29.12.1939
Sameinað þing: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

1. mál, fjárlög 1940

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Í ræðu hv. frsm. n. féllu orð, sem mér finnst ég ekki komast hjá að svara að nokkru, þar sem hann veik að hv. 11. landsk., sem hann sagði, að hefði slysazt inn á þingið eftir að hafa dumpað oft í sínu kjördæmi og fljótt hlotið launað starf í Reykjavík. Þó að þetta hafi fyrst og fremst átt að vera hnútur til hv. þm., skilst mér, að þær hitti mig samt líka, sem mér virtist hann þó að öðru leyti vilja bera vel söguna. En ég vil í þessu sambandi vekja athygli á, að hv. 11. landsk. hefir lengi verið í fremstu röð embættismanna landsins og meðal bezt metnu embættismana ríkisins. Sú virðing og traust, sem hann nýtur í kjördæmi sínu, er ekki í neinu eðlilegu hlutfalli við tölu þeirra kjósenda, sem gáfu honum atkv. sitt, því að auk þess, sem hann hefir notið fyllsta trausts yfirboðara sinna, nýtur hann og almenns trausts héraðsbúa sem embættismaður og maður. Það gladdi mig því, er ég tók við ráðherrastöðu, að eiga kost á að fá þennan ágæta embættismann fyrir skrifstofustjóra, og vonir mínar um hann hafa ekki brugðizt. Og þótt svo virðist sem nokkur meiningarmunur hafi komið fram milli mín og hans um afgreiðslu fjárl., þá mun hann ekki svo mikill sem virzt gæti fljótt á litið, og sama má segja um meiningarmun þann, sem fram hefir komið milli hans og hv. frsm. n. Ég tel, að vel færi á því, að fjmrh. héldi slíka áminningarræðu til þingsins sem skrifstofustjóri fjármálaráðuneytisins hélt hér áðan, og því skyldi fjmrh. vara þingið við ógætni um afgreiðslu fjárl. Að þessu leyti segi ég, að eins og ég hefði heldur kosið hann fyrir fjmrh. en mig, eins er mér ljóst, að finna megi að því, að ég sé ef til vill bjartsýnni á ástandið en heimilt er. Ég vek þó athygli á því, að mér er ljóst, að tekjuhlið fjárl. er, eins og ég sagði áðan, þannig úr garði gerð, að treyst er nokkuð á fremsta hlunn. T. d. tel ég tekju- og eignarskatt fullhátt áætlaðan, og eins benzínskattinn. En þegar mér og hv. fjvn. er álasað fyrir að fara of langt í þessum áætlunum, er þess að gæta, að bæði mér og hv. n. er ljóst, að svo kynni að fara, að þessar áætlanir reyndust of háar, og því hefir n. borið fram till. um heimild til ríkisstj. til að lækka þessar greiðslur, ef þörf skyldi þykja. Ástæðan til þess er, að þær gætu verið of hátt áætlaðar, og það geta komið fram ýmsar aukagreiðslur, sem ekki er hér gert ráð fyrir. Þá er líka gert ráð fyrir því, ef með þarf, að ríkisstj. geti reynt að afla láns til afborgana á skuldum. Slíkt verður að teljast heimilt, ef nauðsyn ber til, og er ekkert við því að segja, þótt afborganir séu undir slíkum kringumstæðum greiddar með lánum.

Í þessu sambandi vil ég eins og hv. frsm. n. vekja athygli á því, að enda þótt ekki sé hægt að telja þá afgreiðslu fjárl., sem n. leggur til að viðhöfð verði, óforsvaranlega, þá munar þó miklu á henni og hinu, að samþ. allar þær till., sem fram eru komnar og nema um 600 þús. kr. útgjöldum, auk fjölda annara till., t. d. um launauppbætur og kauphækkanir, sem fyrirsjáanlegt er, að fram muni koma. Og ég vil í því sambandi eindregið mælast til þess, að hv. þm. gæti allrar varúðar um að bæta við það, sem n. hefir lagt til, og vona, að flokkarnir komi sér saman um að bæta sem minnstu við, svo sem ástandið er nú. Þess sjónarmiðs gætir nokkuð að vonum, að þegar erfitt er í ári, þá sé því meiri þörf á að halda uppi verklegum framkvæmdum, og virðist sem sumum mönnum þyki sem öllu sé borgið, ef þær kosta ekki mikinn erlendan gjaldeyri. En allar verklegar framkvæmdir kosta erlendan gjaldeyri, og þær kosta a. m. k. kaup, er ríkissjóður verður að borga, og er þá hætta á því, ef áætlanir reynast óvarlegar, að ríkissjóð skorti tekjur í innlendum gjaldeyri til þeirrar greiðslu. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli hv. þm. á því, að nú eru lausaskuldir ríkissjóðs við Landsbankann hærri en á síðasta ári, ekki af því, að afkoman sé svo miklu verri, heldur af því, að þá var tekið lán, svo að ekki þurfti svo mjög að treysta á lánstraust bankans. En nú er hætta á, að taka þurfi lán til að standa straum af afborgunum, og eru því ekki líkur til, að mikið yrði afgangs til að halda uppi verklegum framkvæmdum. En ég er svo bjartsýnn, að ég tel ekki ástæðu til að gera ráð fyrir, að allt lendi í þrotum, og tel því till. fjvn. ekki óforsvaranlegar.

Ég sé ekki ástæðu til að gera till. einstakra þm. að umtalsefni, en læt nægja það, sem ég hefi sagt og hv. fjvn. lýst yfir, að leitazt hafi verið við að mæta sanngjörnum kröfum þeirra fyrir sín kjördæmi, og sýnist mér þeir geta sætt sig við þessa úrlausn n., enda hefir hún fyrir eftirleitan sumra hv. þm. teygt sig lengra en ætlað var. Því tel ég hv. þm. sæma að sýna hóflæti og draga sínar útgjaldatil. sem mest til baka.

Ég mun svo láta staðar numið, þar sem líka flestir hv. þm. eru horfnir úr salnum. Ég vil aðeins minna á brtt., er ég ber fram við brtt. hv. 11. landsk. og tveggja annara hv. þm., till., sem ég held, að valdi nokkru um það, hve umr. manna hafa hér orðið hvatskeytslegar. Brtt. þeirra 11. landsk. er um það, að í stað þess, að menntamálaráði sé falin úthlutun styrkja til skálda og listamanna sé hún falin sjö manna n., en ekki er það tekið fram, hvernig hún skuli kosin. Ég hefi áður látið í ljós þá skoðun mína, að þingið ætti ekki að sleppa úr hendi sér úthlutun þessara styrkja, ekki fyrst og fremst af því, að menntamálaráð á hér í hlut og ég sé því mótfallinn, að það úthluti styrkjunum, heldur af hinu, að ég tel það rangt, að þingið afsali sér þessum rétti. Og ég sé ekki mikinn mun á þessari sjö manna n. og menntamálaráði, ef n. á að vera skipuð utanþm., eins og menntamálaráð er að mestu leyti. Því vil ég bæta því við þessa till., að þessi sjö manna n. skuli kosin úr hópi þm. Þá hverfur líka sá broddur, sem mér skilst, að mörgum hv. þm. þyki felast í till. um, að menntamálaráði verði falin úthlutun þessara styrkja. Og ég geri mér satt að segja í hugarlund, að fyrir flm. brtt. hafi einmitt vakað þetta, þótt láðst hafi að taka það fram, að n. skyldi valin úr hópi þingmanna. Ég vonast til þess, að hv. flm. geti fallizt á brtt. mína og þeir aðrir hv. þm., sem brtt. þeirra eru fylgjandi.