02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Jón Pálmason:

Ég vil byrja á því að segja nokkur orð í sambandi við brtt. á þskj. 635, viðvíkjandi rekstrarráðunum. Það kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv., að það væri óviðfelldið að fara fram á að fresta þessu með l., en afnema það ekki. Ég vil geta þess, að hugmynd okkar flm. þessarar brtt. var, að þessu yrði frestað með l. þetta ár, en svo var auðvitað meiningin, að ráðin yrðu aldrei látin ganga aftur. Viðvíkjandi því, sem sagt hefir verið um kostnaðinn, sem af þessu leiðir, þá skal ég segja það, að það hefir komið í ljós hér eins og viðar í okkar fjármálakerfi, að ekki hefir verið farið sem nákvæmast eftir l., þegar verið er að borga þeim, sem þarna eiga hlut að máli. Í nokkrum tilfellum hefir a. m. k. verið borgað hærra en tilskilið er í l., og ef ég man rétt, hefir öðru því ráði, sem enginn veit til, að hafi starfað neitt verulega, verið borgað hærra en því ráði, sem hv. 6. þm. Reykv. á sæti í og er eina ráðið, sem nokkuð hefir starfað. Sumarið 1938 voru útgjöldin við þessi ráð 4 þús. kr. Það er auðvitað lítil upphæð í augum þeirra manna, sem hugsa í hundruðum þúsunda og milljónum og sjá ekki ástæðu til að binda sig við smáupphæðir. En ég er svo smásmugulegur, að ef þetta er óþörf upphæð, þá vil ég láta fetla hana niður. Ég get fallizt á það, að heppilegra muni vera að hafa eftirlit með starfsemi ríkisstofnana á annan hátt; sérstaklega held ég, að haga þurfi aðalendurskoðun ríkisins á annan hátt.

Snertandi það, sem sagt hefir verið um niðurfellingu þingtíðindanna, þá var það að skilja á hæstv. ráðh., að litlu skipti hvað kostnaðinn snerti. Það hefir verið reiknað út, að það muni nema um 40 þús. kr., og svo verða menn að gera sér grein fyrir því, að nú hefir pappír hækkað mjög mikið í verði, svo þetta verður dýrara en það mundi áður hafa orðið. Ég ætla, að fjvn. hafi með þessu ákvæði ætlazt til, að það næði til prentunar, sem fram ætti að fara á árinu 1940. Ef það er réttur skilningur, sem hér hefir komið fram, þá mun það ekki ná til prentunar, sem fram fer á árinu, heldur til þingt. fyrir það þing, sem haldið verður á árinu, svo nauðsyn ber til að koma með brtt. um það. Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál.

Ég vil vekja athygli á því, sem einnig kom fram í ræðu hæstv. atvmrh., að ef þessi till. verður felld, þá eru þau fjárl., sem búið er að ganga frá, orðin skökk sem þessari upphæð nemur, því við afgreiðslu fjárl. var gengið út frá því, að þessi till. yrði samþ.