15.12.1939
Efri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Þar sem nú vantar hv. 2. flm.till. á þskj. 402 og hv. 3. flm. hennar hefir ekki enn tekið til máls, mun ég að þessu sinni leiða þá till. hjá mér, að mestu leyti, en gera aftur á móti grein fyrir mínum brtt.

Ég vil fyrst deila á það ósamræmi, sem fram hefir komið í því, að nú, þegar uppi eru tiltölulega háværar raddir um, að nauðsynlegt sé að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að fólkið, sem nú safnast í þorpin og bæina í þessu landi og hefir ekki atvinnu þar, og sumir segja, að þetta fólk þurfi að flytjast aftur út í dreifbýlið og fá atvinnu þar, að þá sé á sama tíma og þetta er sagt verið að skerða möguleikana til þess, að fólkið í dreifbýlinu geti tekið á móti þessum mönnum, en það er einmitt það, sem gert er með ákvæðum í þessum till. Brtt. mínar miða að því, eins og þær bera með sér, að reyna að styðja að því, að sem minnst verði gert í þessa átt.

Ég hefi flutt brtt. um, að 8. tölul. frv. falli niður. Ræktunarsjóður á eftir l. að fá 1 millj. króna framlag frá ríkissjóði alls. Hann er nú búinn að fá 864155 kr., og á því enn eftir að fá liðlega 100 þús. kr. Hag ræktunarsjóðs er nú svo komið, vegna ýmsra skerðinga, sem hann hefir orðið fyrir af hálfu hins opinbera, að hann er ekki fær um að veita lán af sjálfsdáðum, en verður að fá lán hjá öðrum deildum bankans. Á lánum ræktunarsjóðs hafa einmitt flestar framkvæmdir í sveitum landsins verið byggðar á undanförnum árum, svo það er mjög óheppilegt að skerða möguleika hans til að lána landbúnaðinum, á sama tíma og talað er um, að fólkið, sem gengur atvinnulaust í þorpum og bæjum landsins, þurfi að fá atvinnu í sveitunum, hjá þeim einstaklingum, sem þurfa að fá þessi umræddu lán, til að geta gert framkvæmdirnar. sem fólkinu er ætlað að vinna við.

Ég legg því til, að þessi liður verði felldur niður, til þess að ræktunarsjóður fái það, sem honum ber, á árinu 1940.

Önnur brtt. mín er við 11. lið og fjallar um það, að fjárveitingin á árinu 1940 til búfjárræktar skuli hækkuð upp í 70 þús. krónur. Fjárframlag það, sem þar um ræðir, er veitt eftir búfjárræktarl. Það leiðir af sjálfu sér, að því fleiri bændur, sem eru í búfjárræktarfélögunum og taka þátt í því starfi, sem undir þau heyra, því meira vaxa útgjöld vegna búfjárræktarfélaganna. Styrkurinn til félaganna er mismunandi; í sumum þeirra er miðað við fjölda þeirra manna, sem í félaginu eru, í öðrum félögum er aftur á móti miðað við fjölda búpeningsins, sem þeir eiga, eða þá að miðað er við verklegar framkvæmdir, svo sem girðingar o. s. frv. Því meiri þátttaka, sem er í félagsskapnum, því meiri þörf er fyrir tillag ríkissjóðs. Á síðasta þingi, eða fyrri hluta þessa þings, var styrkur til nautgriparæktarfélaga hækkaður í kr. 2.50 pr. kú, og hlýtur af því að leiða hækkun á styrknum, en þessu virðast þingmenn hafa gleymt. Ef ekki á að veita nema 62 þús. kr. til búfjárræktarfélaganna á næsta ári, þá verður að taka það fram í lögunum, hvernig á að framkvæma þann sparnað, því það nægir ekki að segja, að búnaðarfélögin eigi að ákveða það, því mennirnir, sem eru í félögunum, eiga heimtingu á sínum vissa styrk samkv. l., nema búið verði að ákveða með öðrum l., að hann skuli lækka. Það er ekki nóg að lækka heildarframlagið. Ég álít, að minnsta upphæðin, sem hægt sé að komast af með, sé 70 þús. kr. Enn er ekki séð fyrir, hve mörg ný nautgriparæktarfélög kunna að bætast við og hve mörg fóðurbirgðafélög, sem þá fá um leið rétt til styrks. Að vísu eru búfjárræktarfélög fyrir nautgripi nú þegar í annari hverri sveit landsins, en það eru ekki nema milli 30 og 40 fóðurbirgðafélög starfandi, svo tala þeirra getur vaxið mikið á næsta ári.

Á þessu ári hafa bætzt við eitthvað um 20 félög, og útgjöld til þeirra munu hafa verið um 3 þús. kr. Ég veit auðvitað ekki, hve mörg félög verða stofnuð á næsta ári, en á námskeiði, sem var haldið fyrir menn, sem ætla að starfa hjá þessum félögum, voru 20 menn frá nýjum félögum, sem eiga að fá styrk í fyrsta sinn á næsta ári, svo það er alveg víst, að þessi 62 þús. hrökkva ekki fyrir næsta ár.

Hvað sem því líður nú, að menn vilji reyna að lama ræktunarsjóð eins og gert er með 8. tölul. þessa frv., þá vona ég, að menn vilji ekki reyna að lama tilraunir hans frekar en gert er þar, en það verður gert, ef menn ekki samþ. 3. brtt. mína á þskj. 431, sem er við 17. tölul. frv. og er um að fella niður vaxtatillagið, sem á sínum tíma var ákveðið, að þeir bændur skyldu njóta, sem hefðu vaxtahærri lán en 5%. Árið 1938 voru í þessu skyni greiddar 28 þús. kr. og árið 1937 40 þús. kr. Ég álít, að allir séu sammála um, að ástæðan til þess, að Búnaðarbankanum var breytt og vextir gerðir 5%, var, að menn töldu, að landbúnaðurinn þyldi ekki hærri vexti af fasteignaveðslánum. Því legg ég til, að 17. tölul. verði felldur niður og aftur verði tekið upp að greiða vaxatillagið. En þar sem mér hefir heyrzt. á ýmsum mönnum, að það væri vafamál, að þessi till. mín næði fram að ganga, þá kom ég með till. til vara um, að aftan við liðinn bættist ákvæði um, að Búnaðarbankinn þurfi ekki að greiða vaxtatillag af ræktunarsjóðsbréfum þeim, sem eru í umferð. Ræktunarsjóður á um 2600000 kr. úti í bréfum, sem hann borgar 6% af. Hann hefir gefið út þessi bréf, sem veita honum hans aðaltekjur, og af þeim eru í umferð yfir 2,6 millj. kr. Með þessum bréfum, sem eru í eign einstakra manna, hefir bankinn orðið að greiða 1% vexti, og eru það um 26 þús. kr., sem hann hefir orðið að borga í þennan vaxtamismun síðastl. ár, þar sem hann fær ekki nema 5% af útlánum sínum. Það er almennt talið, að þetta vaxtatillag hafi upprunalega komizt inn í liðinn af óaðgæzlu. Þegar svo l. um Búnaðarbankann var síðast breytt, var þetta talið sjálfsagt og réttlátt ákvæði, og því l. breytt í það horf, að bankinn gæti haldið áfram að veita bændum fasteignaveðslán gegn 5% vöxtum, en beint til þess ætlað, að hann fengi vaxtamuninn endurgreiddan af ríkinu.

Eftir atvikum gæti ég unað við þann milliveg, sem er milli mín annarsvegar og þeirra hinsvegar, sem mest vilja spara, að b-liður minnar till. yrði samþ. og varatill. mín. Með því næst dálítið í áttina að því, sem ég vil ná, en ekki heldur nema dálítið í áttina. Ég er því viðbúinn. að hitt verði drepið hvorttveggja. En mér kæmi það mjög illa fyrir sjónir, ef þessir tveir liðir verða drepnir.

Um brtt. á þskj. 402 hefir ekki verið höfð nein framsaga ennþá. Þess vegna er kannske ekki rétt að minnast á þær. Ég get þó ekki látið hjá liða að benda á, að 1. liður a. í þeirri brtt. er ákaflega viðsjárverður til að framkvæma hann á þessu ári. Það er nú svo, að byggingar- og landnámssjóður skuldar öðrum deildum bankans mikið fé, svo mikið, að það, sem hann fær inn í vöxtum af sínum lánum, er ekki nema nokkrum þús. kr. meira en það, sem hann þarf að borga í vexti af sínum skuldum. Ef hann því er sviptur framlagi ríkissjóðs eða það er skorið mjög við nögl, verður lítill möguleiki fyrir byggingar- og landnámssjóð að lána á næsta ári. Ég geri ráð fyrir, að þegar þetta kom fram frá þeim þremur fjvnm., þá hafi þeir gert ráð fyrirað á næsta ári verði sama sem ekkert byggt, og það hygg ég, að sé í sjálfu sér alveg rétt. Ég tel það mjög óhyggilegt að byggja fyrir þessi lán á næsta ári, ekki fyrst og fremst frá sjónarmiði lánsstofnananna, heldur vegna þess, að það sé ekki eðlilegt að lána á því ári, vegna þess að ég álit það hengingaról, sem sá bóndi legði um háls sér, sem byggði á svo dýrum tíma, að þegar venjulegir tímar koma á eftir með verðfall, þá verði lánið honum svo mikil byrði, að hann varla risi undir því. Þess vegna vil ég ekki styðja að því, að neitt verulegt verði byggt á árinu, sem í hönd fer. En það, sem ég hygg, að hv. flm. brtt. á þskj. 402 gleymi, er, að það er nú þegar búið að byggja mesta fjölda af húsum, sem eftir er að veita lán út á. Undanfarin 2 ár hefir verið byggt upp í sveitum hér á landi það ört, að með sama áframhaldi yrði búið að byggja upp á hverju býli, sem nú er byggt á landinu, á 20–23 árum og skuldir bænda þá líka auknar úr 22 millj. í 35. Ég hefi oft sagt, að ég teldi þennan vöxt of öran, en ég áliti, að það væri góður gangur á endurbyggingunum, er við gætum byggt upp í sveitunum fyrir afborganir af þeim 22 millj., sem bændur skulda nú vegna þessara lána, þannig að þegar búið væri að byggja upp, sem þá gerðist á ca. 38 árum, þá væru þær skuldir svipaðar og nú. En þessi öri vöxtur hefir orðið þess valdandi, að ekki hefir komizt að nema partur af þeim hópi manna, sem hafa byggt upp hjá sér, og þess vegna bíður nú fjöldi bænda með að fá lán. Byggingar- og landnámssjóður mun vera búinn að lofa lánum, sem eru hærri að upphæð en það fé, sem hann hefir til umráða á næsta ári, ef það verður skorið niður að þeirri tölu, sem brtt. 402 gerir ráð fyrir. Og þó mun vera búið að byggja hús á þessu ári, sem ekki hefir komið til umsóknar um lán til, af því að það hefir verið talið vafalaust, að þau fengjust, þó ekki væri búið að sækja um þau, enda eru vanalega ekki teknar ákvarðanir um slíkt fyrr en í febrúar eða marz. Ég tel óforsvaranlegt að stöðva lánastarfsemi sjóðsins með því að gefa ekki kost á lánum til þessara þegar byggðu húsa. Fyrir þær byggingar munu menn nú skulda verzlunum, prívat mönnum og í víxlum, og liggja þau lán þannig þangað til þau komast í byggingar- og landnámssjóð.

Ég vil biðja menn að athuga mjög gaumgæfilega, hvort þeim finnst ekki alveg sjálfsagt að láta þetta árið, 1940, byggingar- og landnámssjóð halda sínu framlagi úr ríkissjóði. En á árinu 1940 verður sjálfsagt sama sem ekkert byggt, og þá getur komið til mála, hvað miklu á að kippa af þessum sjóði af framlagi ríkissjóðs, og það þá kannske meiru en hér er farið fram á, fyrir árið 1941.

Það er dálítið einkennilegt samræmi, sem kemur fram í hugsun þeirra manna, sem eru með þeim till. annarsvegar að vilja láta fólkið fara út í sveitirnar úr kaupstöðunum og kauptúnunum til að rækta landið, en vilja svo hinsvegar flippa að sér hendinni með lán úr ræktunarsjóði, þannig að það virðist, að þeir geti ekkert gert við þetta fólk, þegar það kemur út í sveitina, annað en að láta það á einhverjar ónýtar engjaberjur. Þetta finnst mér ekki hugsað til þrautar hjá þeim, sem með þessum till. eru.

Ég vænti þess, að ég hafi gert þá grein fyrir þessu, að menn sjái veilurnar og öfugstreymið, sem í þessu er. Ég vona, að menn geti verið sammála um, að rétt sé að samþ. b-lið till. minnar á þskj. 431 og varatill. mín við c-lið og að drepa a-lið undir 1. till. á þskj. 402.