08.03.1939
Neðri deild: 15. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

25. mál, ostrurækt

*Frsm. (Sigurður E. Hlíðar) :

Ég vil benda hv þm. Borgf. á það, að þótt ég sé ekki neinn sérfræðingur í sjávarútvegsmálum, þá munu aðrir í sjútvn. bera meira skyn á það. Flutningur frv. byggist á rannsóknum Árna Friðrikssonar um þetta efni. Hann hefir verið fenginn til að rannsaka þá staði, sem markaðir eru á kortinu fyrir þessar tilraunir, er liggur hér í skrifstofunni. Mér þykir dálítið hlálegt, að hv. þm. Borgf. skuli hafa eftir Árna Friðrikssyni, að það muni ekki nægilegt hitastig til ostruræktar við Faxaflóa. Árni Friðriksson sagði við mig, að við Faxaflóa myndu vera einu staðirnir á landinu, þar sem hægt myndi að stunda ostruveiðar. Enda ber kortið það með sér. Það er ekki rétt, sem hv. þm. Borgf. hélt fram, að þessir 15 staðir, sem markaðir eru á kortinu, séu aðeins við Hvalfjörð og Kollafjörð, því þeir ná alveg vestur á Seltjarnarnes.

Ég vil benda á, að í 1. gr. frv. segir: „Atvinnumálaráðherra skal heimilt að ákveða í reglugerð, að tiltekin svæði í fjörðum inni skuli um tiltekinn tíma friðuð til ostruræktar fyrir hverskonar veiðum, öðrum en ostruveiðum. Ennfremur skal þar ákveðið, hvernig og á hvaða árstíma heimilt sé að stunda ostruveiðar“. Ég er hissa á því, að hv. þm. Borgf. skuli ekki láta sér skiljast, að með frv., sem hér er til umr., um ostrurækt, er ekki um lokun á fjörðum að ræða, enda þótt það sé tiltekið í bréfi frá sænska félaginu, sem sækir um þessi einkaréttindi. Ég veit ekki til, að hæstv. ríkisstj. hafi gert nokkra samninga við það félag.