18.12.1939
Efri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Mig langar til að fá frekari upplýsingar um þessa brtt. áður en atkvgr. fer fram. Mér skilst, að vegir, sem kallast malbikaðir, hafi ýmist verið malbikaðir eða steyptir. Langar mig til að fá að vita, hve kostnaðurinn er mikill á hvern km., sundurliðað þannig, hve mikið efni þyrfti að kaupa að og hvað það kostaði á hvern km. af malbikuðum vegi og á hvern km. af steyptum vegum, og frá hvaða löndum slíkt efni geti nú komið. Ég geri ráð fyrir, að n., sem hefir haft þetta mál með höndum, hafi rannsakað þetta allt og geti þess vegna gefið greið svör, en af þeim má sjá, hve mikið hér sparast í efni, sem þá má verja til vinnu, en eftir því fer afstaða mín til tillögunnar.