21.11.1939
Efri deild: 65. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

Brynjólfur Bjarnason:

Hv. 1. þm. Reykv. segir, að þessi till., sem borin er fram af mér og hv. 2. landsk., sé borin fram til þess að sýnast. Hvaðan kemur honum þessi vizka? Hvaða rök getur hann fært fram til sannana? Ég vil benda honum á það, að í blað flokks hans hafa verið skrifaðar margar greinar um það, hversu nauðsynlegt það væri, að sjómenn fengju skattfrjálsa alla stríðsáhættuþóknunina. Vel má vera, að hann hafi ekki skrifað þessar greinar sjálfur, en a. m. k. hefði einhver af þingmönnum flokksins eða úr stjórn hans átt að finna köllun hjá sér til þess að mótmæla því, að verið sé að skrifa til þess að sýnast, og kemur fram í þessu siðleysi Sjálfstfl. Þegar á hólminn kemur, er hann gegn því, sem Morgunblaðið er með framan í fólkið. Þetta er prýðilegt sýnishorn af hinni taumlausu hræsni, sem pólitík Sjálfstfl. byggist á. Þessi hv. þm. var að lá okkur, að við værum á móti ákveðinni tegund af beinum sköttum. Það er ekki um það, sem deilt er. Það, sem um er að ræða, er það, hvort leggja skuli skattana á þá láglaunuðu eða þá hálaunuðu. Þessir menn vilja, að skattarnir hvíli á láglaunamönnunum, og þó að vísu reynt að færa fram falsrök til þess að reyna að leyna því, hvað liggur raunverulega á bak við afstöðu þingmannsins í þessu máli, sem sé það, að meðal þessara manna séu hálaunamenn. Liggur því næst að spyrja: Hvers vegna kom hv. þm. ekki með brtt. um, að skattfrelsið skuli ekki gilda fyrir þessa hálaunamenn?

Í raun og veru er það svo, að eina röksemdin, sem fram kom og komið gæti til mála að svara, er það, sem kom fram í báðum ræðum hv. 1. þm. Eyf., og það var, að hér væri að ræða um fordæmi, sem mundi vera óheppilegt og hættulegt. Það er alveg eins og hér sé verið að skapa fordæmi, sem aldrei hafi komið fram áður. Slík fordæmi eru til, að ákveðnar tekjur skuli vera skattfrjálsar. Það er ekki langt síðan samþ. var um skattfrelsi fyrir útgerðarfyrirtæki, og happdrættið er skattfrjálst. Þá er annað. Ef þetta, að hér sé verið að skapa óheppilegt fordæmi, er röksemd á móti því, að öll áhættuþóknun skuli vera skattfrjáls, því leggur þá fjhn. fram frv. um, að helmingurinn skuli vera skattfrjáls? Samkv. þessari röksemdafærslu þá er annaðhvort að vera á móti till. fjárhagsn. eða að menn geta alveg eins fallizt á, að áhættuþóknunin skuli öll vera skattfrjáls. Enda er það svo, að það kemur alveg greinilega fram á einu fylgiskjalinu, að það hefir beinlínis verið samið í trausti þess, að Alþingi sæi sóma sinn í því að hafa þessa upphæð skattfrjálsa. Sjómenn litu þannig á, að þessi stríðsáhættuþóknun væri ekki ríflegri en það, að þeir gengust undir þessi kjör í trausti þess, að Alþingi hefði alla áhættuþóknunina skattfrjálsa.