03.01.1940
Neðri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Jón Pálmason:

Ég hefði að vísu kunnað betur við, að fjhn. hefði mælt fyrir þeirri brtt., sem ég geri brtt. við, en þar sem hún hefir ekki gert það, þá þykir mér rétt að segja nokkur orð um þetta mál, og þá sérstaklega þá brtt., sem ég flyt á þskj. 691.

Það er víst, að þetta mál er eitt það þýðingarmesta mál, sem legið hefir fyrir þessu þingi, og því miður kemur það til afgreiðslu svo seint, að það kann að vera nokkuð fljótfærnisleg afgreiðsla á því.

Það er nú svo, að þegar um það er að ræða, að þingið geri till. eða samþ. l., sem fara í þá átt að auka kjarabætur til handa einhverjum hluta þjóðarinnar, þá hefir maður mikla samúð með því, en þó því aðeins, að manni finnist þær byggðar á fullkominni sanngirni og þær stefni í rétta átt. En mér finnst mjög vafasamt, að hægt sé að segja það um ýmislegt af því, sem er í þessum brtt.

Í þeirri brtt., sem liggur hér fyrir frá fjhn. á þskj. 684 og ég hefi leyft mér að gera brtt. við, er svo fyrir mælt, að ríkisstj. skuli heimilt að ákveða í reglugerð verðlagsuppbót á laun embættismanna og annara starfsmanna ríkisins, svo og ríkisstofnana. Ríkisstj. á að vera þetta heimilt, án þess að það sé nokkuð takmarkað, eftir hvaða reglum það skuli gert, og án þess að nokkurt hámark fylgi. Ég verð að segja, að þó ég sé fylgismaður ríkisstj., þá ber ég ekki til hennar svo ótakmarkað traust, að ég vilji láta samþ. till., sem ekki felur í sér neitt hámark á þessu sviði, ekki sízt eins og nú standa sakir í okkar þjóðfélagi.

Ég hefi þess vegna leyft mér að bera fram till. um að takmarka þessa heimild við sömu upphæð og dýrtíðaruppbótin hefir takmarkazt við á undanförnum árum til opinberra starfsmanna. Hvort þetta sé réttlátt í alla staði eða ekki, geta auðvitað verið mjög skiptar skoðanir um. En ég hygg, að það séu naumast skiptar skoðanir um það meðal almennings í þessu landi, að þeir fastlaunuðu starfsmenn hjá ríkinu eða stofnunum þess, sem hafa 5 þús. kr. árslaun eða þar yfir, sé sá hópur manna, sem hafi betri aðstöðu til að lifa heldur en mikill meiri hluti fólks í landinu og þess vegna verði, ef á að fara að bæta þeirra kjör, fyrst að gera einhverjar ráðstafanir til þess að bæta upp þeirra kjör, sem lakast eru settir í þjóðfélaginu. Ég held þess vegna, að öll sanngirni mæli með því, að sett sé eitthvert hámark fyrir því, hvað þessi verðlagsuppbót handa opinberum starfsmönnum skuli ná langt.

Á meðan ekki koma fram nei,n mótmæli gegn þessu, þá skal ég ekki fara um það fleiri orðum, en ég ætla að víkja ofurlítið að því máli, sem hér liggur fyrir, í heild, mjög lauslega þó.

Það hefir verið talað um þetta mál í hv. d. fyrst og fremst frá sjónarmiði verkalýðsins í landinu, og það hefir bólað á því, að sumum mönnum þyki of skammt gengið í þessum brtt. til hagbóta fyrir verkalýðinn. Aðrir eru þó nokkuð hófsamari í skoðunum, þó lítið hafi á því borið.

Ég vil vekja athygli á því, að það hefir gengið svo á undanförnum árum, og það mun fara eins að því er snertir þessar breyt., sem hér er verið að gera, að eftir því, sem kaupgjaldið er hærra í landinu, eftir því verður meiri aukning á atvinnuleysinu, eftir því er lakara hlutfallið milli framleiðslunnar og vinnunnar yfirleitt. Nú er það svo, að ég hefi fengið upplýsingar um það. að á tímabilinu frá 1914–1938, þá hefir hér í Reykjavík orðið hækkun á kaupgjaldi þannig, að ef miðað er við 100 árið 1914, þá var það 420 árið 1938. Á sama tíma hefir framfærslukostnaðurinn aukizt úr 100 árið 1914 upp í 263 árið 1938. Á sama tíma hefir arður af sauðfé, miðað við arð af 100 ám, hækkað úr 100 árið 1914 upp í 183 árið 1938. Mjólk hefir á sama tíma hækkað úr 100 árið 1914 upp í 137 árið 1938. Hækkunin á innlendum afurðum er því mörgum sinnum minni en kaupgjaldshækkunin, og framfærslukostnaðurinn hefir hækkað minna en kaupgjaldið.

Það eitt út af fyrir sig er athugandi í þessu sambandi, að mér skilst, að ef á þetta er litið frá sjónarmiði verkalýðsins í landinu, þá verði hver kaupgjaldshækkun, eins og nú standa sakir, til þess að auka óréttlætið innbyrðis innan verkalýðssamtakanna. Ég tel, að verkalýð okkar lands ríði meira á öðru en hækkuðu kaupgjaldi, honum ríði meira á því að fá aukna atvinnu.

Ég skal taka dæmi: Í fjárl. fyrir hið nýbyrjaða ár er ákveðin upphæð til vegamála. Þessi ákveðna greiðsla verður innt af hendi, en um leið og kaupgjald hækkar, þá skeður það, að annaðhvort verður að fækka þeim mönnum, sem þessa vinnu fá, ellegar, að þeir, sem vinnuna fá, verði jafnmargir, en vinnutíminn hjá hverjum verði styttri. Kaupgjaldshækkunin verður því til þess, að það verða fleiri, sem verða afstands og hafa ekki atvinnu, en ella myndi. Ég skal taka það fram, að ég sem einn af þeim, sem eiga sæti í fjvn., lagði á það nokkra áherzlu, að það yrði að auka vegavinnuféð til þess að skapa atvinnu, en gagnið, sem af því verður, verður minna eftir að kaupgjaldið hefir verið hækkað.

Út í þetta ætla ég ekki að fara nánar, en ég vænti þess, að minn skilningur, að það hafi aldrei verið og verði aldrei neitt allsherjar bjargráð að hækka kaupgjaldið, ef ekki er jafnframt séð fyrir aukinni atvinnu, sé réttur.

Ég hygg, að frá sjónarmiði okkar bændanna, sem höfum á undanförnum árum haft erfiða aðstöðu og orðið að sætta okkur við lakari lífskjör og lifnaðarhætti en almennt tíðkast meðal launafólks í landinu, verði það, að ganga lengra inn á þá braut að hækka kaupið hjá þeim, sem eru í föstum stöðum, að skoðast þannig, að með því sé verið að knýja íslenzka bændur til þess að loka sig inni meira en verið hefir og reyna að bjargast einhvern veginn á þann hátt, að taka ekkert fólk. Það verður því þannig, að það kemur niður á verkalýðnum sjálfum, ef kaupgjaldið er hækkað, og það verður til þess að auka ósamræmið milli þeirra manna, sem hafa vinnu, og hinna, sem hafa stopula eða enga vinnu. Þetta er frá mínu sjónarmiði lakasti gallinn við það að hækka kaupgjaldið til mikilla muna, eins og nú standa sakir.

Að öðru leyti skal ég ekki mikið fara inn á þetta mál í heild. Ég hygg, að menn viti það, að því er snertir sölu íslenzkra afurða, þá er það mál, sem er háð sama lögmáli og kaupgjaldsmálið, að eftir því, sem hærra verð er sett á afurðirnar, þá er meiri hætta á því, að salan minnki. Það er þess vegna vandasamt að þræða hér meðalhófið.

Ég hefði því gjarnan kosið, að farið hefði verið skemmra í þessu, eins og nú standa sakir, því það sýnist vera mjög í óvissu, hvernig verður

um hag framleiðslunnar í landinu á komanda ári. Þær björtu vonir, sem tengdar hafa verið við örfáar sölur undir árslokin, geta eftir öllum líkum ekki orðið gildandi í framtíðinni. Við skulum vona, að það verði bjartara yfir þeim málum en líkur standa til, þó mér þyki það undarlegt, eins og nú horfir í nágrannalöndunum, að það verði gróði að stríðinu fyrir íslenzka framleiðslu. Við skulum vona, að svo verði, en ég er ekki bjartsýnn á það.

Ég vil þess vegna mega vænta þess, hvað sem líður annari afgreiðslu málsins, að þá séu hv. dm. samþykkir þessari brtt. um þetta takmark að því er snertir fastlaunamenn ríkisins.