19.12.1939
Efri deild: 88. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég held, að það væri rétt fyrir hv. d. að samþ. það frv., sem hér liggur fyrir, óbreytt, að viðbættum till. á þskj. 402. Satt að segja held ég, að þær brtt. aðrar, sem hér eru bornar fram, séu meira og minna af handahófi gerðar og út í loftið, án þess að hv. flm. hafi gert sér grein fyrir, hvort þeirra væri þörf. Sem dæmi vil ég benda á það, að einn hv. þdm., sessunautur minn, hefir lagt á móti till. á þskj. 402 um það, að lækkað væri framlag til byggingar- og landnámssjóðs, og fullyrðir, að það sé of mikið að lækka það um 75 þús. krónur, eða úr 200 þús. krónum í 125 þús., og fullyrðir, að ekki megi lækka það um meira en 50 þús. Nú upplýsir hv. fjvn., að hún hafi átt tal um þetta við bankastjóra Búnaðarbankans, og hafði náðst samkomulag við hann um það, að þetta tillag yrði lækkað um 75 þús. kr., og ætla ég, að bankastjóra Búnaðarbankans sé fullt eins vel treystandi og hv. 1. þm. N.-M. til að segja, hvað fært er að gera í því máli, og hygg ég, að sama sé að segja um fleiri þær till. og mótmæli, sem komið hafa fram gegn frv. T. d. mun svo vera um till. á þskj. 402, sem hv. 10. landsk. var að mótmæla og till. er fram komin um í sambandi við fjárlfrv., um að ætla fiskimálasjóði 100 þús. kr. meira af þessum tekjum en gert var ráð fyrir. Ég hygg, að þeir menn, sem eru með þessa till. um, að nauðsynlegt sé að ætla fiskimálasjóði þetta meira fé, hafi ekki gert sér grein fyrir því annarsvegar, hvaða tekjum fiskimálasjóður getur átt von á næsta ár umfram það, sem verið hefir undanfarið, og hinsvegar held ég, að það sé mjög hæpið að ætla sér að halda áfram þeim framkvæmdum, sem fiskimálasjóður hefir með höndum, svipað og verið hefir. Það hefir verið talað um frystihúsin í þessu sambandi. Ég álít, að varlega sé farandi í að auka þau mjög hér á landi fyrst um sinn. Við vitum ekki, hvaða markað við kunnum að hafa í næstu framtíð fyrir frystan fisk, og meira að segja hæpið, hvaða markað við höfum fyrir þann frysta fisk, sem frystihúsin, sem þegar eru komin, geta fryst, hvað þá ef bæta á við þau. Hitt vitum við nokkurn veginn með vissu, að þegar stríðinu lýkur, þá eru engar líkur til, að markaður verði fyrir það fiskmagn, sem frystihúsin, sem nú eru til, taka, hvað þá ef á að stórauka þau. Ég verð því að mæla eindregið á móti því, að hróflað verði við till. á þskj. 402, en mælast til, að þær verði samþ. eins og þær liggja fyrir.

Ég veit að vísu ekki, hvernig hv. fjvn. hefir gengið að koma jöfnuði á fjárl., en það mun áreiðanlega reynast svo erfitt, að ekki mun veita af að neyta allra ráða, og það frekar en hér er farið fram á, svo það megi takast.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Frv. á eftir að fara til hv. Nd., og þar verður sjálfsagt tækifæri til að athuga nánar þær aths., sem hér hafa komið fram, og ef rök koma fram, er leiða í ljós, að þær till. séu til bóta á frv., þá er líka enn tími til að kippa því í lag, þegar það hefir verið athugað til hlítar.

Ef svo væri, eins og haldið hefir verið fram, t. d. um 17. lið frv., sem er um vaxtastyrk af fasteignaveðslánum bænda, að með öllu væri ófært annað en að verða eitthvað frekar við þeirra kröfum en gert er ráð fyrir í frv., og fullvíst verður, að ekki verður hjá því komizt, þá má sjálfsagt treysta því, að það verði leiðrétt í hv. Nd., sem ekki fæst leiðrétt hér við 3. umr. Tel ég sjálfsagt, að því megi treysta, að frv. verði rannsakað til hlítar í hv. Nd. og breytt, ef nauðsyn krefur.