekki inn.

Því er það, að þó gert sé ráð fyrir því, að tekjuskatturinn verði um 1800 þús. kr. næsta ár, þá vitum við, að það kemur alls ekki inn árið 1940. Nú er það mjög sennilegt, að afkoma næsta árs verði bágari en í ár.

Aukatekjur hefir n. áætlað 600000 kr., og er það 65 þús. kr. lægra heldur en gert var ráð fyrir í fjárlfrv. í vor. Nú vildi ég jafnframt geta þess, að vitagjald er áætlað af n. 390 þús. kr., í staðinn fyrir 490 þús. Ástæðan fyrir því er sú, sem ekki er almennt ljóst, að vitagjaldið og aukatekjurnar eru liðir, sem fylgjast að, þannig að aukatekjurnar eru afgreiðslugjöld skipa, sem er kr. 1.40 af hverju tonni, svo að það, sem vitagjaldið nemur á hverjum tíma, er viss hluti af aukatekjum. Árið 1938 var vitagjaldið áætlað 490 þús. kr., en varð ekki nema 460 þús. kr. Það veit enginn, hvað mikið það verður 1939, en það eru engin líkindi til þess, að það verði hærra en 1938. Samt sem áður var gert ráð fyrir því í frv., að vitagjaldið gæti orðið eins og það var 1938. Nú hefir fjvn. lækkað þetta um 100 þús. kr. og gerir ráð fyrir, að það geti orðið 390 þús. kr., og yrði það þá 70 þús. kr. lægra heldur en það var 1938. Það sem gerir mig alveg vissan um, að vitagjaldið verði ekki eins mikið næsta ár eins og undanfarin ár, er það, að útlend fiskiskip, sem greitt hafa mikið af þessu gjaldi, koma ekki til landsins, ef styrjöldin heldur áfram. Þetta hefir verið nokkuð stór liður, sem hverfur, en auk þess getum við búizt við því, að reynslan verði lík og í síðasta stríði, að siglingar minnki mikið til landsins. Við skulum hugsa okkur, að það færi svo næsta ár, að siglingaleiðir til meginlandsins tepptust og að við Íslendingar gætum ekki fengið okkar vörur þaðan, en yrðum að sækja þær til Ameríku, en það tekur helmingi lengri tíma að sigla þangað heldur en til meginlands Evrópu, en það þýðir helmingi minna vitagjald. Af þessari ástæðu er þessi fjárhæð áætluð of hátt af fjvn.

Ég skal ekki tala mikið um tollana, því það er náttúrlega erfitt að gera ráð fyrir því, hvernig verzlunarviðskiptin við útlönd verða.

Það má þó gera ráð fyrir því, að tekjuáætlunin, sem fjvn. hefir gert, muni standast að nokkru leyti; þó vil ég draga í efa, að verðtollurinn sem fjvn. áætlar 4 millj. kr., geti orðið svo hár, nema með mjög glæsilegri verzlun við útlönd. 4 millj. kr. er miklu hærri upphæð en venjulega hefir fengizt út úr verðtollinum og viðskiptagjaldinu; þetta hefir venjulega numið 3 millj. kr.

Af tekjum ríkisstofnana ætla ég að gera að umtalsefni tekjur þær, sem áætlað er, að áfengisverzlunin fái. N. hefir gert þær till., að tekjur áfengisverzlunarinnar nemi 2 millj. og 16 þús. kr. Það ár, sem hún hefir gefið mestar tekjur, var 1938, en þær voru 1 millj. og 900 þús. kr., og er það rúml. 100 þús. kr. minna en hér er gert ráð fyrir. Nú má gera ráð fyrir , að tekjur þær, sem áfengisverzlunin hefir haft, geti brugðizt, og koma þar einkum tvær ástæður til greina. Annarsvegar er hætt við því, að innflutningur á þeim vínum, sem áfengisverzlunin hefir á boðstólum, bregðist. Hinsvegar er hætt við því, að möguleikar einstaklinga til að kaupa vínið verði minni en verið hefir. Mér finnst því þessi fjárhæð vera mjög ógætilega áætluð. Það má deila um hvað tekjurnar muni verða en ég vil aðeins taka það fram, að ef ég hefði átt að áætla þær, þá hefði ég gert það öðruvísi. Ég vil láta þess getið, að frá mínu sjónarmiði er ekki gætilegt að áætla þær eins og hv. fjvn. hefir gert, en hitt er annað mál, að tekjurnar verða hvorki meiri né minni, hvernig sem við förum að hugsa okkur, að þær verði. Tíminn einn leiðir það í ljós, hvað þær verða. Það má ekki eingöngu byggja á tekjuáætlunum, heldur verður að hafa í huga, hvað við megum leyfa okkur að borga út. Það virðist nú vera nokkurn veginn öruggt, að við verðum að fá þær tekjur, sem n. hefir áætlað, til þess að geta staðið í skilum.

Mér virðist þó, að ekki séu öll kurl komin til grafar enn, því eins og getið hefir verið um áður þá eru nú í uppsiglingu l. og þegar búið að afgreiða sum l., sem hljóta að hafa ný útgjöld í för með sér, sem ekki hafa verið tekin enn inn í fjárl., en það eru gjöld, sem menn verða að reikna með, þegar teknar eru heildarniðurstöður fjárl. Ég vil aðeins nefna framfærslul., þar sem lagt er á ríkissjóð, að hann eigi að bera ábyrgð á viðskiptum hreppanna í landinu sín á milli. Þannig, að ef eitt hreppsfélag getur ekki náð fátækrastyrk á skikkanlegan máta hjá öðru, þá getur það hreppsfélag gengið í ríkissjóðinn og fengið greiðslu úr honum, en það er alveg undir hælinn lagt, hvort ríkissjóður fær það endurgreitt eða ekki. Ég veit ekki, hvað mikið þetta verður, en það er ekki ólíklegt, að það verði undir ½ millj. kr. á ári. Íþróttal. hafa einhvern kostnað í för með sér og héraðsskólarnir hljóta í framtíðinni að hafa töluverð aukin útgjöld í för með sér. Ég átti tal um þetta við frsm. fjvn. í gær, og hann sagði, að eftir því, sem hann vissi bezt, þá myndi ekki nein nauðsyn á, að héraðsskólarnir gerðu kröfu til ríkissjóðs á næsta ári um verulega aukin útgjöld. En þó við þurfum ekki að reikna með þessu nú, þá kemur það síðar.

Svo er það eitt atriði, sem mig langar til að spyrja hv. frsm. fjvn. um, en það er viðvíkjandi brtt., sem ég bjóst við, að kæmi frá n., varðandi kennaraskólann í Rvík. Fjmrn. sendi fjvn. fyrir nokkru erindi, þar sem skýrt var frá því, að nauðsynlegt hafi verið að framkvæma viðgerð á kennaraskólanum, m. a. að setja nýja miðstöð, og voru þessi útgjöld áætluð 12 þús. kr. Nú hefir það komið í ljós, að kostnaðurinn varð nokkuð meiri, 15–16 þús. kr., en það vantar heimild í l. til þess að greiða þetta. Fyrir hálfum mánuði óskaði fjmrn. eftir því, að þessi upphæð væri tekin inn í fjárl. fyrir árið 1940, en það er alveg óhjákvæmilegt, að þessi fjárveiting verði tekin upp. Nú hefir ekki komið brtt. frá n. um þetta, og vildi ég því óska eftir, að fjvn. taki þetta til athugunar, því það er nauðsynlegt, að heimild fáist til þess að greiða þetta.

Til viðbótar við þann greiðsluhalla, sem ég gat um áðan, um ½ millj. kr., og til viðbótar við þau útgjöld, sem hljóta að koma samkv. sérstökum l., þá vil ég minna á eitt mál, sem mér finnst óhjákvæmilegt, að þingið taki afstöðu til við þessa umr. fjárl., því það hefir áhrif á fjárhag ríkisins, en það er launamálið. Allir vita, að þegar ófriðurinn brauzt út, þá hækkaði verðlag á vörum í landinu, og má heita, að þá 3 mán., sem stríðið hefir staðið yfir, hafi dýrtiðin farið vaxandi dag frá degi. Maður hefir því miður ekki leyfi til að ætla, að nokkur lækkun á verðlagi sé í vændum. Það má þvert á móti gera ráð fyrir verulegri hækkun enn. En það er svo um fjölda af mönnum, sem taka laun sín úr ríkissjóði, að þeir eru svo lágt launaðir, að ef ófriðnum heldur áfram, þá geta þeir ekki lifað af þeim launum, sem ríkið greiðir þeim.

Það koma svo að segja daglega kröfur til fjmrn. um að fá launahækkanir, en við getum enga úrlausn getið þessum mönnum, því þetta er ekki á valdi stj. Það er eitt stórmál óafgreitt enn í þinginu, en það er kaupgjaldsmálið eða það, hvernig eigi gagnvart hinum vinnandi lýð að mæta þeirri verðhækkun, sem orðið hefir á vörum í landinu. Ég vona, að Alþ. ljúki ekki svo störfum, að það finni ekki einhverja úrlausn í því. máli. En þá get ég ekki búizt við öðru en hinir lágt launuðu starfsmenn ríkisins geri líka kröfu til að fylgjast með í hinni almennu kauphækkun í landinu. Ég hygg, að það verði erfitt að neita því, að skylt sé að verða við þeirri kröfu á einhvern hátt. Hvað miklu þetta nemur, get ég ekki sagt um, en það er ógætilegt að áætla það minna en ½ millj. kr. En þá fer að halla fjárhag ríkissjóðs og þá má búast við, að þau fjárl., sem við erum nú að afgreiða, verði afgr. með stærri tekjuhalla en menn gera nú ráð fyrir. [Fundarhlé.]

Þegar ég lauk máli mínu hér áðan, hafði ég talað almennt um fjárl. og þær brtt., sem við frv. höfðu verið fluttar, en átti eftir að minnast á þá einu brtt., sem ég hefi flutt við frv. Hún er á þskj. 637 og fer í þá átt, að aths. um úthlutun styrkja til skálda og listamanna samkv. 15. gr. verði orðuð á þann veg, að í stað orðanna „eftir ákvörðun menntamálaráðs“ komi: sem verði úthlutað af 7 manna nefnd, kosinni hlutfallskosningu af Sþ. — Þetta er smávægileg breyt. og hefir engin áhrif á útgjöld ríkissjóðs, en af því að hv. þm. S.-Þ. gerði þetta atriði að aðalumræðuefni í sinni ræðu í gær, en hann er sem kunnugt er form. fjvn., þá þykir mér ástæða til að svara nokkru af hans ummælum. Mér þykir leitt, að hv. þm. er ekki hér viðstaddur, og vil biðja flokksmenn hans að bera honum ummæli mín hér, eins og þeir bezt geta. (BJ: Er ekki bezt að biðja fjvn. um það? — PO: Ef flokksmennirnir sverja hann af sér. — EOl: Það væri óskandi!). Við 2. umr. bar ég o. fl. hv. þm. fram till. í sambandi við það, að sú nýbreytni hafði verið tekin upp í fjárlagafrv., sem lagt var fyrir þingið, að í stað þess, að Alþ. úthlutaði skálda- og listamannastyrkjum, skyldi menntamálaráði falin úthlutun fjárins. Um till. okkar varð meiri þytur en ég hafði gert mér hugmyndir um, af því að í raun og veru var till. okkar ekki annað en fyrirspurn til hv. þm. um það, hvort þeir hefðu ráðið það við sig, að heppilegt væri að gera þessa breyt. á gamalli venju. Í sannleika sagt lá ekkert annað í till. okkar, en hv. þm. S.-Þ. stökk upp á nef sér, taldi till. óþarfa og sjálfsagt að hið nýja skipulag væri látið gilda eftirleiðis. Þessi till. okkar var borin undir atkv. og felld með tveggja atkv. mun, og er hún þar með úr sögunni. Er því vitað, að Alþ. getur ekki haft sömu meðferð á þessum málum og verið hefir. Ég er ekki viss um, að sú atkvgr., sem fór fram um þessa till., sýni réttan vilja Alþ. Fyrst og fremst af því, að ekki voru allir þm. viðstaddir, og er mér ekki grunlaust um, að ef þeir hefðu allir verið hér við atkvgr., þá hefði hún orðið á annan veg. En til þess að skiljast ekki svo við þetta mál, að ekki sé á það minnzt, þá hefi ég ásamt tveimur öðrum hv. þm. flutt hér till., er nú liggur fyrir. Hún gerir að vísu ekki stóra breyt. í þessu efni, því að valdinu til úthlutunar þessu fé hefir Alþ. þegar afsalað sér, en mér finnst viðfelldnara, og gæti jafnavel verið einskonar málamiðlun í þeim ágreiningi, sem risinn er um þetta atriði, að Alþ. geti á hverjum tíma ráðið því, hverjir úthluta þessu fé í þess umboði. (SkG: Kýs ekki Alþ. menntamálaráð?) Jú, að vísu, en ekki árlega. — Ég vil taka það fram út af þeim ummælum hv. þm. S.-Þ. í gær, að með þessu væri verið að lýsa vantrausti á menntamálaráði, að því má svara bæði játandi og neitandi. Ef þessa till. ber að skilja svo, að ég treysti Alþ. betur en menntamálaráði í þessu efni, þá er þetta vantraust á menntamálaráði, því að ég treysti Alþ. miklu betur. Ef þetta er hinsvegar skilið þannig, að ég treysti ekki einstökum meðlimum menntamálaráðs til þess í félagi við aðra að úthluta fénu, þá er langt frá því, að um vantraust á því sé að ræða. Ég tel þá menn, sem nú skipa menntamálaráð, feikilega vel dómbæra um þessa hluti, en menntamálaráð sem stofnun hefir ekki það traust landsmanna, að hægt sé að fela því þetta starf í stað Alþ. Það má segja, að Alþ. hafi ekki alltaf tekizt vel úthlutun þessara styrkja og að margt hefði í því efni mátt betur fara, en ég hygg, að engri stofnun í landinu myndi hafa tekizt betur. Ég hygg, að Alþ. hafi aðallega fengið ákúrur fyrir að veita ýmsum ungum mönnum styrki, sem þjóðin hafði ekki viðurkennt sem listamenn, en hitt hefi ég ekki orðið var við, að nokkur maður, sem þjóðin hefir viðurkennt, hafi ekki um síðir einnig hlotið viðurkenningu hjá Alþ. og nokkurn styrk. Og hvers vegna hefir Alþ. tekizt þetta svona vel? Af því að umr. um þetta hafa alltaf farið fram fyrir opnum tjöldum, og hver og einn alþm. hefir orðið að bera ábyrgð á sínu atkv. gagnvart sjálfum sér og þjóðinni og orðið að sannfæra sig um, að þeir gerðu rétt. Og ég hygg, að hv. þm., sem yfirleitt eru með beztu mönnum þjóðarinnar, hafi gert sér þetta ljóst undanfarið og yfirleitt beygt sig fyrir þjóðarviljanum. Þegar þessi úthlutun er tekin frá Alþ. og falin sérstakri n., þá er ekki lengur sama „kontroll“ með því, hvernig úthlutuninni er háttað. Ég hygg, að þá verði frekar farið um bakdyrnar með ýmislegt heldur en tíðkazt hefir á undanförnum árum. — Þetta var um vantraustið. — Næsta ástæðan, sem hv. þm. S.-Þ. bar fram í gær fyrir því, að það væri ekki rétt leið, sem við hefðum valið í þessu máli, var sú, að Gunnar Gunnarsson skáld hefði skrifað sér og sagt, að hann vildi ekki verða neitt bitbein á Alþ. Ég get vel skilið, að hann skrifi á þessa leið, en það varð nú samt sem áður ekki komið í veg fyrir það, að hann kæmi til umr. hér í gærkvöldi, hvort sem hann hefir óskað eftir því eða ekki. En ég tel, að þótt Gunnar Gunnarsson hafi gefið þessa yfirlýsingu, þá sanni það ekkert í þessu tilfelli, því að málið hefir ekki verið lagt þannig fyrir hann, að hann hafi átt að segja til um það, hvort hann vildi heldur, að Alþ. eða menntamálaráð úthlutaði þessu fé. Gegn þessu „argumenti“ Gunnars Gunnarssonar stendur svo skjal, undirritað af 14 menntamönnum, er lesið var hér upp í gær, þar sem eindregið er lagt á móti því að afhenda menntamálaráði þetta vald. Undir þetta hafa skrifað 14 af okkar beztu menntamönnum, og vil ég þar til nefna Sigurð Nordal, Jakob Kristinsson, Friðrik Ásmundsson Brekkan, Sigurð Thorlacius, Ágúst H. Bjarnason, Vilhjálm Þ. Gíslason o. fl. o. fl. Þetta eru þekkt nöfn. Og ég þori hiklaust að taka þeirra rök fullgild á móti því „referati“ af bréfi, sem hv. þm. S.-Þ. skilar hér til Alþ. frá Gunnari Gunnarssyni.

Næsta ástæða, sem hv. þm. S.-Þ. ber fram til varnar sínu máli, er, að við séum hér að ganga erinda kommúnista. Hann hafði þau orð, ef ég man rétt, að ég hefði gerzt ginningarfífl kommúnista í þessu máll. Hann talaði skemmtilega um þetta atriði, eins og hans var von, og sagði, að kommúnistar hefðu unnið eins mikið á hér á landi eins og þeir hefðu tapað í Finnlandi. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo, að kommúnistar séu sterkari hér á landi heldur en í Rússlandi, sem getur ekki átt sér stað, eða þá hitt, að vörnin, sem kommúnistar mæti hér á landi, sé lélegri heldur en í Finniandi. Mér flaug í hug, að þetta gæti þá ekki verið mjög til lofs hv. þm. S.-Þ., því að hann hefir nú í seinni tíð haft það mest á oddinum til þess að láta á sér bera, að stilla sér að nafninu til í fylkingarbrjóst þeirrar andstöðu, sem kommúnisminn mætir hér á landi. Ég get sagt ykkur það alveg eins og það er frá hálfu okkar sjálfstæðismanna, þá er okkur hreint ekki mikill akkur í því að hafa hann (þm. S.-Þ.) í slíkri aðstöðu. Við teljum, eða a. m. k. telja kommúnistar það sjálfir, að aðal andstæðurnar í íslenzkri pólitík sé íhaldið, sem kommúnistar kalla, og þeir sjálfir. En ef rakinn væri til baka ferill hv. þm. S.-Þ. og afstaða hans til kommúnistanna, þá gæti margt skringilegt komið á daginn. Því að maður veit ekki betur en að hann sé núna á einkennilegan hátt að reyna að slökkva þann eld, sem sagt hefir verið, að hann hafi verið með til að tendra forðum. Og það eru mörg dásamleg dæmi, jafnvel hér í hv. d., af því, hvernig hv. þm. S.-Þ., þáv. dómsmrh., gerði sitt til að auka veg hinna ungu uppvaxandi kommúnista í þessu landi. Einn af þessum hv. mönnum, sem var skjólstæðingur hv. þm. S.-Þ., situr nú hér beint á móti mér, eitt af verkum Jónasar, sem talar, og talar stundum rösklega.

Nei, allt frá því að hann fer að skipta sér af pólitík í þessu landi, hv. þm. S.-Þ., og a. m. k. nú fram til þess síðasta — fram yfir síðustu kosningar — gengur varla hnífurinn á milli kommúnista og framsóknarmanna. Í mínu kjördæmi, og ég held mjög mörgum kjördæmum öðrum í þessu landi við síðustu kosningar, lýstu kommúnistar yfir því án þess að vera feimnir við, að íhaldið væri þeirra aðalandstæðingur. Og hvar sem svo stóð á, að sósíalistar og framsóknarmenn voru í hættu staddir í kosningunum, skoruðu kommúnistar á sína menn að aðstoða annaðhvort Alþfl. eða Framsfl. Bara ekki íhaldið. Þess vegna er það ákaflega skringilegt, þegar svo hv. þm. S.-Þ. kemur hér í gær og heldur því fram, að það séu kommúnistar, sem séu að vinna þennan stóra sigur hér í Alþ., þessir 4 menn, sem hinir flokkarnir hafa lýst yfir, að þeim þætti virðingu Alþ. misboðið með þingsetu þeirra. En það eru bara 21 hv. þm., sem greiddu atkv. með till. um daginn. Eru það þá allt kommúnistar? Ég spyr. Spyr sá, sem ekki veit.

Næsta ástæðan, sem hv. þm. S.-Þ. ber fram, er það, — og að mér skildist það veigamesta — að hann áleit, að það væri ekkert gaman fyrir þingið að vera að styrkja listamenn og skáld, sem gerðu sér það að leik að taka þekkta menn í þjóðfélaginu og gera þá að persónum og jafnvel aðalpersónum í sínum skáldritum, allavega afskræmda að mér virtist, en samt sem áður þekkjanlega, og að þess vegna væri það, að Alþ. hefði ekki farið rétt að á undanförnum árum með því að veita þessum mönnum styrk, að mér skildist, og mér virtist hv. þm. álíta, að í þessu efni væri betur fyrir séð með því að láta menntamálaráð hafa úthlutun styrksins með höndum, því að það mundi ekki fara. eins að og Alþ. hefði í þessu efni gert. Ég skal játa, að slíkt og þvílíkt er ekki til sóma, ef það er þá ekki gert á þann hátt, að einhver list sé í því. En hitt vil ég segja hv. þm., að þetta er ekkert nýnæmi, þó að skáld eða listamenn taki samtíðarmenn sína og geri að umtalsefni í sínum skáldritum. Hv. þm. S.-Þ. þekkir svo vel til bókmennta hér á landi og erlendis, að hann veit, að þetta kemur ákaflega oft fyrir. Við þekkjum allir Benedikt Gröndal. Hann skrifaði, þegar hann var ekki gamall maður, leikrit, sem heitir Gandreiðin, sem er nú í fárra manna höndum og prentað var í Kaupmannahöfn, þar sem hann tekur og gerir að persónum í þessu leikriti samtíðarmenn sína, hvorki minni eða smærri menn en Grím Thomsen Gísla Brynjólfsson skáld, Eirík Jónsson garðprófast o. fl. Þetta leikrit Gröndals varð frægt á sinni tíð og er merkilegt fyrir það, að það er fyrsta revýan, sem skrifuð er á íslenzka tungu. Ég vil biðja þá, sem hér eru staddir, að skila því til hv. þm. S.-Þ., af því að það stendur til, að hann fari að gefa út bækur á íslenzku, að mér fyndist vel til fallið, að hann tæki nú Gandreiðina, og það yrði eitthvert fyrsta verk menntamálanáðs að gefa Gandreiðina út í nýrri úfgáfu, með þeim skýringum, sem nauðsynlegar væru, því að það er margt í bókinni, sem er torskilið, af því að það er farið að fyrnast, og getar orðið óskiljanlegt, ef ekki er undinn bráður bugur að því að gera því betri skil.

Í Heljarslóðarorustu úir og grúir af samtíðarmönnum Gröndals, sem eru nafngreindir, eins og t. d. Kristján í Stóradal, kammerráðið á Skarði, að ég nú ekki segi Hjörleifur. Veit ég ekki, til, að slys hafi orðið að því, nema að því er snertir kemmerráðið á Skarði. Þetta er ekkert merkilegt í sjálfu sér. Það er mismunandi, hvernig þetta er gert. Það má fara þannig að því, að úr því verði ekki annað en skammir, og þannig fara illa að því. Líka má gera það þannig, að það verði list, en enginn taki til þess.

Þá sagði hv. þm. S.-Þ., að þetta lifði í bókmenntunum. Já, auðvitað gerir það það, til ánægju þeim, sem lesa það síðar. En það er fleira, sem lifir í bókmenntunum. Ég veit ekki, hvort hv. þm. S.-Þ. kallar sín skrif bókmenntir. En að vissu leyti eru það vafalaust bókmenntir. Hv. þm. S.-Þ. er ákaflega vel ritfær maður, líklega einn af hinum bestu blaðamönnum í landinu að því leyti, þó að penninn sé nokkuð skarpur stundum og það komi fyrir, að drjúpi eitur úr broddinum. En ógætilegar hygg ég, að enginn hafi talað um sína samtíðarmenn, af þeim mönnum, sem nú eru uppi, en hann í sínum blaðagreinum. Þar eru orðatiltæki og uppnefni, sem eru þannig vaxin, að ég tel, að ekki sé sæmandi að hafa þau eftir hér í sölum Alþ., sem þessi hv. þm., ritstjóri og blaðamaður hefir látið birta í sínum blöðum. Mér virðist því það vera nokkuð ógætilega talað af honum að ætla sér að kasta steinum að þeim mönnum, sem taka þekktar persónur og samtíðarmenn og gera að persónum í skáldritum sínum, eða að gera það að aðalástæðu fyrir því að halda því fram, að taka þurfi af Alþ. valdið til að úthluta styrknum til skálda og listamanna.

Hvað mundi svo vinnast við þetta, að taka þetta vald af Alþ. og fá það menntamálaráði? Og hver er meiningin með því? Varla getur verið önnur meining með þessu en sú, að fá þessa menn, sem hv. þm. S.-Þ. telur, að ekki megi styrkja, til þess að hætta að skrifa eins og þeir skrifa, eða þá hitt, að refsa þeim með því að taka af þeim styrkinn. Um þetta vil ég aðeins segja það, að ef hægt er með hótunum að fá eitthvert skáld, sem kallað er, til þess að breyta um stefnu og hætta að skrifa eins og andinn inngefur því, þá er sá maður ekkert skáld og þá er engin eftirsjón í honum. En það get ég fullvissað hv. þm. S.-Þ. og aðra um, að reglulegt skáld eða listamaður er ekki uppnæmur fyrir öðrum eins smámunum og því, að honum sé hótað, að tekin séu af honum nokkur hundruð kr. eða jafnvel þús. kr. á ári. Við slíkt breytir hann ekki um stefnu. Það verður honum aðeins nýtt yrkisefni.

Ég hefi aðeins viljað drepa á þetta af því, að ég fram ekki annað út úr rökfærslum hv. þm. S.-Þ. eða annara hv. þm. í gær um þetta efni en þetta, sem ég hér hefi drepið á og mér virðast tiltölulega fátækleg rök og auðvelt að svara. Mergurinn málsins í þessu er eingöngu sá, hvort það verður samþ. að fela í framtíðinni menntamálaráði það, sem hér er gert ráð fyrir að fela því, eða það verður ekki gert. Hitt, þessi till., sem ég er hér með, er aðeins nokkurskonar málamiðlun, þar sem hv. þm. S.-Þ. henti á við 2. umr. og beinlínis tók það fram, að það væri ekkert keppikefli fyrir sig að hafa þann vanda með höndum að úthluta þessum styrkjum og að hann gæti vel fellt sig við, að það gerði þingkosin n. Og vegna þess að hann sagði þetta, gekk ég á lagið og tók þessa till. hans upp. Ég geng út frá því, að e. t. v. fái þessi till. líka afgreiðslu og fyrri till., og skal ég láta mér það í léttu rúmi liggja. Hitt vil ég taka fram hér, að þó að þessi skipun verði tekin upp hér nú, sem í ráði er, þá þykist ég nokkurn veginn sannfærður um það, að hv. þingmenn munu ekki verða ánægðir með hana, þegar til lengdar lætur.