19.12.1939
Efri deild: 88. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Fjhn. hefir nú litið yfir þetta frv., sem reyndar er hér nokkuð kunnugt, og leggur n. til, að það verði samþ. eins og það liggur fyrir. Að vísu er í 12. lið frv. dálítið einkennilegt ákvæði, sem fjhn. hefir litið svo á, að myndi vera prentvilla, en þá hefir frv. farið þannig gegnum hv. Nd. eins og það er prentað nú. Þar stendur svo: „Á árinu 1940 má ekkja verja úr ríkissjóði meira en 4 þús. kr. til kaupa á tilbúnum áburði.“

Ég vil skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki mætti leiðrétta þetta í prentun án þess að gefa út brtt. um það. Slíkar prentvillur geta verið óviðkunnanlegar, og ef ætti að fara alveg eftir bókstafnum, geta þær gefið beinlínis aðra merkingu heldur en annars var ætlazt til. Sérstaklega getur það skipt miklu máli, ef prentvillur eru í ártölum, t. d. ef stæði til ársloka 1941 í staðinn fyrir til ársloka 1940.

En annars liggja hér fyrir brtt. á þrem þskj. við þetta frv., og tel ég réttast að heyra fyrir þeim mælt áður en ég tala um þær frekar. Brtt. á þskj. 402 getur þó verið eðlileg, en þó tel ég réttara, úr því að ekki var hægt að ná tali af flm. þeirrar brtt. áður en málið var afgr. í n., að bíða eftir því, að fyrir þeirri brtt. verði mælt og sama máli gegnir einnig um brtt. á þskj. 431 og þskj. 438.