21.11.1939
Efri deild: 65. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Vegna þess, að óskað hefir verið álits nefndarmanna í fjhn., vildi ég segja nokkur orð. Eins og hv. deildarmenn muna, var fyrir nokkru borið fram frv. af hv. 1. landsk. á þskj. 270, þar sem farið er fram á, að öll áhættuþóknun sjómanna og farmanna verði skattfrjáls. Þessu frv. var vísað til fjhn., og gat ég þá um, að þá væri komið frv. frá ríkisstj., sem nefndin hafði verið beðin að flytja, og er það frv. það, sem hér er til umræðu. Ég lít svo á, að þótt hv. 2. landsk. spyrðist fyrir um afstöðu fjhn. í þessu máli, hljóti deildinni að vera ljóst, hver hún er. Nefndin tekur frv. stjórnarinnar upp og flytur það athugasemdalaust, og þar með er afstaða n. mörkuð, að hún fylgir því frv., en ekki frv. á þskj. 270. Ég skal játa það fyrir mitt leyti, og tala ég þar aðeins fyrir mig, en ekki meðnm. mína, að mér finnst, að í þessu máll sé gengið inn á vafasama braut með því að undanþiggja áhættuþóknunina skatti, og það engar smáræðistekjur, eins og og t. d. hjá skipstjórunum. (PZ: Heyr). Hitt er auðvitað allt saman rétt, sem hv. 2. landsk. sagði í ræðu sinni um þann þegnskap, sem þessir menn sýndu með því að hætta lífi og limum eins og nú er ástatt, og það var ekki nema sjálfsagt að bæta þeim það upp með uppbót á laun þeirra. En að þessi launauppbót sé skattfrjáls, er öðru máli að gegna. Það er ekki vegna þess, að ég geti ekki unnað þessum mönnum að fá þessi fríðindi, heldur vegna þess, að það eru fleiri en þeir, sem sýna þjóðinni þegnskap, og fleiri störf, sem eru þjóðinni nauðsynleg, en eru líka lífshættuleg. Því mætti búast við, að þegar búið er að gera þessa undanþágu, þá kæmu kröfur úr fleiri áttum, ekki sízt þegar þetta ákvæði á að ná til allra, hve hátt sem þeir eru launaðir, en sumir þessara manna, skipstjórarnir, eru með hæstlaunuðu mönnum á landinu.

Öll fjhn. var einhuga um að mæla með frv. eins og það liggur fyrir, hvort sem sú stefna, sem með því er tekin má teljast heppileg eða ekki, en eins og grg. frv. ber með sér, varð það að samkomulagi milli ríkisstj. og samningsaðila, að ríkisstjórnin beitti sér fyrir því, að helmingur áhættuþóknunarinnar yrði undanþeginn skattl. Samningsaðilar treystu því, að það, sem ríkisstj., sem studd er af nær öllu þinginu, hafði gengið inn á, myndi hljóta samþykki Alþingis, og því lítur nefndin svo á, að sjálfsagt sé að samþ. frv. og að heimingur áhættuþóknunarinnar verði skattfrjáls.

Ég hefi svo engu við að bæta, en mér kemur ekki til hugar að fara að deila um þetta mál. Það er hægast að slá á tilfinningastrengi í slíku máli sem þessu, en það er sízt ætlun mín með þessum ummælum mínum að draga úr því hrósi, sem íslenzkir farmenn eiga skilið. Að lokum vil ég taka það fram, að mér er ekki kunnugt um, að einstakir nm. fjhn. hafi sérstöðu í þessu máli, og lít því svo á, að n. standi öl1 með frv. eins og það er, en annars munu þeir segja til þess sjálfir, ef svo er.