21.11.1939
Efri deild: 65. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Magnús Jónsson:

Ég skil ekki hv. 2. landsk., þegar hann þykist fylgja stj. með því að bera fram annað en hún hefir borið fram. Þegar ríkisstj. lofaði að mæla með því, að helmingurinn af áhættuþóknuninni skyldi vera skattfrjáls, þá mælir hún með því, sem hún vill, og ég get ekki séð, að traust geti komið fram í öðru en því að vera með þessu. Mér finnst hv. þm. vel geta fellt sig við þennan samning eins og hann var gerður, en hann vill heldur halda fram sinni pólitísku skoðun. Hann segist vera fulltrúi fyrir sjómannastéttina. Ég býst við, ef ég bæri fram frv. um að hækka laun embættismanna, að þeir væru með því. Menn eru yfirleitt með því, sem borið er fram þeim til hagsbóta.

Hv. 1. landsk. vil ég segja það, að það er ekki sambærilegt með happdrættið og útgerðarfyrirtækin. Happdrættisvinningur er skattfrjáls aðeins árið sem hann vinnst, en ekki sá ágóði, sem af honum kann að verða síðar. Happdrættið er ekki annað en tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóðinn, þó því um stund hafi verið varið til ákveðins verks fyrir ríkið, og ákvað Alþingi, að til þess að létta undir þessa tekjuöflun skyldi happdrættið njóta þessara fríðinda. Það er eins og þegar ríkisverzlanirnar eru undanþegnar sköttum. En skattfrelsi útgerðarfyrirtækjanna byggist á því, að þau höfðu um langan tíma ekki verið rekin með ágóða, heldur halla. En það er hægt að leggja á þau, þótt þau hafi engar tekjur, og er þetta til þess að fyrirbyggja það.

Ég held, að engum detti í hug, að sterk fyrirtæki ættu að vera skattfrjáls. Ég býst við, að ef útgerðin fer að stórgræða, þá getum við fengið að ræða um það, hvort ekki komi til mála að láta þessi fyrirtæki greiða skatt. Hv. 1. landsk. vildi annaðhvort láta greiða skatt af öllu eða engu, en ég hefi lýst því yfir, að ég vil aðeins láta standa við gerða samninga. Mér finnst sjálfsagt, að þegar stj. gerir samning, þótt hann munnlegur sé, þá eigi að standa við hann.

Mér varð á að láta í ljós, hvort þetta frv. væri ekki borið fram til þess að sýnast. Hv. 1. landsk. bað mig að færa rök fyrir þessu. Hann bar þau rök fram sjálfur, svo að þar þarf ekki um að bæta. Hann segist hafa séð í einu blaði hér það sama, sem hann heldur fram, og það hafi verið borið fram til þess að sýnast. Ég treysti mér ekki til þess að bera fram betri rök.