03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég skal ekki lengja umr. mikið. — Viðvíkjandi till. hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. V.-Húnv., sem nokkuð hefir verið talað um, get ég fullvissað hv. þm. um það, að hver einasti bæjarfulltrúi á kost á að fylgjast með því, hvað mikið er gefið eftir af útsvörum. Það er ekki þannig, að það liggi fyrir skýrslur um það á ákveðnum degi, en starfsemi bæjarstj. er þannig, að allir bæjarfulltrúar eiga kost á þessu, og vitanlega gildir þetta jafnt um bæjarfulltrúa annara flokka og Sjálfstfl.

Ég vil aðeins segja það um tili. hv. 6. þm. Reykv., sem er um þann hluta hátekjuskattsins, sem mælt er svo fyrir, að skuli renna til fiskimálasjóðs eða byggingarsjóðs verkamanna, að ég get ekki fallizt á þá till., og vildi ég helzt óska þess, að hv. þm. taki till. aftur. Það er rétt, sem hv. 6. landsk. sagði um þetta. Það er um að ræða gamalt loforð, sem ekki hefir verið uppfyllt. Hinsvegar er það svo, að ef ekki þarf á þessu að halda til þess, sem það er fyrst og fremst ætlað til samkv. l., eða til þess, sem það er ætlað til til vara, en það er til byggingarstarfsemi, þá myndi þessi upphæð renna til þarfa ríkissjóðs.

Annars var þessi hluti hátekjuskattsins áður ánafnaður bæjar- og sveitarfélögum, en hann var af þeim tekinn af þeirri ástæðu, sem hv. 6. þm. Reykv. skýrði frá, að það var eitt bæjarfélag, sem aðallega naut góðs hér af. Það var ekki aðeins í þessu tilfelli, heldur var líka um það að ræða, að 12% hátekjuskatturinn mátti heita bundinn við Reykjavík. Að láta þessa 12% renna til bæjarsjóða, sveitarsjóða eða sýslusjóða væri því leiðrétting á því, sem ranglega hefir verið haft í frammi við bæjarfélögin, og þá sérstaklega Reykjavík, þegar þessu var breytt. Ég tel, að vel færi á því að leiðrétta þetta.