29.12.1939
Sameinað þing: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

1. mál, fjárlög 1940

*Magnús Gíslason:

Herra forseti! Ég hafði aðallega kvatt mér hljóðs til að bera af mér sakir, sem hv. frsm. fjvn. lét sér um munn fara í minn garð, þegar hann var að svara því, sem ég sagði um afgreiðslu fjárl. í heild sinni og stjórn fjvn. í þeim efnum. Nú get ég sleppt því. Hæstv. fjmrh. tók af mér fyrirhöfnina og svaraði þessu miklu betur en ég hefði gert það sjálfur. Ég vil aðeins taka fram, að óþarfi var fyrir hv. frsm. fjvn. að undrast, hvernig ég, sem væri undirmaður fjmrh., talaði, því að vitanlega talaði ég út frá sannfæringu minni sem kjörinn þm. þessa hv. Alþingis. Ég held hann hafi verið að finna að því, að ég hafi sjaldan komið á fundi í n. Það var ekki mitt að koma þangað óboðinn, en hún hefir gert lítið að því að óska eftir nærveru minni. Ég kom þar einu sinni til að skýra henni frá yfirliti, sem gert hafði verið um tekjur ríkissjóðs um tvo mánuði, eftir að styrjöldin hófst, okt. og nóv. Ég vil geta þessa hérna, því að það getur gefið upplýsingar um þau áhrif, sem ófriðurinn getur haft á tekjur ríkissjóðs, þótt ekki megi draga allt of ákveðnar ályktanir af þeim vísbendingum. Með því að bera mánuðina okt.-nóv. á þessu ári saman við sömu mánuði í fyrra sést, að tekjur hafa alls orðið um 700 þús. kr. lægri nú en þá. Þó að lækkunin sé að vísu mest á manntalsþingsgjöldunum, tekju- og fasteignasköttum og lestagjaldi, sem ekki geta lækkað vegna stríðsins beinlínis, heldur af því, að minna innheimtist, er það alvarlegt tákn, að vörutollur varð 1/3, eða um 100 þús. kr., lægri en á sama tíma í fyrra, og stafar það sýnilega af minnkandi innflutningi, en verðtollur varð aðeins um 10 þús. kr. hærri en í fyrra, þrátt fyrir bæði gengisbreyting og mikla verðhækkun af öðrum ástæðum. Ég skýrði því n. frá, að tekjur mundu líklega verða talsvert rýrari en gert hafði verið ráð fyrir.

Ég skal ekki orðlengja um afgreiðslu frv. Þm. verða að athuga, að það er ekki ríkisstj., sem ber ábyrgð á henni, og ekki heldur fjvn., þótt hún ráði þar kannske einna mestu, hverjar niðurstöður verða. Það eru þm. allir, sem bera ábyrgðina, og ég vil beina því til allra að athuga vel, áður en atkvgr. fer fram, þá ábyrgð, sem á þeim hvílir í þessu efni.