10.03.1939
Efri deild: 15. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég ætla ekki að ræða um þetta frv. yfirleitt. En það eru aðeins 3. og 4. mgr. 3. gr., sem ég ætla að gera að umræðuefni.

Það er, eins og hv. l. þm. Reykv. tók fram, viðvíkjandi þessum benzínskatti, þannig að hann hefir verið teygður á milli sín af hv. þm. í nývegi um allar trissur, út á yztu andnes og upp á öræfaheiðar. (Fjmrh.: Og ekki líka út á sjó?). Jú, það átti eitt sinn eftir orðanna hljóðan í því frv. að leggja fyrir þetta fé veg frá Vestmannaeyjum og til lands. Þetta hefir valdið ónotalegum ruglingi. Ég tel, að það eigi að verja því fé, sem þessi skattur gefur af sér, til viðhalds vega, en ekki til nývega. Ég tel það rétt frá sjónarmiði fjárveitingavaldsins, og einnig, að bifreiðaeigendur mundu vera ánægðari með því móti með að greiða þennan skatt, því að þá yrði betra viðbald á þeim vegum, sem þeir nota sjálfir, þannig að senda bifreiðar sínar eftir þeim; og um leið verður minna slit á þeirra eigin bifreiðum og jafnvel benzíneyðslan sjálf minni. Ég álít því langheppilegast að verja þessum skatti eingöngu til viðhalds vega, en ef menn vilja eyða einhverju af fé til atvinnubótavinnu, hér í nánd við Reykjavík t. d., eða hlynna að einhverjum kjördæmum með vegagerðum, þá álít ég, að veita eigi fé í fjárlögum til þeirra nývega.

Ég ætla ekki að þessu sinni að gera brtt. við þessar gr., en geri ráð fyrir, að ég flytji brtt. um þetta atriði við 3. umr.