03.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég held, að þær brtt., sem hér liggja fyrir við frv., séu ekki svo mikils varðandi um hag ríkissjóðs, að ríkisstj. hafi neina ástæðu til þess að leggja sérstaklega á móti neinni þeirra.

Brtt. á þskj. 541, frá hv. 2. þm. Skagf., sem fer fram á það, að ríkissjóður greiði 6 þús. kr. meira til búfjárræktar en gert er ráð fyrir í frv., sé ég ekki að geri neitt til eða frá fyrir fjárhag ríkissjóðs.

Brtt. á þskj. 347, um læknishéraða- og prestakallasjóði, sem fer fram á 3000 kr. greiðslu í prestakallasjóði, getur heldur ekki varðað neinu fyrir ríkissjóðinn.

Þá eru loks brtt. um að færa inn í frv. ný ákvæði, sem áður hafa verið í öðru frv., og mér finnst satt að segja, að þær till. séu heldur ekki svo mikils varðandi, að ríkisstj. hafi neina sérstaka ástæðu til að hafa nokkur sérstök afskipti af því, hvort þær verða samþ. eða ekki.

Veigamesta till. er á þskj. 620, um að fresta prentun á umræðuparti þingtíðindanna fyrir árið 1940. Það er rétt, sem hv. þm. Borgf. sagði, að þessi till. er borin fram í samráði við ríkisstj., ásamt ýmsu öðru, sem fjvn. hefir tekið til greina að meira eða minna leyti. Ég get staðfest það, að það var samkomulag um það innan ríkisstj., að þessum till. skyldi verða hreyft. Ég fyrir mína parta hefi haft þá skoðun, að þetta væri minna fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð en margir vilja vera láta. Sannleikurinn er sá, eins og hv. 6. þm. Reykv. benti sérstaklega á, að önnur prentun þingtíðindanna myndi vaxa nokkuð við þetta, vegna þess, að það kæmi fram í skjalapartinum ýmislegt, sem annars er í umræðupartinum. Það er líka ýmiskonar kostnaður við umnæðupartinn, þó hann sé ekki prentaður, sem helzt eftir sem áður, og verður kannske nokkru meiri en áður. Ég get fært nokkur rök að því, að kostnaðurinn myndi sennilega verða engu minni, ef umræðuparturinn verður ekki prentaður, heldur en þó hann væri prentaður, þegar líka er eins ástatt eins og nú, að það er fyrirtæki ríkisins, sem vinnur þetta verk, en af því leiðir, að ef prentunin er felld niður, þá verður afkoma þessa ríkisfyrirtækis nokkru lakari heldur en ef það hefði áfram þetta verk. Það má gera ráð fyrir, að þetta verði að taka úr einum vasanum og láta í hinn, ef fella á niður prentunina.

Það er á gangi vísa hér í þingsölunum um, að ríkisstj. ætli að fara að fara að verða góð stjórn. Eftir málvenjunni er venjulega átt við, þegar drengur á að vera góður drengur og stúlka góð stúlka, að þá eigi að sýna þeim eftirlæti, sem svo hefir mælt. Ég hygg, að svo muni og verða um ríkisstj., hún muni verða þinginu eftirlát um það, hvernig farið verður með þessa till., og ekki gera það að neinu deilumáli, hver úrslit till. fær.