03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Garðar Þorsteinsson:

Ég álít þessa brtt. hv. þm. V.-Húnv. og hv. 1. þm. Rang. borna fram af misskilningi. Eftir till. á að leggja fram skýrslu um ógreidd útsvör og önnur gjöld til bæjarfélaga, en svo tala þeir um, að svo og svo mikið sé gefið eftir af útsvörum. Í brtt. er ekki farið fram á, að birt sé skýrsla um útsvör, sem gefin eru eftir, svo ef það er það, sem till. á að miða að, þá verða þeir að orða hana svo, að birt skuli skýrsla um það, hvað gefið er eftir af útsvörum. Þá vil ég benda á það, að þessi hv. þm. hefir beitt sér fyrir því, að útsvarsgreiðendum hér sem annarstaðar sé heimilt að skilja eftir verulegan hluta af sínum útsvörum þangað til í febrúar næsta ár, og samkv. þessum nýju lögum er því ekki um nein vanskil að ræða, þótt menn skuldi allt að 3/10 af útsvari sínu um áramót. Hann hefir verið því fylgjandi, að útsvarsgreiðendur mættu greiða útsvör sín á sjö mánuðum, tvo mánuði þarf ekkert útsvar að greiða, desember og júlí, svo menn þurfa sem sagt ekki að greiða útsvörin upp fyrr en í febrúar árið á eftir. Það er því alls ekki ámælisvert, þótt menn skuldi þetta, og hvaða ástæða er þá til að fara að birta skrá yfir svo að segja alla útsvarsgreiðendur, því vitanlega notfæra menn sér þessa heimild? Ég hygg því, að um misskilning sé að ræða hjá flm. till., en ef þeir óttast, að misnotkun eigi sér stað á eftirgjöf útsvara, þá eiga þeir að láta það koma skýrt fram í till., að átt sé við birtingu skrár um eftirgefin útsvör.

Ég get upplýst það, að eins og hv. 4. þm. Reykv. gat um, þá er sum árin lagt á stofnanir, sem eiga að vera undanþegnar, eins og t. d. mjólkursamsöluna og fiskimálanefnd, svo og fjölda manna, sem flytja burt úr bænum, eða menn deyja og svo eru fátækum ekkjum gefin eftir útsvörin. Það er enginn, sem bannar mönnum að sjá þetta; ég er viss um, að ef þessi hv. þm. kæmi til borgarstjóraskrifstofunnar og óskaði eftir að fá að sjá, hvað af útsvörum hefði verið gefið eftir, þá væri honum það heimilt. Enda hefir hann góðan mann til að fylgjast með þessu fyrir hans flokk, þar sem er form. Framsfl., Jónas Jónsson, en hann er í bæjarstjórn, og allar eftirgjafir eru gerðar af bæjarstjórn Reykjaríkur.