28.11.1939
Neðri deild: 70. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

127. mál, fiskveiðasjóður Íslands

*Frsm. (Bergur Jónsson):

Vegna þess að ég var ekki kominn á fund þegar þetta frv. var til 1. umr., þykir mér rétt að geta um ástæðuna fyrir því, að sjútvn. flytur þetta frv.

Nefndinni barst erindi frá útgerðarfélagi Keflvíkinga, þar sem óskað er eftir, að hámarksákvæðið um lán úr sjóðnum á eitt skip sé hækkað úr 40 þús. kr. upp í 60 þús. kr. Þetta er rökstutt með þeirri gengisbreytingu, sem varð á síðastl. vori, auk þess sem bent var á það, og sjútvn. féllst á líka, að nokkuð mikið ósamræmi væri í styrkveitingum til smærri og stærri báta eftir núgildandi l. Verða þessar 40 þús., sem veittar eru til hvers báts, kringum 50% af verði báta, sem eru 20 til 40 lestir, en ekki nema 30 til 35% af verði stærri báta, sem eru 40 til 80 lestir.

Af þessum ástæðum lagði sjútvn. til, að breytt væri ákvæðum l. þannig, að setja hámarksákvæðið 50 þús. kr. í stað 40 þús. kr., eða fara meðalveginn milli núgildandi l. og þess erindis, sem fyrir lá.