03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Af því að hæstv. atvmrh., sem flutti brtt. á þskj. 677, er upptekinn við umr. í hv. Ed., vildi ég gera grein fyrir, hvernig stendur á því, að þessi 12% skuli eiga að ganga til sýslusjóðs, en ekki til sveitarsjóðs. Það er tekið upp úr l. frá 1935, um jöfnunarsjóð sveitar- og bæjarfélaga. Þar er ákveðið, að ½% af hátekjuskattinum skuli renna til bæjar- og sýslusjóðs, en ekki til sveitarsjóðs. Þetta mun vera svo ákveðið með tilliti til þess, að utan kaupstaðanna er hér um svo smáar upphæðir að ræða, sem ættu að renna til einstakra sveitarfélaga samkv. þessu, að ekki mun hafa þótt taka að skipta þessu þannig meðal margra, og því tekin þessi leið, að láta það renna í sýslusjóð, enda kæmi það þá einstökum sveitarfélögum til góða, þegar jafnað er niður sýslusjóðsgjaldinu í hinum einstöku sveitarfélögum.

Það var rétt, sem hv. þm. Borgf. vék að, að með því fyrirkomulagi verða sennilega þau sveitarfélög, sem hafa meiri tekjur, harðar úti en rétt er, þar sem þetta dregst frá niðurjöfnuninni óskiptri, því jafnað er niður á sveitarfélögin eftir efnum og ástæðum.

Ég þori að fullyrða, að hv. tillögumaður verður ekki mótfallinn því, að till. hv. þm. Borgf. nái fram að ganga, þar sem þetta er aðelns orðað svo í till. af þeim ástæðum, sem ég hefi greint, að þessu var þannig háttað með hátekjuskattinn.

Hvað snertir till. hv. þm. V.-Húnv. og hv. 1. þm. Rang., þá hefir hv. 1. þm. Rang. gert grein fyrir, hvers vegna hún er fram komin. Hann sagði sjálfur, að hann væri á móti till. hæstv. atvmrh. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. V.-Húnv. sé þá einnig á sama máli og að till. sé af þeim rótum runnin, að hún sé til þess ætluð, ef hún getur, að verða þessu litla máli að falli, og er það auðvitað heppileg leið að bregða þannig fyrir það fæti. Ég vona, að þeir hv. þm., sem ekki hafa slíkt í huga, sem sé að koma till. fyrir kattarnef, greiði þá einnig atkv. á móti till. þeirra hv. þm. V.-Húnv. og hv. 1. þm. Rang.

Annað sé ég svo ekki ástæðu til að segja um þetta.