17.04.1939
Neðri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Landbn. hefir athugað þetta frv. og leggur til, að það verði samþ. Að vísu ber meiri hl. fram brtt. við frv., sem n. í heild hefir ekki getað orðið sammála um, að undanteknum b-lið fyrri till.

Ég skal lýsa ofurlítið brtt. og því, hvaða rök liggja fyrir þeim. Frv. ræðir um undanþáguheimild, sem ákveðin var í sumar með bráðabirgðal. Þar var ákveðið að veita eingöngu veiðifélagi þá undanþágu, sem þar er um að ræða, en meiri hl. n. álitur, að svo geti staðið á, að fullkomin ástæða sé til að veita sömu undanþágu einstaklingum, og hún telur rétt, að það sé í höndum veiðimálanefndar, hvort þetta leyfi er veitt eða ekki.

Þá er b-liður brtt., sem n. stendur öll að, en hann er um það, að aftan við gr. bætist: „enda sé þá veiðitími í heild styttur eftir ákvörðun veiðimálanefndar“. Það er, að þegar vikufriðunin er upphafin, þá verði veiðitíminn styttur, annaðhvort framan af eða að aftan.

Þá er 2. brtt., að á eftir 1. gr. komi ný gr. um það, að aftan við 13. gr. l. bætist: ,nema í lagnet eða króknet, sem fest eru í girðingu út frá landi, þó ekki utan netlaga“. En 13. gr. l. er þannig, að bannað er að veiða lax í sjó. Þetta bann, sem ákveðið var í l. frá 1932, er komið af því, að menn höfðu erlendis fengið reynslu fyrir því, að það að leyfa sjólaxveiði í fjörðum gæti haft í för með sér, að laxinn væri tekinn upp í stórfelld veiðitæki og næði þá ekki að ganga upp í árnar til hrygningar eða notkunar fyrir þá, sem árnar eiga. Og það, sem ennfremur vakti fyrir löggjafanum, var, að laxveiðarnar væru nytjar, sem hér eftir skyldu bundnar við jarðirnar. Ég tel það rétta stefnu, og við henni er ekki haggað með þessari brtt. En það er nú svo, að þó að þetta sé ákveðið, hefir framkvæmdin á l. valdið nokkru misrétti gagnvart einstökum mönnum. Þó að l. ákveði, að ekki megi veiða í sjó, er þetta upphafið aftur í 2. gr., þar sem farið er að skýra það, hvað sé sjór og hvað ekki sjór, og lína dregin, þannig að hérna megin við hana skuli vera sjór, en hinu megin ekki sjór, þó að sjór úr Atlantshafinu sé báðumegin línunnar. Þeir, sem búa innan þessarar línu, mega svo leggja net langt út á víkur og voga, en hinir, sem utan við hana búa, mega ekki leggja netstubb, og hefir þetta af eðlilegum ástæðum valdið allmikilli óánægju. Samskonar misrétti kemur fram í undanþágu, sem veitt er frá þessu. Hafi laxveiði í sjó verið metin sérstaklega í fasteignamati 1932 eða tillit verið tekið til hennar við ákvörðun fasteignarverðs í því mati, þá skal þeim, sem svo er ástatt um, leyfilegt að veiða í sjó framvegis. En þeir, sem eru svo óheppnir að hafa ekki látið meta veiðina, t. d. af vangá, missa réttinn.

Nú viljum við tryggja það framvegis, að ekki verði komið á neinum veiðivélum í sjó, sem hindri laxinn í því að ganga í vötn. En við viljum líka, að laxveiðarnar séu bundnar við jarðirnar sem nytjar þeirra. Við viljum líka slá því föstu, að lax megi ekki veiða utan netlaga. Ýmsir eru hræddir við þetta og telja, að með því sé verið að stefna laxveiðinni í voða. En svo að ég nefni dæmi úr Borgarfirði, þá sjá allir, að ekki er meiri hætta á því, að stöðvuð verði ganga laxins upp í árnar, þó að lagðir séu netstubbar úti við Mýrar, þar sem margar mílur eru milli netjanna, en þegar komið er upp að Hvítárósi, þar sem allar veiðivélar eru leyfilegar. Þó að laxbranda slæðist þangað út og veiðist, getur það engin áhrif haft um göngu laxins upp í árnar. En það er eðlilegt, að mönnum þyki hart að láta taka af sér veiðiréttinn innan netlaga, sem þeir hafa haft frá alda öðli, þegar sýnt er, að þessi réttur getur ekki skaðað laxveiðarnar í heild sinni. Ég hefi því fengið tilmæli um að flytja þessa till. frá mörgum af kjósendum mínum, sem hafa tækifæri til að ná í nokkra laxa við landsteinana. Þegar svo er komið, að aðalbjargræðisstofn bænda, sauðfénaðurinn, er fallinn, þá er hart, að þeim skuli ekki leyfast að nota önnur hlunnindi jarða sinna sér til framdráttar.

Ég ræði þetta svo ekki frekar, því að ég geri ráð fyrir, að allir, sem um það hugsa, hafi gert sér ljóst, að hættulaust er að fylgja þessu máli.