20.12.1939
Efri deild: 89. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Frsm. (Magnús Jónsson) :

Ég fór fram á það á fundi í gær, að umr. væri frestað þangað til n. gæti verið búin að athuga brtt. þær, sem fyrir lágu, og segja álit sitt um þær, áður en gengið væri til atkv.

Ég skal í fáum orðum skýra frá áliti n. Ég nefni fyrst brtt. á þskj. 431, frá hv. 1. þm. N.-M. N. hefir ekki getað fallizt á neina af þeim brtt. Að vísu hefir n. getað fallizt á, að ástæða væri til að breyta bæði a- og b-lið, ef fullnægja ætti allri eftirspurn, sem verður eftir fé á þeim liðum. En það er nú svo með þessi l., „bandorminn“, að þau höggva inn í eftirspurnina, svo að segja alltaf, og það mætti í raun og veru ganga í gegnum alla liði þessara bráðabirgðabreyt. og sjá, að hver einasti liður hefir skorið niður ákveðnar þarfir og eftirspurn, sem var fyrir hendi fyrst þegar liðirnir voru settir.

Ef maður tekur t. d. liðinn um byggingar- og landnámssjóð, þá er það auðvitað, að ekki verður hægt að fullnægja allri þeirri eftirspurn, sem kann að verða á árinu. Upphæðin nær ekki lengra en það, að sumir þeir, sem þar eiga hlut að máli, verða að eiga skuldir sínar hjá kónginum, ef svo má segja; þeir verða að bíða til næsta árs, og maður vonar, að það þurfi ekki að skera niður allt framlagið þá.

Ég held einmitt, að það sé heppileg leið, að draga úr þessu smátt og smátt, fyrst litið eitt, svo dálítið meira og loks, ef svo hörmulega fer, að halda verður þessari löggjöf áfram, að taka alveg fyrir þessar fjárveitingar.

Ég býst nú ekki við, að það þyki fært á þessum liðum, en það má tilfæra liði í þessum l., þar sem mjög er skert fjárveitingin, en þó ekki alveg tekið fyrir hana.

N. hefir aftur á móti fallizt á brtt. frá sama þm. við síðustu brtt. á þskj. 431, að aftan við 17. liðinn komi það skilyrði, sem þar er tekið fram, og það er vegna þess, að það er ekki heilbrigt á neinn hátt, að lánsstofnun, sem gefur út skuldabréf, þurfi að greiða áframhaldandi meira af þeim bréfum en vextina, sem hún fær. Það er ekki annað en peningadæla út úr þeirri stofnun, sem hefir bréfin í umferð, enda er með því búið að víkja frá þeim grundvelli, sem slík verðbréfaverzlun upphaflega byggðist á. N. hefir því fallizt á þessa brtt. hv. þm., en getur ekki lagt með hinum.

Ég held, að það þýði ekki, þar sem öllum hv. þdm. er ljóst, hvað um er að ræða, að hafa mjög langar umr. um þetta, og það sé rétt að láta. atkv. skera úr um það.

Brtt. á þskj. 402 hefir n. fallizt á, að undanskilinni 4. brtt., um að fella niður heimildina fyrir ríkisstj. til þess að veita 400 þús. kr. til fiskimálasjóðs, samkv. l. tölul. 13. gr. l. nr. 75 frá 31. des. 1937. Um þá brtt. get ég sagt það, að n. fellst á þá hugsun, sem er þar á bak við, að það beri að leitast við að spara þessa upphæð fyrir ríkissjóðinn, þannig að það megi reikna honum þessa upphæð til tekna. En hinsvegar þótti meir] hl. n. rétt að koma þannig á móti óskum þeirra, sem ekki vilja eiga á hættu, að það þurfi að stöðva alveg þá starfsemi, sem þarna er um að ræða, að styðja mótorbátaútveginn og koma upp frystihúsum, heldur væri þó til heimild, svo framarlega sem tekjur fiskimálasjóðs hrökkva ekki til þeirrar starfsemi, að veita allt að 100 þús. kr. í þessu skyni. Það er mitt álit, að það sé rétt að afgr. fjárl. þannig, að það sé eins og þessi upphæð verði ekki veitt, enda tel ég mjög ósennilegt, að hún verði veitt. Ég álít rétt, að ráðh. veiti ekkert af þessari upphæð, svo framarlega sem aðrar tekjur sjóðsins hrökkva til. Mér hefir skilizt, að menn vilji, að trygging sé fyrir því, að hægt sé að veita úrlausn í þessu efni, ef tekjur sjóðsins reyndust ekki það miklar, sem útlit er nú fyrir. Þess vegna hefir n. mælt með þessu.

Ég held ég þurfi svo ekki að segja fleiri orð fyrir mína og n. hönd að svo komnu.