09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Sigurður Kristjánsson:

Hv. frsm. fjhn. fór hörðum orðum um afstöðu mína. Hann taldi áhættuþóknunina 250%. Þetta er nú ekki rétt, því að hún er 200%, en eftir samningunum er engin stríðsáhættuþóknun greidd nema á afmörkuðum svæðum, þegar siglt er til Þýzkalands eða Póllands. Sömuleiðis er engin stríðsáhættuþóknun greidd meðan skipin liggja í höfn, og fyrir siglingar á Miðjarðarhafi eru greidd 100%. Þótt rétt væri farið með tölur, þá eru það blekkingar að taka aðeins fram hæstu tölurnar, rétt eins og þær ættu að gilda fyrir allar siglingar.

Ég mun ekki hirða um svigurmæli hv. 1. þm. Rang. um það, að ég sé með brtt. minni að koma mér í mjúkinn hjá vissum stéttum þjóðfélagsins. Þessar stéttir munu dæma mig og aðra þm. eftir verkum þeirra. Ég efast ekki um, að afstaða mín í þessu máli muni falla vel í geð mörgum mönnum; öðrum mun hún falla illa. En þeir, sem fá hagsbót af brtt. minni, munu meta afstöðu mína að engu, ef hún markast af fláttskap, því að fáir munu geta dulið, af hvaða orsökum hluttekning þeirra stafar.

Hv. 1. þm. Rang. talaði um afstöðu Sjálfstfl. til stjórnarinnar, og hæstv. viðskmrh. sagði, að þetta væru vandræðavinnubrögð. Það verður varla kallað, að ég snúist á móti málinu, þótt ég geri brtt. við frv., sem stj. hefir komið sér saman um upp á sitt eigið eindæmi. Og það er heldur enginn valdaofmetnaður, þótt ég sýni stj. aðeins tillátssemi, þegar ekki er gengið of nærri minni sannfæringu. Það væri mjög illa farið, ef þm. þyrftu stöðugt að vera að lykta og þefa eftir því, hvað stj. og valdhöfunum þóknaðist. Mér dettur ekki heldur í hug að ætla það, að þm hafi þegar skapað sér skoðun á þessu máli, eins og það hefir verið flutt hér. Einstaka þm. munu að sjálfsögðu endurskoða álit sitt á málinu og afstöðu sína til þess. Ég ætlast ekki heldur til, að neinn þm. fari að hlaupa frá skoðun sinni til að þóknast öðrum. En hitt ætla ég að vona, að hv. þingdm. líti á málið með sanngirni og gleymi því ekki, að þessir menn, sem um er að ræða í máli því, er hér liggur fyrir, standa sjálfir í því stríði, sem nú er háð, og þeir eiga fullan rétt á, að allur viðurgerningur við þá frá hálfu löggjafarvaldsins sé eins góður og efni standa til.