02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég vil taka það fram, að brtt. á þskj. 620 er orðuð þannig: „Fresta skal að prenta umræðupart þingtíðindanna fyrir árið 1940“, og vil ég geta þessa, svo hún verði ekki misskilin. Hygg ég, að hún sé rétt skilin þannig, og mun það hafa verið tilætlun flm., að átt sé við þá prentun, sem fram á að fara á árinu 1940, en ef ekki er gerð sérstök grein fyrir þessu, má skilja það svo, að fresturinn eigi aðeins að ná til prentunar þingtíðinda frá þingi, sem haldið verður á árinu 1940, en prentun fer fram á 1941. Ég veit ekki, hvort hæstv. forseti álítur, að bera þurfi fram brtt. við tillgr., til þess að réttur skilningur náist. Ég sé ekki ástæðu til að gera brtt. að umræðuefni, en skýt því til hæstv. forseta, hvernig hana beri að skilja, og mun úrskurður hans verða óvéfengjanlegur, eins og aðrir úrskurðir hans.

Út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði, að ríkisstj. hefði tekið það að sér að tryggja, að frv. um bráðabirgðabreyt. nokkurra l. kæmist í framkvæmd, þá skal ég geta þess, að hann mun hafa það eftir mér. Ég skal játa, að ég skildi málið þannig, að ríkisstj. stæði saman um þau frv., sem hún hefir sjálf gengið frá og talað um sín á milli. Hinsvegar verð ég að segja, að sumt af því, sem síðar hefir gerzt með samþykkt fjárl„ gæti gefið ríkisstj. ástæðu til að óska eftir að breyta þeirri afstöðu, en það breytir ekki því, að ég mun greiða atkv. með frestun á prentun þingtíðindanna. Ég verð að líta svo á, að þessi prentun sé nauða ómerkileg, og ekki hefir henni farið fram við það, að hv. þm. hafa yfirleitt hætt að lesa ræður sínar yfir. En ég verð að segja, að ég tel þau rök fremur léttvæg, að ekki verði mikill sparnaður að þessu vegna þess, að kostnaðurinn við prentun skjalapartsins muni aukast svo mjög E. t. v. fer svo, en einnig það tel ég til bóta. Ég vil leyfa mér að telja það heppilegra að stækka skjalapartinn, svo að hv. þm. fengju tækifæri til að gera skriflega grein fyrir skoðunum sínum, en fella aftur niður ræðupartinn. Með því fá menn rétta grein gerða fyrir skoðunum sínum, en það fá þeir ekki í umr.partinum. Þm. myndu vanda sig meira með ræður sínar, ef þeir vissu, að þær kæmu almenningi fyrir sjónir eins og þær eru fluttar á Alþ.

Þá vildi ég segja það út af brtt. hv. 6. þm. Reykv. um, að síðari liður a-liðs brtt. á þskj. 620 verði felldur niður, að ég hefi frétt, að hv. 2. þm. Skagf. hafi fellt þetta ákvæði inn í brtt. n. Hér er ekki um annað að ræða en að veita ríkisstj. heimild til að verja nokkurri upphæð til að bæta gististaði, og ég held, að vel megi fella saman framkvæmd þessarar heimildar og skoðun þá, sem lýsti sér í ræðu hv. 6. þm. Reykv. Ég held, að ríkisstj. sé fær um, ef hún fær þessa heimild, að framkvæma hana eins og hv. þm. óskar. Hún mun áreiðanlega gera sér grein fyrir, hvar þörfin er brýnust, og verja svo fénu til að bæta nokkra gististaði, en ég hygg, að allir hv. þm. séu sammála um, að þess sé þörf. Mér þætti betra, ef hv. 6. þm. Reykv. vildi annaðhvort falla frá brtt. sinni, eða þá að hún yrði ekki samþ., út frá þeim rökum, sem ég hefi nú í fáum orðum skýrt frá.