04.01.1940
Efri deild: 102. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég gat þess við 1. umr. þessa máls, að ég myndi flytja brtt. við frv.; verð ég að leggja þær fram skriflegar og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða um, að þær megi koma til umr., svo mjög er þessu máli hraðað í gegnum þingið. Þessar brtt. hníga í aðra átt en þær brtt., sem hv. 1. þm. N: M. vill gera á frv., en hann er hræddur um, að kvenfólk og unglingar verði of vel úti skv. ákvæðum frv. Vænti ég, að ekki vinnist tími til þess að breyta frv. í þá átt, sem hv. 1. þm. N.-M. vill vera láta, svo að hlutur þeirra verði ekki enn verri en nú er skv. frv.

Brtt. mínar eru að mestu shlj. brtt., sem flokksbræður mínir fluttu í Nd. (MJ: Því má þá ekki leggja þær fram prentaðar?). Vegna þess, að frv. hefir tekið breytingum. Þessar breytingar eru í aðalatriðum sem hér segir: Í fyrsta lagi, að í staðinn fyrir öll þau ósköp, hvernig haga skuli útreikningi á kauphækkuninni, komi, að kaup verkamanna skuli hækka að sama skapi og verðlag hækkar, og að verðlag skuli reiknað út af nefnd, sem er nokkuð öðruvísi skipuð en hér er gert ráð fyrir, sem sé einn eftir tilnefningu hæstaréttar, og sé hann formaður, einn eftir tilnefningu Alþýðusambands Íslands, sá þriðji eftir tilnefningu Landssambands stéttarfélaganna og loks séu tveir tilnefndir af Vinnuveitendafélagi Íslands.

Hækkar þannig kaupið að sama skapi og verðlag hækkar, ef samningi hefir ekki verið sagt upp milli aðila, en aftur á móti er aðilum frjálst að segja upp samningum og semja á ný. Séu engir samningar eða taxtar fyrir hendi, skal samningstímabilið teljast 1 ár frá 1. jan. að telja, en er að öðrum kosti ákveðið í samningum milli aðila. Ef annarhvor aðila vill annað kaupgjald en þetta, skal hann tilkynna það innan mánaðar frá gildistöku þessara l., annars gildir gamli samningurinn áfram með þeirri kaupuppbót, sem jafngildir hækkun á verðlagi. — Þetta er samhljóða kröfum frá hverju einasta verkalýðsfélagi á landinu.

Þá er brtt. við 3. gr. Þar falli allt í burt nema heimildin að greiða sjómönnunum stríðsáhættuþóknun og kaupa þeim sérstaka stríðstryggingu.

Lagt er til, að í stað 4. gr. komi 3 nýjar gr. í lögin, og er efni þeirra þetta:

1) Ríkisstj. er heimilt að hækka meðlag af hálfu barnsfeðra með óskilgetnum börnum í samræmi við aukinn framfærslukostnað.

2) Slysa- og dánarbætur, ellilaun og örorkubætur hækki hlutfallslega við aukinn framfærslukostnað.

3) Ríkisstj. er heimilt að ákveða í reglugerð verðlagsuppbót til embættismanna og annara starfsmanna ríkisins, sem ekki falla undir 2. gr. og ekki hafa hærri laun en 8 þús. kr. á ári.

Legg ég sérstaklega mikið upp úr atkvgr. um þessa till. — Í frvgr. er ekki gert ráð fyrir neinni hækkun á tryggingabótum. Hve mikið sem verðlag hækkar, er ekki gert ráð fyrir, að gamalmenni og öryrkjar, sem verða að lifa af 50 kr. á mánuði, fái neina uppbót. Aftur á móti er gert ráð fyrir því, að þeir, sem hafa 10 þús. kr. laun og þar yfir á ári, geti fengið hækkun. Verður fróðlegt að sjá, hvernig atkv. falla um brtt. mína við þessa gr.

Verði brtt. mínar felldar, getur verið, að ég beri fram aðrar brtt. við 3. umr.