03.03.1939
Neðri deild: 12. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Áður en gengið er til atkv. vildi ég segja nokkur orð um brtt. á þskj. 35. Yrði hún samþ., þýddi það, að um 780 þús. kr. rynnu til byggingarsjóðanna, en tilsvarandi halli myndaðist á fjárl. eins og nú er frá þeim gengið. Þá yrði annaðhvort að færa niður liði á fjárl. eða afla nýrra tekna sem þessu svarar. Það er ekkert nýtt mál, sem hér er deilt um. Síðan lögin 1931 voru sett, hefir það verið uppi á hverju þingi, því að nauðsyn hefir þótt til að fresta framkvæmd þessa ákvæðis. En í staðinn hefir verið útvegað allmikið fé til byggingar verkamannabústaða. Nú er það um 80 þús. kr., en alls munu um 180 þús. kr. hafa verið veittar sem ríkisstyrkur til verkamannabústaða. Sveitirnar hafa fengið nokkru meira, og engin ástæða til, að sérstök óánægja komi fram yfir því, hversu þær séu leiknar í þessu efni. Það mun ekki þykja fært að auka framlögin til bygginga nærri því, sem hér er stefnt að. En þó kann að vera, að við afgreiðslu fjárl. megi auka þau eitthvað.