09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

Frsm. (Sveinbjörn Högnason) :

Þetta frv., sem borið er fram af hæstv. ríkisstj., er flutt í tilefni af samningum, sem gerðir hafa verið vegna stríðsáhættunnar við ýms félög sjómannastéttarinnar, þar sem ákveðið er, að 50% af áhættuþóknuninni skuli vera laus við skatt- og útsvarsálagningu. Í samningum milli þessara félaga og ríkisstj. er tekið fram, að þessu skuli þannig háttað, og hefir meiri hl. n. lagt til, að frv. verði samþ., en 3 nm. hafa áskilið sér rétt til þess að gera brtt. við frv., og hafa tveir þeirra, hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. V.-Ísaf., þegar borið fram þá brtt., að öll áhættuþóknunin skuli undanþegin skatti og útsvari. Ég hygg, að mér sé óhætt að segja, að frá sjónarmiði okkar, sem skrifuðum undir nál. án fyrirvara, sé ekki ástæða til þess að ganga lengra en hér er gert, einkum þegar þess er gætt, hve áhættuþóknunin er há, og að samningar við þessi félög eru venjulega þannig, að þau fá að mestu framgengt kröfum sinum. Virðist það ástæðulaust að ætla, að félögin séu ekki ánægð með þá lausn málsins, sem fæst með frv. þessu. Legg ég því til, að brtt. þessara tveggja nm. verði felld, en að frv. stjórnarinnar verði samþ.