06.11.1939
Neðri deild: 53. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

Finnur Jónsson:

Ég þarf ekki miklu að svara hv. 3. þm. Reykv. En það má benda á þann árangur gengislaganna, að dýrtíðin jókst ekki nema 2–3% jafnframt því, sem gengið lækkaði um 20%, og það var aðeins vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar voru til þess að halda dýrtíðinni niðri. Þá er það rangt hjá hv. þm., að neytendurnir í landinu beri allan kostnaðinn, þar sem bannað var að hækka húsaleigu, vexti o. fl. Það væri æskilegt, ef hv. þm. vildi í þessu sambandi skýra frá þeirri baráttu, sem hann hefir undanfarna daga átt við verðlagsnefnd út af olíuverðinu, þeirri baráttu, sem hann hefir háð til að auka dýrtíðina í landinu. Hv. 5. þm. Reykv. ferst ekki að tala um brezk áhrif hér á landi. Það var enginn annar en hann, sem á síðasta þingi bar fram fyrirspurn til forsrh. um það, hvort beðið hefði verið um vernd brezka flotans, ef til styrjaldar kæmi, og er hann eini þm., sem óskað hefir eftir brezkri vernd.

Hv. þm. sagði, að það væri nú hlutverk Alþfl. að kúga verkalýðssamtökin. Hlutverk Alþfl. hefir verið og er að berjast fyrir rétti verkamanna. Að þeim, sem berjast gegn frelsi verkalýðsins og rétti hans til að berjast fyrir bættum kjörum, ætti hv. þm. fyrst og fremst að leita í sínum eigin flokki. Hvernig hefir hann rækt sína stefnu? Ég veit ekki betur en að Kommfl., bæði hér og í Rússlandi, sé búinn að svíkja öll loforð, sem hann hefir gefið, og blað hans, Þjóðviljinn, hefir síðustu vikur verið notað til að verja árásir kommúnista á hlutlaus smáríki. Hv. þm. ætti ekki að kasta hnútum að öðrum flokkum, þar sem ekki er til sá liður á stefnuskrá hans eigin flokks, sem hann ekki er búinn að svíkja.