04.01.1940
Neðri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Hæstv. viðskmrh. skýrði þetta mál fyrir hönd ríkisstj., en ríkisstj. stendur óskipt um málið. Það mætti þess vegna segja, að það væri óþarfi að gefa frekari skýringar en þær, sem fram hafa komið. Þó þykir mér rétt og viðeigandi að gera það hér við þessa umr.

Þessi löggjöf mun vera einhver sú merkasta og óvenjulegasta, sem fram hefir komið á hinum síðari þingum. Vildi ég láta fylgja henni nokkur orð líka frá Sjálfstfl.

Ég dreg í efa, að á seinni árum hafi verið flutt inn á Alþ. jafnstórfelld og róttæk löggjöf, sem fyrirfram má gera ráð fyrir, að valdi jafnlitlum ágreiningi eins og þau l., sem hér liggja fyrir. Og er þó um mál að ræða, sem einmitt venjulega veldur ágreiningi fremur en flest önnur. Eins og viðskmrh. tók fram í upphafi máls sins, var það þegar á öndverðu þessu þingi öllum ljóst, að nauður ræki til að breyta í verulegum atriðum þeim gengisl., sem sett voru fyrri hluta þingsins, nr. 10 frá 4. apríl síðastl. En það atriðið, sem kallaði hiklaust á breytingu, var ákvörðun sú í þeim l., sem hné að því atriði, sem miðað var við 1. jan. næstkomandi. En svo var atriði í þeim l., að taka skyldi meðaltal vísitölu 6 undanfarinna mánaða og reikna vísitölu 1. jan. 1940 eftir útkomu þess meðaltals, og leggja þá vísitölu til grundvallar undir kauphækkun 1. jan. 1940. Nú næði engri átt að hafa þetta ákvæði óhreyft. Þessi ákvæði voru sett til þess að tryggja atvinnurekendum það, að þeir skyldu ekki strax missa þau fríðindi, sem gengisl. gáfu þeim í sambandi við hækkun vinnukaups í landinu. Þetta var réttlátt ákvæði þegar það var sett. En það er líka fjarstæða að ætla sér að binda hendur verkalýðsins í landinu um allar ráðstafanir sér til framdráttar í kaupgjaldsmálum við þetta ákvæði, sem eingöngu var sett sem tryggingarráðstöfun gegn þeirri dýrtíðarbreytingu, sem orsakast af gengisröskun íslenzku krónunnar um 22% vegna gengisbreyt. þann 4. apríl síðastl., og síðan hefir orðið ný gengisfelling um 11% á síðastl. hausti. Og af þessu hlýtur að leiða nýja dýrtíð í landinu. Auk þess hefir orðið verzlunarröskun hér sem annarstaðar af völdum ófriðarins. Og eins og ég sagði, náði engri átt að binda hendur verkalýðsins eins og þær voru bundnar 4. apríl síðastl., til varnar dýrtíð, þar sem þær voru settar út frá allt öðrum forsendum en nú liggja fyrir. Af þessum ástæðum þótti öllum, sem um þetta mál fjölluðu, sjálfsagt, að þessari löggjöf yrði breytt. Um þetta voru bornar fram till. á öndverðu þessu þingi, sem eru í samræmi við vilja margra hv. þm. Ég hygg, að sú till. orki minnst tvímælis, að breyta ætti á þann hátt vísitölu, sem reiknuð yrði út 1. jan. 1940. Þessi brtt. er fram borin með þeim brtt., sem fluttar eru fyrir hönd ríkisstj., og leggur sú brtt. til, að þessi dýrtíðarvísitala útreiknist af meðaltali í okt. og nóv. síðastl. Það liggur í hlutarins eðli, að einmitt þetta er réttlátt vegna þess, að það er einmitt þessi dýrtíð, sem þar kemur fram, hún kemur af orsök, sem löggjafinn gerði ekki ráð fyrir að myndi koma, þegar samþ. voru l. 4. apríl síðastl.

Til þess að rekja orsakirnar til þeirrar öldu, sem risið hefir á Alþingi, sný ég máli mínu að þeirri brtt., sem flutt er fyrir hönd ríkisstj. um breyt. á gengisl. frá 4. apríl síðastl.

Það liggur í hlutarins eðli, að umr. um þetta mál hafa vakið menn til umhugsunar um það, hvort ekki ætti að gera einnig aðrar breyt., og þá hverjar. Og það, sem þá fyrst liggur fyrir og drepið hefir verið á af báðum ráðh., sem hér hafa talað, var það, hve lengi þetta ætti að gilda annarsvegar, og hinsvegar í hvað ríkum mæli l. ættu að tilskilja kaupgjaldshækkun, sem fylgdi dýrtíðinni.

Ég get tekið það fram, eins og báðir hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, hvor fyrir sinn flokk, að Sjálfstfl. er í grundvallaratriðum andvígur því, að löggjafinn taki af þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, bæði atvinnurekendum og verkamönnum, þann rétt, að þeir semji einir um sín mál. Sjálfstfl. telur, að það eigi ekki að víkja frá þessari meginreglu nema í alvarlegum undantekningartilfellum. En það er vegna þess, að það er skoðun Sjálfstfl., að hér sé um gersamlega einstæðar kringumstæður að ræða, að hann hefir fyrir sitt leyti aðhyllzt, að þessi l. væru látin ná út það ár, sem nú er nýbyrjað. Ástæðurnar fyrir því, að flokkurinn hefir gengið inn á þetta, eru þær, að í fyrsta lagi varð að viðurkenna það, að sjaldan hefði ríkt annað eins öryggisleysi í atvinnumálum eins og einmitt nú. Af því leiðir það, að allar vinnustöðvanir, sem oftast fylgja kaupdeilum, gætu einnig orðið það örlagaríkari en venjulega, og hafa þær þó alltaf verið þjóðartap. Það má segja, að þetta hafi verið önnur meginástæðan fyrir því, að Sjálfstfl. gekk inn á, að þessi l. væru í gildi allt árið. Þá er það og ástæða, að flokkurinn taldi, að þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, myndu nú venju fremur vilja sætta sig við, að þessi ákvæði, sem að eðlilegum hætti eiga einungis að vera samningsatriði á milli viðkomandi aðila, yrðu lögfest. Það eru út af fyrir sig mjög sterk meðmæli með löggjöfinni, ef hægt er að treysta því, að aðilar muni una henni vel. En hinsvegar var óttazt, að ef ekki yrðu sett um þetta l., gæti það haft hinar örlagaríkustu afleiðingar fyrir þjóðfélagið. Það er ekki mótsögn í því að halda fram annarsvegar, að miklar líkur bendi til þess, að aðilar uni löggjöfinni, og hinsvegar, að það stafi hætta frá því að hafa þetta lögbundið. Það er nokkuð sitt hvað, hvort hægt er að vekja deilur um þetta af þeim, sem gera það að sérstöku hlutverki sínu í þjóðfélaginu að halda uppi slíkum deilum, eða hvort löggjafinn vill una við þetta fyrirkomulag eftir ástæðum. Af þessum ástæðum var það vilji Sjálfstfl., að þessi ákvæði yrðu látin gilda fyrir allt árið. Hitt ákvæðið, um það, í hve ríkum mæli mætti fylgja dýrtíðinni eftir um kaupgjaldshækkunina, var það eðlilegt, að það ylli nokkrum ágreiningi á milli flokka, sem styðja ríkisstj., og einnig innan flokkanna sjálfra. Ég geri ráð fyrir, að það megi segja, að almenn tilhneiging hafi verið innan Sjálfstfl. til að fara varlega í þessum efnum, út frá því sjónarmiði, að atvinnurekendur standi höllum fæti vegna dýrtíðarinnar. En út frá því sjónarmiði, að verkamenn stæðu ennþá hallara fæti til þess að taka á sig þann þunga, sem af dýrtíðinni leiðir, gat hann fallizt á þessar ráðstafanir. Innan Sjálfstfl. var mesta ástæða til þess, að mestur ágreiningur yrði, því að Sjálfstfl. og þm. hans telja sig umboðsmenn fyrir fleiri og mismunandi hagsmuni heldur en hinir flokkarnir telja sig umboðsmenn fyrir. Innan Sjálfstfl. komu fram nokkuð mismunandi skoðanir, þar sem annarsvegar voru þeir, sem mest vilja líta á þær örðugu kringumstæður atvinnurekenda, en hinsvegar voru þeir, sem einnig litu á hinar bágu kringumstæður verkalýðsins. En ég held, að nokkuð hafi verið farið meðalhófið í till. ríkisstj. á þskj. 673. Ég fyrir mitt leyti vil gera nokkuð nánar grein fyrir því, hvað hefir ráðið minni afstöðu í þessu efni, og eru aðrir flokksmenn óbundnir af því. Það er eðlilegt, að ég hafi skýrt frá, að aðstaðan sé nokkuð misjöfn innan flokks míns í þessu efni. Í vor, þegar ég stóð í fararbroddi fyrir lækkuðu verðgildi íslenzku kr., og þar með stóð að vissu leyti fyrir lækkun kaupgjalds verkalýðsins, því að lækkun kr. er bein kaupgjaldslækkun, þá leiddi ég rök að því, að það væri komið svo fyrir atvinnurekendum í landinu, að ekki væri um að ræða annað en að gerðar væru með beinu lagaákvæði ráðstafanir þeim til framdráttar, eða að öðrum kosti að horfa upp á það, að þeir hnigu að velli örmagna eftir margra ára örðugt stríð við margvíslegar þrengingar, sem þá þegar hefðu dregið svo úr mætti þeirra, að þeir væru almennt talað ekki færir um að standa undir þunganum að óbreyttum kringumstæðum. Ég get því með sanni sagt, að það var ekki um annað að gera en að sýna atvinnurekendum meira réttlæti, vil ég segja, heldur en áður hefir verið gert. Ég gat þá kallað á fórnfýsi fólksins í landinu og sagt: ykkur ber að gera þetta fyrir atvinnurekendur og fyrir ykkur sjálf. Og ég gat sagt ennfremur við verkalýðinn:

það er ekki hægt annað betra að gera ykkur til framdráttar en að samþ. gengislækkunina, vegna þess, að án hennar eru ekki líkur til, að atvinnurekendur geti haldið áfram sem slíkir, og án atvinnurekenda hafið þið ekki lífsframfæri.

Nú er nokkuð önnur afstaða í þessu efni. Nú er ekki hægt að segja, a. m. k. um suma atvinnurekendur, að þeir séu dauðadæmdir. Allt er í meiri óvissu með afkomu atvinnurekenda nú heldur en var þá. En aðstöðumunur í vor og nú er þá þann veg, að það mátti með sanni segja í vor, að atvinnurekendur gætu ekki risið undir þessum bagga, en nú er aftur á móti ekki hægt að staðhæfa það. Hitt er aftur á móti hægt að staðhæfa, að verkalýðurinn í landinu er ekki fær um að standa undir hinni vaxandi dýrtíð án þess að fá kauphækkun. Það má deila um, hvort þessi kaupgjaldsbreyting verður verkalýðnum til svo mikillar blessunar eins og ætlazt er til. Það er spurning, hvort er betra fyrir verkalýðinn að hafa hærra kaup eða stilla því í hóf í von um að fá meiri vinnu. Þetta er sjónarmið, sem aldrei verður hægt að gera upp með neinni öruggri vissu. Hitt er hægt að gera upp með öruggri vissu, að verkalýðurinn stendur ekki uppi bótalaus eftir því útliti að dæma, sem framundan er.

Þess vegna hefi ég gengið svo langt sem gengið er í sambandi við kauphækkunina í samræmi við dýrtíðina. Ég geri ráð fyrir, að menn hafi veitt því athygli, að ég mælti þetta ekki fyrir hönd alls Sjálfstfl., því þar eru til varfærnari sjónarmið en mitt eigið. En ég vil aðeins segja það, svo mönnum sé það ljóst, að ég geng ekki með lokuð augun fyrir þeirri hættu, sem hvílir hér á atvinnurekendum í þessu efni, og ég vil minna á það, sem gerðist í síðasta stríði. 1914 var vísitala innfluttra vara 100, en á því ári komst verð útfluttrar vöru upp í 104. Útfluttar vörur hækkuðu þó meira 1915. Þá var vísitala innfluttra vara 141, en útfluttra 175. 1917 er svo vísitala innfluttra vara 286, en útflutta varan þá allmikið lækkuð niður úr innfluttu vörunni og komst í 217. En mestur verður munurinn 1918, því að þá er verðvísitala innfluttra vara 373, en verðvísitala útfluttra vara 247. Þetta bendir til þess, að sá, sem samþ. þessar till., sem hér liggja fyrir, megi eiga það á hættu, að hann leiði hættu yfir framleiðslu landsmanna. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir þeirri hættu. Ég samþ. samt þetta með góðri samvizku og í þeirri von, að betur takist til með hlutfallið milli innfluttra og útfluttra vara annarsvegar, en hinsvegar vegna þess, að verkalýðurinn getur ekki staðið undir þessari dýrtíð.

Ég skal svo fylgja því, ef það kemur á daginn, að atvinnurekendur standa hallara fæti heldur en nú, að segja verkalýðnum, að hann geti ekki fengið fram sínar kröfur. En fyrr en það liggur fyrir vil ég ekki ganga lengra heldur en ég hefi gert.

Ég skal svo að lokum aðeins segja það, að ef þessi ákvæði verða lögfest, sem þau verða, þá munu þau vekja deilur og ágreining. En ég geri mér samt von um, að hann verði frekar lítill. Og ég hefi örugga sannfæringu fyrir því, að ekkert, sem þetta þing hefir gert, verði til meiri farsældar heldur en að samþ. þessi ákvæði. Því að með því er tryggður vinnufriður í landinu, og ég er sannfærður um, að atvinnurekendur vilja hlíta þessu, og verkalýðurinn álítur ekki, að þetta sé kaldráðið í hans garð.

Ég tel, að afleiðingin af þessu frv. verði sú, að ríkið verði að bæta eitthvað sínum starfsmönnum upp kaup, sem lægst eru launaðir, og geri ég ráð fyrir, að um það muni koma fram brtt. áður en málið fer úr þessari hv. d., sem flutt verði af ríkisstj.