04.01.1940
Efri deild: 102. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

Páll Zóphóníasson:

Ég vil leyfa mér að benda á ákvæði 2. gr. frv., sem segir til um, hvernig kaupgjald hækkar, þannig að í 1. fl. er hækkunin 0,8% af kaupi, sem nemur 1.50 eða minna á klst., í 2. fl. 0,7% af kaupi, sem nemur 1.51–2.00 á klst., og í 3. fl. 0,55% af kaupi, sem er kr. 2.01 eða meira á klst. Mér skilst, að þarna sé alstaðar miðað við karlmannakaup og muni því allt kaupgjald kvenna falla undir 1. fl., sömuleiðis kaup unglinga og lærlinga. Afleiðingin verður sú, að minna bil verður milli kaupgjalds kvenna, lærlinga og þeirra, sem eru lélegir til vinnu, annarsvegar, og þeirra, sem vinna fyrir hærra kaupi, hinsvegar.

Ég vil hafa þetta bil meira en nú er, og er því á móti þessu ákvæði. Hygg ég, að réttast væri að flokka kaup kvenna og unglinga á sama hátt og kaup karla, en þar sem málið hefir ekki farið til nefndar og lítill tími hefir unnizt til athugunar á málinu milli umræðna fyrir einstaka þm. þar af leiðandi, mun ég ekki flytja um þetta brtt., þótt ég óski eftir, að þetta væri lagfært nú. Mér virðist, að taka ætti til athugunar, hvort ekki væri rétt, að málið færi til nefndar.