03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Ég á brtt. á þskj. 677 við 4. gr. frv., sem hnígur í þá átt að innheimta á árinu 1940 með 12% viðauka alla skatta og önnur gjöld, sem greiða ber í ríkissjóð á árinu, og þá einnig skatta og gjöld samkv. 2. og 3. gr. frv., en jafnframt fer brtt. fram á, að viðauki sá, sem samkv. þessu ákvæði verður innheimtur af tekju- og eignarskattinum og skattaukanum skv. 2. gr., renni til bæjar- og sýslusjóða, þar sem skatturinn er lagður á.

Hefi ég borið fram þessa brtt. af því, að mér er kunnugt um, að þessir sjóðir standa höllum fæti og hafa ríka þörf fyrir nokkurn tekjuauka. Ég veit að vísu, að það orkar tvímælis, hvort ríkissjóður má við því að missa af þessum tekjum, en vil þó hætta á það, með tilliti til hins erfiða fjárhags bæjar- og sýslusjóðanna. Vænti ég, að þessi till. mín nái samþykki d., og skal ég ekki fara um hana fleiri orðum.

Ég vil taka það fram, að ég get ekki aðhyllzt brtt. á þskj. 683, frá hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. V.- Húnv., en hún hnígur að því, að þau bæjarfélög, er verði aðnjótandi þessara tekna, sem gert er ráð fyrir í brtt. minni, leggi fram um hver áramót, almenningi til sýnis, sundurliðaða skrá um ógreidd útsvör á liðnum árum.

Ég álít, að það muni nokkuð almenn regla, að þeir, sem geta greitt útsvör sín, geri það, og er það engum til framdráttar, að slík skýrsla um ógreidd útsvör yrði birt. Ætti þá einnig að birta skrá yfir þá, sem ekki greiða tekju- og eignarskatt, eða þá, sem þiggja opinbera styrki. Þessi stefna finnst mér óviðfelldin, og get því ekki aðhyllzt umrædda brtt.