09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Einar Olgeirsson:

Ég er ekki að draga það í efa, sem hæstv. ráðh. sagði, að hann vildi láta þær tekjur falla burtu, sem talað er um á þskj. 363. Hv. þm. talaði um það í sinni ræðu, að eitt yrði yfir alla að ganga, ef ætti að fara að undanþiggja menn frá því að greiða tekju- og eignarskatt. Þegar við athugum þetta tvennt og berum saman mismuninn á því tvennu, að sitja heima og hinu, að þurfa að sigla landa á milli eins og ástandið er nú, þá er það ekki nema eðlilegt, að krafa sjómanna um að fá vissan hluta af áhættuþóknun skattfrjálsan sé tekin til ýtarlegrar athugunar.

Það er vitað, að togararnir hafa nú að undanförnu selt með afbrigðum vel; t. d. seldi einn togari nýlega fyrir allt að því ¼ millj. kr. Það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að sjómenn beri fram slíka kröfu sem þá, er felst í þessari brtt. á þskj. 363. Það virðist ekki vera nema sjálfsagt að veita þeim þessi hlunnindi, sem farið er hér fram á. Hæstv. fjmrh. kom með það hér áðan, að það væri ansi hart að menn skyldu vera að koma með sérstök yfirboð í sambandi við till. ríkisstj. Ég man ekki betur en að þessi hæstv. fjmrh. hafi á hverju einasta þingi undanfarið komið fram með yfirboð. Ég skal minna á það, að hann sjálfur kom fram með till. um að minnka tekjur ríkissjóðs um 4–5 millj. kr. án þess að benda á, hvar ætti að fá tekjur í staðinn. — Þá talaði hæstv. fjmrh. um það, að þetta væri gert til þess að reyna að koma sér í mjúkinn hjá ákveðnum stéttum. Ég vil leyfa mér að minna hæstv. fjmrh. á það, að það er ekki lengra síðan en á síðasta þingi við afgreiðslu fjárlaga, að till. komu fram um að hækka atvinnubótaféð upp í 750 þús. kr. Ég vil segja það, að þessum mönnum ferst ekki að skopast að því, að verið sé að gera yfirboð. Þeir eru sjálfir nógu frakkir á að koma með slík yfirboð. Hæstv. fjmrh. var að tala um það, að hér væri verið að slá á viðkvæma strengi, til þess að reyna að koma sér í mjúkinn hjá sjómönnum. Ég vil nú spyrja hann: Hjá hverjum eru þeir að koma sér í mjúkinn með því að gera togaraeigendur skattfrjálsa? Ég tel, að það væri rétt fyrir ríkisstj., sem segist vilja láta eitt yfir alla ganga, að hún vilji a. m. k. láta sjómenn njóta slikra hlunninda. Þeir menn, sem raka saman fé á því, að sjómenn leggja líf sitt í hættu til þess að koma okkar útflutningsafurðum út fyrir landsteinana, þeir ættu sízt að vera á móti því, að sjómenn fengju bætt kjör sín.