29.03.1939
Efri deild: 28. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

25. mál, ostrurækt

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt af hv. sjútvn. Nd. eftir tilmælum hæstv. atvmrh. Við meðferð málsins í Nd. tók það örlitlum breyt., sem er í síðari málsgr. 1. gr. Í sjútvn. þessarar d. hefir málið verið athugað, og eins og nál. hermir, fellst n. á að mæla með frv. óbreyttu. Við athugun komst n. að þeirri niðurstöðu, að hér sé um nýmæli að ræða, sem rétt sé að gera tilraun með. Samkv. frv. er svo til ætlazt, að það verði heimilað að gera tilraun til ostruræktar, sem er skeldýr og mjög verðmæt og þarf sérstök skilyrði til þess að geta lifað. Nú er það álit manna, sem kynnt hafa sér þetta mál, að einn staður hér við land muni sérstaklega heppilegur til þess að ostrur geti þrifizt þar. Það er sérstaklega Hvalfjörður. Það má vel vera, að rannsókn leiði í ljós, að fleiri staðir séu heppilegir til þess að ala upp þennan nytjafisk, en um það liggur að sjálfsögðu ekkert fyrir á þessu stigi málsins. En sú breyting, sem frv. tók í Nd., var þess eðlis, að n. telur hana alveg réttmæta eins og 2. málsgr. 1. gr. er, að slíkar tilraunir komi ekki í bága við veiðiskap, sem fyrir er á svæðinu, hvort heldur er um veiði nytjafiska eða skelfiskatekju að ræða, nema samkomulag náist við þá, sem þar eiga hagsmuna að gæta. Og svo gerir frv. ráð fyrir því samkv. 3. gr., hvernig fara skuli að til þess að ná þessu samkomulagi, að bætur skuli ákveðnar með mati, og yfirmati, ef þess gerist þörf. Því þá má gera ráð fyrir, að hér geti orðið nokkur ágreiningur á milli þeirra, sem vilja fá leyfi til þess að stunda þessar ostruveiðar, og þeirra, sem eiga hluta lands, sem liggur að sjó, þar sem ostruræktin fer fram. Það er gefið, að þetta getur orðið hagsmunaárekstur þeirra á milli. Fyrir þessu er séð í frv., og hefir n. engu við það að bæta, og telur því rétt að mæla með þessu, ef það gæti orðið okkur að liði í framtíðinni, ef tilraunir sem þessar heppnuðust.