03.01.1940
Neðri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Fjhn. hefir fyrir tilmæli hæstv. ríkisstj. flutt 2 brtt. við brtt. á þskj. 673. Önnur brtt. er á þskj. 678, en þar eru skýrari ákvæði um það, hvernig kaupgjaldsuppbótin skuli ákveðin, þegar vísitalan fer lækkandi, og tiltekur hún nánar, hvenær lágmarkshækkunin er tekin til greina undir slíkum kringumstæðum. Brtt. er ekki annað en skýrari ákvæði um þetta.

Hin brtt. er á þskj. 684, en hún er á þá leið, að ríkisstj. sé heimilt að ákveða í reglugerð verðlagsuppbót á laun embættismanna og annara starfsmanna ríkisins, svo og ríkisstofnana. Þetta kemur af því, að í brtt. á þskj. 673 er svo ákveðið, að kaupgjaldsákvæðin, sem þar eru í 2. gr., nái til verkamanna, sjómanna, verksmiðjufólks og iðnaðarmanna. Þau ná ekki til annara aðila en þessara, og það fasta verkafólk, sem ekki hefir fasta samninga, eins og flestir embættismenn og starfsmenn ríkisins og ríkisstofnana, fellur ekki undir þessi ákvæði um kaupgjaldsuppbót, sem felst í aðalbreyt. Nú hefir ekki þótt fært að ákveða nánar, hver þessi kaupgjaldsuppbót eða verðlagsuppbót á laun embættismanna og annara starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana yrði, þar sem ekki hefir unnizt tími til að finna fyrir þessu þann grundvöll, sem réttur væri talinn. Það er þess vegna nauðsynlegt, að ríkisstj. sé veitt heimild til að finna grundvöll fyrir því, hvernig þessi verðlagsuppbót skuli greidd. Um þetta er heimildin á þskj. 684.

Viðvíkjandi brtt. hv. þm. A.-Húnv. á þskj. 691, þá er þess að gæta, að með því að samþ. hana eins og hún er, þá raskar hún mjög samræminu um kaupgreiðslur allar og lækkar suma hlutfallslega mjög á móts við aðra. Hún brýtur því í bág við ákvæði í brtt. á þskj. 673, 11. lið 1. brtt., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Kaupgjald í hærra flokki skal þó aldrei verða lægra en það, sem greitt er í lægra flokki.“ Brtt. hv. þm. A.-Húnv. myndu því raska þessu, hvað við kemur embættismönnum og öðrum starfsmönnum ríkisins og ríkisstofnana.

Í öðru lagi er það að athuga, að það er ekki rétt, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði, að það væru engin takmörk fyrir því, hvað há verðlagsuppbótin mætti vera á laun embættismanna og annara starfsmanna ríkisins, svo og ríkisstofnana, samkv. brtt. fjhn. Ég býst við, að hann hafi ekki tekið eftir því, að í aðalbreyt. á þskj. 673 stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Á árinu 1940 er óheimilt að hækka kaupgjald í landinu meira en svarar til þeirrar hækkunar, sem ákveðin er í 2. gr. laga þessara.“ Það er m. ö. o., að hámarkið er sett þarna, ekki aðeins fyrir þær stéttir, sem fá uppbót samkv. brtt., heldur um alla, sem laun taka í landinu, þó þeir falli ekki undir ákvæði þessara till. Þar af leiðandi var ekki talin þörf á því að setja ákvæði um þetta í þessa brtt., sem felur í sér heimild til handa ríkisstj. til að bæta upp laun embættismanna og annara starfsmanna ríkisins, svo og ríkisstofnana, vegna þess, að ákvæðið er þegar fyrir í aðalbreyt. — Hv. þm. A.-Húnv. hefir ekki veitt þessu athygli, að þetta hámark felst í aðalbreyt. Ég vil benda á, að ef hans brtt. verður samþ., þar sem ákveðið er, að það megi ekki bæta upp laun, sem eru hærri en 5 þús. kr., þá er það í ósamræmi við aðaltill. Það er vitanlegt, að margir af þeim. sem þar er talað um, að fái uppbót, fara yfir 5 þús. kr. Það verður ekki séð, að neitt réttlæti sé í því, enda hygg ég, að ekki sé til þess ætlazt af hv. þm., að slíkt ósamræmi verði sett með l. Þetta yrði því að ná til allra, en þá væri raskað öllum þeim till., sem hér liggja fyrir.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða um, hversu réttlát hugsunin í þessari till. er, að setja 5 þús. kr. hámark. Það er erfitt að ákveða, hvar þetta takmark skuli sett, en það er augljóst mál, að það er ekki hægt að setja það um einstaka aðila fremur en aðra.

Annars ætla ég ekkert um það að deila, hvort þarna er fundinn réttur mælikvarði til launauppbótar í þessum brtt., en það er víst, að um þetta hefir orðið samkomulag innan ríkisstj., að þannig skuli þessu haga, og ég býst við, að það hafi tekið það langan tíma og kostað það mikla erfiðleika að fá þetta samkomulag, að það sé ekki vert að raska því, eins og komið er.

Þótt það sé alveg rétt hjá hv. þm., að það sé á mörgu meiri þörf en kauphækkunum, t. d. sé miklu þyngra böl að fá alls ekki vinnu, þá er þó rétt að geta þess, að það er ekki lítils virði fyrir framleiðsluna að fá tryggðan vinnufrið um heils árs skeið, eins og verður með samþykkt þessarar brtt., þegar fullt samkomulag ríkir milli allra stjórnarflokkanna um afgreiðslu málsins. Ég hygg, að allir aðilar græði á því marga peninga, að fá vinnufriðinn tryggðan. Eins og ástandið er nú orðið eftir verðfall peninganna og með aukinni dýrtíð, þá er það hreint réttlætismál, að kaupgjaldsmálin séu tekin til endurskoðunar.