18.12.1939
Efri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara. Ég er á móti ýmsum ákvæðum þessa frv., og þá sérstaklega l. gr., sem ég tel alltaf

mikil brigðmæli hafa verið, það er um hátekjuskattinn. Þar segir, að nokkur hluti hans eigi að renna í bæjarsjóð. En þessu var svo breytt og það tekið af bæjarsjóði og látið heita svo, að því væri varið til annara hluta.

Ég hefi alltaf verið og verð mótfallinn þeim skattstiga, sem í þessu frv. felst. En þar sem verið er að vinna að þessu máll í mþn., sé ég ekki ástæðu til að vera að gera þessar breytingar nú.

Út af skrifl. brtt., sem kom hér fram, vil ég segja það, að mér finnst það afarhæpin aðferð að koma hér með eina skrifl. brtt., sem ekkert er hægt að athuga svo fljótt, og ég sé ekki heldur, að þess sé nein þörf, þar sem málið á eftir að fara í gegnum hina d., og mætti þá setja ákvæði um þetta inn í fjárl.

Það er kunnugt, að þegar benzínskatturinn var ákveðinn eða settur, var beinlínis talað um það, að rétt væri að verja því fé til að gera vegina þannig úr garði, þ. e. a. s. þá vegi, sem mest umferð væri á, að þeir væru í raun og veru bílvegir með sérstöku slitlagi, sem gert er með malbikun eða steinsteypu. Mér þykir þess vegna einkennilegt að telja nú nauðsynlegt að taka slíkt ákvæði burt, þar sem ástæðan fyrir því var rökstudd með því, að það borgaði sig fyrir bifreiðarnar að fá betri vegi, sem gerðir væru fyrir þetta fé. Ég býst við, að hv. þm. álíti, þótt hann tæki það ekki sérstaklega fram, að það þyrfti kannske mikið að flytja inn af efni til þess að malbika vegi, en ég býst ekki við, að það myndi vera í svo stórum stíl, að það stæði í vegi fyrir framkvæmdum. Enda myndi þá nauðsyn brjóta lög, ef ekki væri hægt að fá efni frá útlöndum til þess að framkvæma malbikunina. Að svo komnu get ég ekki annað en verið á móti því, að þetta ákvæði sé felli burtu.

Það stendur hér í frv.: við lagning akvega og malbikun þjóðvega. Ég sé ekki, hvers vegna má ekki standa í fjárl. ákvæði um þetta. Ég sé ekki, að nokkuð í þessu frv. komi í veg fyrir það, að ákveða megi í fjárl. um þetta.