17.04.1939
Neðri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Garðar Þorsteinsson:

Hv. 1. þm. Skagf. byrjaði í ræðu sinni að 1ýsa yfir því, að það væri alls ekki leyfður ádráttur fyrir silung og ekki heldur fyrir lax. (PHann: Það er eitthvað athugavert við heyrnarfæri hv. þm.). Nú, hann sagði þetta. Ég vil leyfa mér að lesa upp úr 14. gr. laxveiðil., þar sem svo segir: „Veiða má silung í sjó á færi og stöng, þó eigi í króknet, fleygnætur, herpinætur né önnur net, þau er lax má í veiða.“

Það er engin ástæða fyrir hann til að gera þetta að umtalsefni. En þau rök, sem hv. 1. þm. Skagf. færir fram fyrir því, að bannað sé að draga fyrir silung, þar sem líka kemur oft lax í slíka ádrætti, eru harla léttvæg. Hvaða ástæða er til að banna mönnum að leggja lagnet uppi við landsteina, þegar leyfilegt er að hafa ádrátt 500 metra frá árósum?

Það er ekki leyfilegt að hafa ádrátt fyrir silung í sjó; laxveiðil. segja það skýrum orðum. Svo talaði hv. 1. þm. Skagf. um möskvastærð netjanna. Hann sagði, að það hefði verið fullkomin möskvastærð laxanetja á þeim silunganetjum, er notuð hefðu verið á Eyrarbakka. En hvar eru ákvæði í l. um það, hvaða möskvastærð á að vera á netjum, sem notuð eru við laxveiði? Í laxveiðil. er eitt ákvæði um möskvastærð, en þar ræðir um það, hvað möskvarnir megi vera minnstir. Í 28. gr. laxveiðil. segir svo: „Lagnet og króknet, sem notuð eru í ám þeim, er lax og göngusilungur fer um, mega ekki vera smáriðnari en svo, að 4,5 cm. séu milli hnúta, þá er net eru vot“, og í 29. gr. sömu l. segir: „Ádráttarnet, sem nota á í ám, er lax og göngusilungur fer um, mega ekki vera smáriðnari en svo, að 4,3 cm. séu milli hnúta.“

Í laxalögunum eru engin takmörk sett fyrir því, hvað séu silunganet og hvað séu laxanet, enda þarf maður ekki annað en að lesa bók dr. Bjarna Sæmundssonar um fiskana til að sjá, að það er svo erfitt að segja til um, hvað sé lax og hvað sé silungur, að jafnvel vísindamenn geta verið í vandræðum með það. Urriðinn er stundum á stærð við lítinn lax. Það er því ljóst, að möskvastærðin ein sker ekki úr því, hvað sé laxanet og hvað sé silunganet. Hv. þm. hefði átt að kynna sér þetta betur áður en hann fór austur á Eyrarbakka og áður en hann fór að ávíta mig fyrir að hafa ekki tekið upp tommustokkinn til þess að mæla möskvastærðina. Ákvæðin um möskvastærð eru ekki til í lögum, og ég veit ekki til, að þau séu í neinni reglugerð. Það var því ekki ástæða fyrir mig að taka upp tommustokkinn og mæla möskvana.

En úr því að þessi hv. þm. er að tala um löghlýðni, vildi ég spyrja hann um, hvort hann hafi verið svo löghlýðinn, þegar hann kom austur að Eyrarbakka, að taka hendur úr vösum og taka laxinn úr netinu og kasta honum í sjóinn. (PHann: Sýslumaðurinn sá um það). Í 13. gr. laganna segir: „Nú veiðist lax í sjó í veiðitæki sem ætluð eru til veiði annarra fiska, og skal þá þeim, sem veiðir, skylt að sleppa honum í sjó aftur.“ Það er ekki karlmannlegt af hv. þm. að vera á staðnum og skjóta sér undan á bak við sýslumanninn. Ég skal upplýsa það, að þegar sýslumaður eða umboðsmaður sýslumanns kom á staðinn, þá tóku þeir netin, silunginn og laxinn og fóru með allt saman upp að Ölfusá, — og hvað gerðu þeir við laxinn og silunginn? (PO: Þeir hafa étið laxinn). Já, ég get ósköp vel trúað því, og ég tek raunar ekki svo hart á því.

Þetta mál hefir ekki fengizt rannsakað, og netjunum hefir aldrei fengizt skilað. En ég skal ekki fara nánar inn á það, hvað snertir yfirvaldið, sem hér á hlut að máli, því yfirvaldið er ekki hér til að svara fyrir sig. En þetta er hv. þm. sérstaklega vel kunnugt. Og ég vil algerlega mótmæla því, sem hv. þm. sagði, að þarna hefði verið framið freklegt lögbrot, því þeir menn, sem þarna voru að verki, gerðu sig ekki seka um neitt lögbrot. Hv. þm. veit, að það hefir viðgengizt ég veit ekki hvað lengi — að það hafa verið lögð net þarna á klappirnar og veiddur silungur. (PHann: Það eru ekki lögð net á neinar klappir á Eyrarbakka). Ég veit ekki, hvað hv. þm. kallar klappirnar — hann kallar þær kannske sand — en ég veit að þarna eru klappir, því að ég hefi komið austur á Eyrarbakka, og ég kalla klappirnar klappir, og þessi veiði hefir viðgengizt þarna í mörg undanfarin ár. Hitt má vera, að silunganetin séu svo stórriðin, að veiðist einn og einn laxræfill í þessi net og ádráttarnet. Það er algerlega rangt hjá hv. þm., að ákveðin skilgreining sé í lögum um möskvastærð á milli silunganetja og laxanetja, því annars hefði ekki þurft ákvæði um það, að kasta burt laxi úr silunganetjum í sjóinn.