03.03.1939
Neðri deild: 12. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Einar Olgeirsson:

Hæstv. fjmrh. lætur svo sem illa líti út með fjárlögin. Ég vil spyrja, hvort ekki felist dálítil hækkun á tollum í tollskrá þeirri, sem nú hefir verið lögð fram í hv. Ed. til samþykktar, jafnvel um svo sem 700 þús. kr. Ég vil spyrja, — meðan lækkunartillögur okkar sósíalista við hana eru enn ekki samþ. —, hvort sú hækkun mundi ekki svona nokkurn veginn standast á við tekjur tóbakseinkasölunnar. Síðasta ár varð líka tekjuafgangur á ríkisreikningi um liðug 1700 þús. kr., svo að mér finnst ekki neinn voði að bera fram brtt. okkar. Ég hygg, að fjárhagur ríkissjóðs sé ekki svo sérstaklega slæmur, að ríkissjóður gæti ekki séð af þessum 700 þús. kr. til bygginga. Ég held, að aðalatriðið, sem liggur fyrir okkur nú, sé að gera ráðstafanir til þess, að afkoma fólksins og atvinnuveganna verði eitthvað betri en hún hefir verið. Og því takmarki mætti ná m. a. með því að byggja betri íbúðarhús í landinu og sjá til þess, að fullnægt sé atvinnuþörf landsmanna. Ég sé því ekki vegna fjárhags ríkissjóðs ástæðu til að taka til greina mótmæli hæstv. fjmrh., því að ég hygg fjárhag ríkissjóðs ekki í neina hættu stefnt með því að samþ. brtt. mína. Hitt er vitað, að fjárhagur verkamanna og bænda í landinu er það slæmur, að ekki veitir af að hjálpa þeim mönnum eins og í þessari brtt. er farið fram á.