19.12.1939
Efri deild: 88. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Bernharð Stefánsson:

Fjvn. hefir athugað þetta frv., og þar að auki höfum við þrír nm. flutt brtt. við það á þskj. 402. Það er hið sama um þær brtt. að segja eins og þær, sem sömu menn fluttu við frv., sem hér var á ferðinni í gær, til þess að þær brtt., sem fjvn. byggst að flytja, komi ekki í bága við gildandi lagaákvæði.

Fyrst er brtt. um, að á eftir 8. lið 1. gr. bætist 2 nýir liðir; a-liður er um það, að á árinu 1940 lækki framlag ríkissjóðs til byggingar- og landnámssjóðs um 75 þús. kr., og þurfi þess vegna ekki að vera nema 125 þús. kr., í stað 200 þús. kr., sem ákveðið var í l. um þann sjóð. Ástæðan til þess, að sú brtt. er borin fram, er í fyrsta lagi sú, að fjvn. leitaði fyrir sér þar, sem hún eygði nokkra möguleika til að spara útgjöld ríkissjóðs, og að þarna var borið niður, stafar m. a. af því, að gert er ráð fyrir, vegna gjaldeyrisörðugleika og þess, hve byggingarefni hlýtur að verða dýrt á næsta ári, að mjög lítið verði um byggingar bæði í sveitum landsins og kaupstöðum á næsta ári. Enda gat fjvn. ekki gengið eins langt og fyrst hafði komið til orða, að lækka framlag ríkissjóðs til byggingar- og landnámssjóðs niður í 50 þús. kr. á árinu 1940, og var það vegna þess, að síðastl. sumar voru byggð mörg hús, sem fengu loforð um lán úr byggingarsjóði, þó að þau lán hafi ekki verið útborguð ennþá. Fjvn. þótti því alveg óhjákvæmilegt að halda 125 þús. kr. framlaginu til byggingar- og landnámssjóðs í fjári. næsta árs, þrátt fyrir það, að ekki verður gert ráð fyrir nýbyggingum á því ári, og eru þessar brtt. við „bandorminn“ því miðaðar við þetta.

Um b-lið í þessari fyrstu brtt. okkar þriggja. sem sæti eigum í fjvn., er það að segja, að hann er að vísu borinn fram af sömu ástæðu sem hinn fyrri. Hún er á þá leið, að framlag ríkissjóðs til fiskveiðasjóðs Íslands verði ekki nema 30 þús. kr. á árinu 1940. En þó að slíkt ákvæði verði sett í fjárl., kemur það ekki í bága við nein gildandi l. Þar er að vísu um skuldbinding að ræða, sem ríkið á að hafa fullnægt á árinu 1941 samkv. l. um fiskveiðasjóð Íslands, en það er ekkert um það í þeim l., að ríkissjóður eigi að leggja fram 60 þús. kr. til sjóðsins endilega á næsta ári. Ég býst því við, að við flm. þessarar brtt. tökum b-lið hennar aftur, því að hann er í sjálfu sér óþarfur.

Þá er ein brtt. við 12. lið (tilbúinn áburður), að hann falli niður, m. ö. o., að ekki verði veitt fé úr ríkissjóði til kaupa á tilbúnum áburði á árinu 1940. Fjvn. hugsar sér, að spara megi það fé, sem þar er um að ræða, og ef þessi brtt. verður samþ., lagast af sjálfu sér ákvæðið um ekkjuna, sem hv. frsm., 1. þm. Reykv., minntist á.

Hin þriðja brtt. á þskj. 402 er alveg sama eðlis. Hún er á þá leið, að á árinu 1940 þurfi ekki að verja úr ríkissjóði til verkfærakaupasjóðs nema 25 þús. kr., í stað 60 þús. kr. Að vísu munu allir dm. vera sammála um, að þarflegt er að verja sem mestu fé í þessu skyni, en sparnaðarástæður valda því, að fjvn. ber fram þessa till.

Þá kemur fjórða brtt. á þskj. 402, sem er alveg sama eðlis, borin fram í sparnaðarskyni. Hún er á þá leið, að heimild sú til greiðslu úr ríkissjóði á 400 þús. kr. til fiskimálasjóðs af útflutningsgjaldi sjávarafurða, sem veitt er samkv. 13. gr. l. nr. 75 31. des. 1937, falli niður á árinu 1940.

Fjvn. hugsar sér að bera fram brtt. við fjárl. fyrir árið 1940 í samræmi við þær brtt., sem einstakir þm. báru fram við fjárl. við 2. umr., en hafa nú verið teknar aftur til 3. umr. Þess má geta, að önnur uppástunga hefir komið fram um þetta efni, að fara nokkru vægara í sakirnar heldur en gert er ráð fyrir í þeirri brtt., sem ég hefi nú síðast minnzt á, en ég hefi ekki umboð til að breyta þeirri till., er hér liggur fyrir, í samræmi við þá uppástungu, því að jafnvel þó að það yrði ofan á, að verja skyldi nokkrum hluta af útflutningsgjaldi til fiskimálasjóðs, tel ég, að það myndi verða óhætt og líka hentugt að samþ. þessa brtt. hér í hv. Ed., þar sem 2 þm. báru slíka till. fram við 2. umr. fjárl., og eiga þeir báðir sæti í hv. Nd., og þegar þetta frv. kemur þangað, þá myndi þetta ákvæði verða fært til samræmis við það, sem líklegast má telja, að þingvilji sé fyrir. Ég held því, að það sé réttast, þrátt fyrir þann ágreining, sem nú hefir komið í ljós um þetta atriði, að þessi till. verði borin undir atkv. hér í hv. Ed.

Einnig liggur hér fyrir brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. á þskj. 438, en af því að ég er ekki frsm. fjhn., ber mér ekki skylda til að tala um aðrar brtt, en þær, sem ég flyt sjálfur. En ég vil taka það fram, úr því að ég stóð hér upp, að ég fyrir mitt leyti er alveg samþykkur brtt. á þskj. 438. Hún er á þá leið, að aftan við 17. tölul. bætist; „Þó skal ríkissjóður greiða til ræktunarsjóðs 1% af jarðræktarbréfum þeim, sem eru í eigu annara en Búnaðarbanka Íslands.“ Vitaskuld er alveg ómögulegt að ætlast til þess, að það ástand haldi áfram, sem verið hefir undanfarin ár, að ræktunarsjóður verði að greiða hærri vexti af jarðræktarbréfum heldur en þá, sem hann fær af lánum, sem hann lánar út. En á hinn bóginn vil ég taka það fram út af þessu, að ég lít svo á, að 17. tölul. þessa frv. samsvari eldri l. um bráðabirgðabreyt. nokkurra l. Ég álít, að hann felli ekki niður heimild til að greiða 1% í vexti. Ég tel, að þar sé í raun og veru um hið sama að ræða, sem brtt. hv. 1. þm. N.-M. fer fram á, þrátt fyrir l. Þau banna það ekki, því að það er ekki hægt að kalla, að þetta séu vextir af fasteignaveðslánum bænda, en það gilda sérstök lagaákvæði um þetta atriði. En eins og kunnugt er, þá hefir það verið framkvæmt þannig, og sennilegt, að þetta lagaákvæði verði notað á þann hátt, að þetta framlag úr ríkissjóði til vaxtagreiðslu verði fellt niður, eins og undanfarin ár. Til þess að taka af öll tvímæli um þetta efni tel ég fyrir mitt leyti rétt að samþ. þessa brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. á þskj. 438. Ég vildi þó aðeins geta þess um þetta, að ég vil, að þetta sé tekið skýrt fram. Að sjálfsögðu tala ég ekki fyrir hönd fjvn., enda er ég ekki frsm. hennar í þessu máli, heldur segi ég aðeins mína skoðun á þessu atriði.