17.04.1939
Neðri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Pálmi Hannesson:

Hv. 7. landsk. hefir verið hér með aðdróttanir til mín, svo ég þykist nauðbeygður til að svara honum örfáum orðum, ekki vegna þess, að hv. þm. mælti af rökum eða speki, heldur af því, að hann talaði hér af svo mikilli óskammfeilni, að ég get ekki unað því, að það standi ómótmælt. Hv. 7. landsk. virtist ekki geta gert greinarmun á laxa- og silunganetjum. En hver einasti maður, sem komið hefir nálægt slíkum veiðiskap, veit, að munurinn á möskvastærð á silunga- og laxanetjum er mikill. (GÞ: Hvað er möskvastærðin ákveðin, og í hvaða lögum?). Stærðin er ekki beint ákveðin í lögum, en hinsvegar er það vitanlegt, að þegar möskvastærð netjanna fer yfir 4,5 cm., þá eru það ekki silunganet. (GÞ: Þá má engin silunganet leggja, því að minnsta stærð silunganetja er 4,5 em.). Það kemur ekki þessu máli við, sem hv. þm. var heilmikið að tala um, lögbrot, sem þarna hefði verið framið austur á Eyrarbakka og ég hefði horft á, og hlutverk sýslumanns í því sambandi. En í það skipti, sem ég var kvaddur til þess að segja til um, hvar ósinn væri, og hvort netin væru innan eða utan takmarka óssins, þá voru margir laxar í netjunum. Netin voru greinilega króknet og greinilega laxanet, enda var enginn silungur í þeim, en margir laxar. En til hvers þau voru sett þarna út, má lengi um deila.

Ef hv. þm. getur fengið dómara til að trúa

því, að hér hafi verið lagt fyrir silung, þá er hann meiri lögfræðingur en ég hafði álitið hann vera. Það er hægt fyrir hv. þm. að neita því, að þarna hafi verið um lögbrot að ræða, en það mun samt vera bezt fyrir hann að bíða með það þangað til málið kemur til dóms.