21.11.1939
Neðri deild: 64. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

109. mál, verzlunarstaður við Reykjatanga

*Frsm. (Bergur Jónsson):

Þótt þetta frv. sé algerlega meinlaust og n. leggi til, að það verði samþ. óbreytt, mun það eigi að síður vera einsdæmi í þingsögunni. Hingað til hefir verið sótt eftir að fá löggilta verzlunarstaði, en hér er farið fram á afnám slíkrar löggildingar. Vegna þess hve hér er um óvenjulegt tilfelli að ræða, leitaði allshn. umsagnar sýslunefndar V.-Húnavatnssýslu og sýslumanns Húnavatnssýslu um málið, og mælir hvorugur þessara aðila gegn því, að frv. verði að lögum.

Ástæðan til þess, að farið er fram á afnám löggildingar á verzlunarstað við Reykjatanga, er sú, að Reykjaskóli hefir keypt landið, sem lenda myndi innan verzlunarlóðarinnar, ef menn notfærðu sér heimildina til að setja á stofn verzlun á þessum stað, og er stjórn skólans illa við, að þarna rísi e. t. v. upp óþörf verzlun, sem brjóti í bága við starfsemi skólans.

Allshn. hefir orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.