03.01.1940
Neðri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Jón Pálmason:

Það er í tilefni af ræðu hv. frsm., 1. þm. Rang., að ég vildi segja nokkur orð um þau atr. ræðu hans, sem sneru að minni brtt.

Hv. þm. vildi vefengja það, að það væri rétt, sem ég hélt fram í ræðu minni áðan, að það væru engin takmörk fyrir þeirri heimild, sem farið er fram á í brtt. á þskj. 684 að því er snertir launahæð. Það kann að vera, að ég hafi ekki orðað það nógu skilmerkilega, og skal ég því gera nánari grein fyrir því, að ég lít svo á, að samkv. þeirri brtt. séu engin takmörk fyrir því, hve háar þessar uppbætur á launum geta verið. Hitt var mér ljóst, og tek fullkomlega til greina, að samkv. brtt. sjálfum á þskj. 673 eru allsherjar takmörk fyrir því, hvað launahækkun í þessum og þessum flokki getur gengið langt. En það er allt annað en ég átti við með því, sem ég var að tala um áðan. Hv. frsm. var að tala um, að það væri ósamræmi milli þessarar brtt. og aðalbrtt. hvað snertir 5 þús. kr. launatakmarkið. En mér skilst, að það, sem fram er tekið í aðalbrtt., nái aðallega til verkamanna og þeirra manna annara, sem ekki eru í föstum stöðum. Og það er þó nokkur mismunur á því, hvort hlutaðeigandi menn eru í lausavinnu og hafa það ekki nema a. n. l. tryggt, hvað há árslaun þeir hafa, þó að t. d. mánaðarkaup eða dagkaup sé hátt, eða hinsvegar þegar um menn er að ræða, sem eru í föstum stöðum. Þetta gerir það að verkum, að samræmið þarna á milli er miklu minna en út mætti líta eftir skýringum þeim, sem hv. frsm. gaf um þetta atriði. Að öðru leyti veit ég, að hann skilur vel, að ég kýs miklu heldur að gera brtt. við þessa síðustu brtt., sem ekki hefir verið neitt rædd í framsögu.

Ég er hv. frsm. sammála um það, að það er mikil nauðsyn og hagur fyrir framleiðsluna í landinu að tryggja vinnufriðinn í landinu, og það ekki aðeins vegna vinnuveitenda, heldur einnig verkalýðsins og landsfólksins í heild. En það raskar engu um það ósamræmi, sem getur verið milli árslauna þeirra manna annarsvegar, sem í verkalýðsstétt hafa vinnu árið um kring, og þeirra hinsvegar, sem ekki hafa atvinnu nema stuttan tíma og komast ekki að þeim atvinnustörfum, sem arðvænlegust eru.

Ég vænti, að hv. þm. geti skilið, að mín brtt.

takmarkar upphæðina, sem heimildin í brtt. 684 er tengd við.