21.11.1939
Efri deild: 65. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hafði búizt við því, að einhver hv. nefndarmanna fjhn. hefði tekið til máls á undan mér, en það skiptir ekki máli. Ég hefi gert tvær brtt. við frv. þetta, aðra á þskj. 297, en hina skriflega, og er hún leiðrétting á brtt. á bskj. 297. Það, sem brtt. mínar fara fram á, er, að í stað þess að í frv. er gert ráð fyrir, að stríðsáhættuþóknunin skuli undanþegin skatti og útsvari að hálfu leyti, þá sé hún öll undanþegin skatti. Þessi tillaga mín er í fullu samræmi við þær óskir, sem bak við frv. liggja af hálfu þeirra stétta, sem hér eiga hlut að máli, og um leið og samningar fóru fram við atvinnurekendur var rætt um þetta atriði við hæstv. ríkisstjórn. Stjórnin taldi sér ekki fært að mæla með því, að hærri upphæð en helmingur af stríðsáhættuþóknuninni yrði undanþegin skatti, eins og frv. ber með sér, en hinsvegar vildu þessar stéttir fá það fullreynt, hvort Alþingi gæti ekki fallizt á að undanþiggja alla upphæðina skatti, og því er þessi brtt. mín fram komin, að ég vildi láta það koma skýrt í ljós, hvort hv. þm. gætu ekki fallizt á, að það væri sanngjarnt. Ég sé, að útbýtt er í deildinni annari brtt., frá hv. 1. landsk., shlj. minni brtt., og sé ég ekki, að hennar sé þörf, en mun ekki fjölyrða um það frekar. (BrB.: Ég hafði ekki séð brtt. hv. 2. landsk.).

Sem rök fyrir því, að þessi krafa sjómannastéttarinnar sé réttmæt — og hér eiga allir hlut að máli, allt frá léttadrengnum til skipstjórans —, vil ég benda á, að það er ekki litið svo á, að áhættuþóknunina beri að skoða sem meira kaup viðkomenda, heldur sem einskonar sárabót fyrir það taugastríð, sem þeir sjómenn verða við að hún, sem sigla um áhættusvæðin. Við höfum undanfarið séð, hvernig þeim skipum hefir reitt af, sem sigla um áhættusvæðin, hvert skipið á fætur öðru ferst, jafnt hlutlausra þjóða sem ófriðarþjóðanna. Og þó að sú gifta hafi fylgt okkar fleytum til þessa, að þær hafa ekki orðið fyrir neinum hnekki, er ómögulegt að segja, hvenær annað kann að verða uppi á teningnum. Stríðsáhættuþóknunin er einskonar bætur fyrir það hugarstríð sjómannanna, að vita dauðann yfirvofandi á næstu mínútu, og þeir hafa vænzt þess, að þeirra nánustu gætu fengið að njóta þessa fjár, en að það yrði ekki hrifið úr höndum þeirra að miklu leyti. Sjálfir gera þeir sér ekki vonir um að verða þess aðnjótandi.

En þó að sú gifta fylgi skipunum okkar framvegis sem hingað til, verður ekki of verðiaunaður sá þegnskapur, sem þessi stétt sýnir þjóðinni með því að flytja nauðsynjar til landsins og afurðir okkar frá því á þessum hættutímum, en einmitt þetta er höfuðskilyrði þess, að við getum lifað í landinu. Með þetta fyrir augum lít ég svo á, að Alþingi geti fallizt á að undanþiggja stríðsáhættuþóknunina skatti og útsvari að öllu leyti og sýni sjómannastéttinni með því örlítinn þakklætis- og virðingarvott.

Ég tel óþarft að færa fleiri rök fyrir máli mínu að svo komnu, en vænti þess, að einhver hv. nm. fjhn. láti í ljós skoðun sína á málinu, því að enda þótt n. hafi flutt frv. eins og ríkisstj. hefir lagt það fyrir hana, þætti mér ekki ósennilegt, að einhver nm. kynni að líta öðrum augum á það.