02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Steingrímur Steinþórsson:

Ég mun ekki hafa langt mál um þetta. Ég ætla fyrst aðeins að minnast á brtt. á þskj. 635, frá hv. þm. A. Húnv. og fleirum, um að fresta framkvæmd l. um eftirlit með opinberum rekstri. Fjhn. hefir ekki tekið afstöðu til þessarar till., svo ég veit ekki, hvernig einstakir nm. líta á hana. En einn nm., hv. 6. þm. Reykv., sem á sæti í einu ráðinu, talaði um hana út frá sínu sjónarmiði. Mér skildist á honum, að hann hefði upphaflega verið á móti þessum ráðum og hann teldi rétt að afnema þau. Hann taldi þó, að þessi ráð hefðu gert eitthvert gagn. Hann hélt því jafnframt fram, að þessi ráð kostuðu ríkið litið, þar sem dýrasta ráðið og það ráð, sem hann á sæti í, kostaði ekki nema 900 kr. á ári. Ég hygg, að ef þau gera eitthvert gagn, sem mér skildist á hv. þm., að þau gerðu, þá sé það ekki ofborgað með þessum kr. Ég verð að segja, að eftir ræðu hv. þm. fóru að renna á mig tvær grímur með það, hvort ég ætti að fylgja þessari brtt.

Þá er brtt. á þskj. 623, frá hv. 6. þm. Reykv., um að fella niður síðari hluta a-liðs á þskj. 620, um að heimila ríkisstj. að nota þá upphæð, sem þarna sparast, til þess að bæta útbúnað á gististöðum og fleira í því sambandi. Mér virðist, að ekki sé mjög langt bil milli hv. þm. og annara í fjhn., sem ekki vilja ganga inn á að samþ. þessa brtt., sem hv. þm. bar fyrst fram í fjhn. Hv. þm. viðurkennir, að það muni vera brýn þörf á, að eitthvað sé gert í þessum efnum, að bæta aðbúnað á gistihúsum og athuga betur um hreinlæti á ferðamannaleiðum. Hv. þm. taldi það helzt mæla á móti því að samþ. þetta nú, að ekki hefði farið fram nauðsynleg rannsókn á þessu ennþá, og taldi hann, að ríkisstj. ætti að láta þá rannsókn fara fram og síðan heimila fé úr ríkissjóði til þessara aðgerða. Ég ber nú það mikið traust til ríkisstj., að þar sem þarna er aðeins um heimild að ræða, þá vil ég fela henni þetta í því trausti, að hún láti athuga, hvað nauðsynlegt er að gera, og leggi ekki í aðrar framkvæmdir en þær, sem hún telur nauðsynlegt að gera eftir því ástandi, sem fyrir hendi verður á hinu nýbyrjaða ári. Með það fyrir augum hefir sá hluti n., sem ég fylgi í þessu, ekki viljað fella niður síðari hluta gr.

Það kann vel að vera, að ástandið á hinu nýbyrjaða ári verði þannig, að engin ástæða sé til að hefja framkvæmdir í þessum efnum, því ef til vill koma engir ferðamenn til landsins. Ég sé ekki annað en það sé óhætt, ef þörf er á að gera eitthvað í þessum efnum, að heimila ríkisstj. að gera það, og það er ekkert annað, sem farið er fram á með þessu ákvæði í a-lið brtt. á þskj. 620.

Ég ætla ekki að ræða frekar um prentun þingtíðindanna, því ég hefi sagt álit mitt um það efni áður, en ég vil taka það fram út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði, þar sem hann áleit, að við, sem værum á móti þessu ákvæði og ef til vill einhverjum öðrum ákvæðum, sem fram hafa komið frá fjvn., værum bundnir við að fylgja till. í öllum atriðum, að ég get ekki verið þessu samþykkur. Fyrst og fremst er það af þeirri ástæðu, að ríkisstj. hefir aldrei komið á fund fjhn. til þess að ýta undir það, að n. fylgdi þessu, og í öðru lagi hefir ríkisstj. ekki þannig beitt sér fyrir þessu máli í umr. hér í hv. d., að það liti út fyrir, að hún hafi þessa aðstöðu til málsins. Ég hefi litið þannig á, þó sjálfsagt væri, að höfuðatriðin næðu fram að ganga, eins og ég álít líka, að gert hafi verið, þá væri langt frá því, að einstakir þm., sem annars styðja ríkisstj., væru bundnir við að fylgja þessum till. í einstökum atriðum. Það, að fella niður prentun þingtíðindanna, er gamalt deilumál í þinginu, svo það er ekki að vænta þess, að þeir þm., sem áður hafa verið andvígir því að fella niður prentun þingtíðindanna, muni fylgja því frekar nú, nema þeir þá sjái, að víðtækar ástæður séu fyrir hendi til þess að gera það. En ég hefi ekki getað sannfærzt um það af rökum þeirra hv. þm., sem mælt hafa fyrir því að fella prentunina niður:

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta.