30.12.1939
Sameinað þing: 24. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

1. mál, fjárlög 1940

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort þessi brtt., sem hér liggur fyrir geti komið til atkv. Ég bendi á það, að það er ein af fyrstu og algildustu reglum um lagasetningu, að ekki sé breytt grundvallarreglum almennra 1. með fjárlögum. Það er ekki hægt en með þessu ákvæði, ef samþ. yrði, væri breytt grundvallarreglum almennra laga um síldarverksmiðjur ríkisins. Ég tel þess vegna, að samkv. þessum almennu reglum geti þessi till. ekki komið til atkv. og ég hygg, að það hafi verið vegna þessa, að fjvn. dró till. til baka. Ég vil þess vegna óska eftir úrskurði hæstv. forseta um þetta atriði.