22.04.1939
Neðri deild: 47. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

29. mál, hegningarlög

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég er hv. þm. V.-Sk. þakkiátur fyrir umhyggju hans fyrir hv. Alþ. og mér, og þykir mér gott að fá tækifæri til að skýra frá mínu sjónarmiði ástæðuna til þess, að ég tel vansalaust fyrir hv. Alþ., og meir en það, að afgr. málið eins og það liggur fyrir.

Tvívegis hefir verið fundið að því við mig á undanförnum árum og því beitt sem ákæru á mig sem dómsmálaráðherra, að ég skuli ekki hafa hraðað afgreiðslu þessa máls meir en raun er á orðin, og verið talið, að ég færi mér þar allt of hægt, ræki ekki nægilega eftir, að málið kæmi til Alþ. til afgreiðslu. Þar til get ég svarað, og tekið undir með hv. þm. V.-Sk., að ég hefi falið nauðsynlegt, að málið væri sem bezt undirbúið. Í 7 ár hefir herra hæstaréttardómari Þórður Eyjólfsson farið með undirbúning þessa máls. Árið 1937 tjáði hann mér, að hann teldi sig ekki geta gengið svo frá frv., að hann væri ánægður með það, nema að fara utan til dvalar um nokkurt skeið, til þess að kynna sér hegningarl. annara landa, áður en hann ræki smiðshöggið á þetta mál. Hann lauk svo undirbúningnum á miðju síðasta þingi, en þá taldi ég málið ekki nægilega undirbúið til að leggjast fyrir þingið. Fyrir þá sök fékk ég þá tvo menn, er ég treysti mjög vel, þá Einar Arnórsson og Gissur Bergsteinsson. til að taka við frv., rannsaka það og bera saman við erlend lög, og hafa þeir unnið að því í heilt á r. Mér er kunnugt, að báðir þessir menn hafa lagt geysimikla vinnu í þetta, eins og frv. ber með sér, til að bera saman erlend hegningarl. og samræma við íslenzka staðhætti. Það er ótrúlegt, hve mikið starf það er, að undirbúa þessi l., og hve mikla vinnu þessir þrír menn þurftu að leggja fram til þess að geta gengið frá málinu á þann hátt, sem þeir eru ánægðir með. Þeir hafa og tjáð mér, að þeir séu búnir að vanda svo undirbúninginn, að málið muni ekki bæta sig, þótt þeir hafi það til frekari meðferðar. Ég held því, að þetta mál sé betur undirbúið en nokkurt annað mál, sem nú liggur fyrir hæstv. Alþ., eða hefir legið fyrir því hin síðari ár. Ég viðurkenni og get tekið undir það með hv. þm., að undirbúning slíks máls sem þessa þarf að vanda og hafa sem nákvæmastan, en ég álít einnig, að þeim kröfum hafi verið fullnægt. Viðvíkjandi þeirri rannsókn á málinu, sem hv. þm. talaði um, þá eru flest nýmæli þess tekin upp úr erlendri löggjöf, sem gilt hefir í fleiri ár í flestum eða öllum nágrannalöndum vorum. Þar sem við Íslendingar getum lítinn skerf lagt til sjálfstæðrar rannsóknar í þessum efnum, þá verðum við að hafa það eins nú og með hegningarl. frá 1866, sem aðeins voru þýðing á dönskum hegningarl., geflu út sem íslenzk hegningarl. 1869, með þeim einum breyt., að einni gr. var bætt við og 2 gr. sleppt í þýðingunni, sem ekki var sem nákvæmust, eins og okkur er kunnugt, sem höfum átt að dæma eftir þeim. Við getum ekki annað gert en að reyna að notfæra okkur þær rannsóknir, sem aðrar þjóðir hafa gert í þessum efnum, sem framkvæmdar eru af hinum færustu mönnum hverrar þjóðar, og reyna að staðhæfa árangur þeirra rannsókna við íslenzka þjóðhætti.

Ég neita því enganveginn, að prófessorar lagadeildarinnar — og fleiri menn — myndu reynast allir hæfir menn til að hafa þessar rannsóknir með höndum. En við höfum ekki treyst okkur til að setja niður í þessu máli öllu stærri n. en þessa 3 sérfróðu menn, enda mun málið með þeirri rannsókn afgr, með því öryggi, að vel megi við una, og hv. þm. hafa haft nægilegt ráðrúm til að athuga það milli þingfunda, svo ég hygg ekki, að það vinni neitt við að takast til athugunar nú á milli þinghalda. Vil ég vekja athygli á því m. a., að þótt nú væri skipuð ný 2 eða 3 manna n., þá mundi málið litið græða á rannsókn þeirra, ef ekki nyti jafnframt aðstoðar þeirra 3, sem hafa fjallað um málið áður.

Þegar svo á það er litið, eins og hv. þm. V.-Sk. minntist á. að í frv. eru nálega engin ákvæði, sem ekki eru þegar í lögum hjá flestum helztu menningarþjóðunum og hafa verið prófuð þar, þá ætla ég, að það sé óhætt fyrir okkur Íslendinga að leiða í lög þessi ákvæði, og það er eitt af því, sem þýðingu hefir fyrir okkur, að hafa samskonar löggjöf og ríkir með öðrum menningarþjóðum, þjóðum, sem jafnframt hafa ágæta dómstóla, svo við getum haft hliðsjón af dómum þeirra dómstóla, þegar íslenzk lög eru skilin og skýrð og dæmt eftir þeim. Þetta hefir verið tekið til greina í sambandi við núgildandi hegningarl., sem eru samhljóða dönskum hegningarl. og náskyld þeim norsku.

Þegar ég las yfir þetta frv. og athugaði það ásamt einum þeirra manna, sem sömdu frv., skýrði hann málið fyrir mér og sagði, að sér væri óhætt að segja, að í frv. væru engin ákvæði. sem ekki væru prófuð um mörg ár, er gætu valdið ágreiningi, nema, eins og hv. þm. líka tók fram, 25. kafli frv. Ég benti á það strax í upphafi, að við undirbúning þessa kafla höfðu þeir, sem undirbjuggu frv., aflað sér nákvæmra gagna frá nágrannalöndunum, og þessir 3 menn höfðu lofað að sitja hér fundi með n. þeim, er færu með þetta mál, eða með þingmönnum, er óskuðu þess, og drógu þeir fram þau atriði, sem þessi kafli byggist á, þannig að hv. þm. og n. gætu myndað sér skoðanir þar um. Ef endurskoða á kaflann, verður að gera nákvæman samanburð, sem þó ætti ekki að taka meira en 1–2 klst., — a. m. k. mundi það ekki taka lögfróða menn og vana dómum lengri tíma. Nú hefir málið legið fyrir hæstv. Alþ. í 2 mánuði, og geri ég ráð fyrir, að hv. þm. hafi allir kynnt sér frv. rækilega á þeim tíma. En séu menn óánægðir með þá afgreiðslu málsins að afgr. það nú, en þingi ekki frestað fyrr en á mánudag, ef til frestunar kemur, þá er auðvelt, ef hv. þm. óska þess, að taka málið út af dagskrá og ræða þennan kafla frv. við n., sem undirbjó málið, og bera saman gögn þau, er fyrir liggja, og má þá koma fram brtt., ef hv. þm. óska. Þetta bendi ég á sem leið til þess að rannsaka þennan kafla frv., ef hv. þm. telja sig ekki hafa fengið nægilega greinilegar skýringar til þess að mynda sér skoðun um hann.

Gr. þær, sem hv. þm. V.-Sk. taldi að varhugaverðar væru, eru 236. og 237. gr. Þótt 237 gr. sé ekki stór, virðist svo sem sumir hv. þm. telji hana eina stóra þyrnirinn í þessu frv., þ. e. ákvæðið um, að aðdróttun sem borin er fram á ótilhlýðilega móðgandi hátt, sé refsiverð, enda þótt hún hafi verið sönnuð, og einnig, að þegar refsingar er krafizt samkv. þessari gr. eingöngu, þá er ekki heimilt að færa sönnur á aðdróttunina, nema nauðsyn þyki bera til vegna almannahags. Menn munu fljóti mynda sér skoðun á þessari gr., ef þeir aðeins hugsa um, hve sjálfsagt og nauðsynlegt er að hafa slíkt ákvæði í l. Menn þekkja, að bera má fram aðdróttanir, sem e. t. v. í undirstöðuatriðum eru sannar, en gera það með þeim hætti, að það verður langtum svívirðilegra en ef sannleikurinn er allur sagður. Þar sem mér virðist almennur uggur gegn þessu atriði, vil ég upplýsa, að þetta er ekkert nýmæli, eins og a. m. k. 3 hv. þm. álíta. Þetta lagaákvæði hefir gilt í Þýzkalandi frá 1871–1937, í Sviss var það leitt í lög 1918, í hegningarl. Norðmanna var það sett 1902 og í dönsku l. er það síðan 1930. Ef hv. þm. hugsa um þetta ákvæði, þá veit ég, að þeir þurfa ekki annara skýringa við en þeirrar, að gera sér grein fyrir, hvernig fara má með lítinn snefil af sannleika, þegar verið er að segja eitthvað mönnum til niðrunar, leggja út af honum á þann hátt, að meiri hl. verður ósannindi, margfalt skaðlegri en grundvallaratriðið sjálft.

Það, sem frekar má segja að sé nýmæli, er ákvæði 236. gr., sem sé: „Sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varðar það varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum“, og ennfremur: „Sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varðar það refsingu samkvæmt 1. mgr.“ Þetta er óneitanlega ákvæði, sem hefir valdið meiri deilum, en ég tel mjög erfitt að rökstyðja, að það sé blessun fyrir lýðræðið og frelsið, að einstaklingar í þjóðfélaginu hafi heimild til, án þess að verða fyrir ströngum refsingum, að bera fram ásakanir, ósannindi og ærumeiðingar, sem þeir sjálfir álíta og vita, að eru ósannar og rangar. Það er fyrst og fremst tilgangurinn með lýðræði, prentfrelsi og málfrelsi — og raunverulega sá eini tilgangur — að hver og einn þegn þjóðfélagsins hafi fullan rétt til að bera fram ásakanir og halda fram sínu máli, hvort sem það er gegn einstakling, félagsheild eða ríkisstjórn, bera fram það, sem hann álítur sjálfur rétt vera og satt. Í gr. eru ekki gerðar frekari kröfur en það, að hann verði að hafa sennilega ástæðu fyrir því, að það, sem hann er að fara með, sé rétt. Það er áreiðanlega miklu fremur til þess að drepa niður allt frelsi. bæði málfrelsi og prentfrelsi, ef leyft er, án þess að við liggi strangar refsingar, að bera fram undir ádeiluyfirskyni á hendur einstaklingum eða félagsheildum til hagsbóta þjóðfélaginu, hvaða sakir sem er, og bera það þannig fram, að menn trúi því ekki einu sinni sjálfir, sem þeir fara með. Hvenær á að refsa fyrir meiðyrði, ef ekki undir slíkum kringumstæðum? Menn geta eftir sem áður sett fram sem sínar skoðanir það, sem þeir álíta rétt og satt, og barizt fyrir því. Ég man ekki betur — en það má athuga nánar — en að þetta ákvæði sé í löggjöf Norðmanna. Það er engum vafa undirorpið, að taka ber tillit til þess, er dæmt er fyrir meiðyrði, ef sá, sem ber fram eitthvað, er síðar reynist e. t. v. satt, hefir gert það vegna þess, að hann telur sig hafa líkur fyrir sínu máli og þyki nauðsynlegt að deila þess vegna á einstakiing eða aðra út frá þeim atriðum, og gerir það í góðum tilgangi. Að mínu áliti á þá refsing að vera vægari.

Það kemur fram við umr. í báðum hv. d., sem þeir menn, er sömdu frv. bentu á, að varla gæti orðið ágreiningur um annað en þennan kafla frv., og ég vil álíta, að nægur tími sé til að athuga hann, því að í honum hefir ekki verið bent á annað en þessar 2 gr., er ágreiningi fái valdið. Má og fresta afgreiðslu málsins til mánudags, ef hv. þm. þykir með þurfa. Ég álít um þann kafla frv., sem helzt hefir verið fundið að, að sjálfsagt sé að leiða þá gr. í l. Og eins og ég hefi sagt, er þar gerður ríkur greinarmunur á því, hvort menn eða blöð halda fram því sem réttum framburði, sem þeir sömu menn eða blöð eru sannfærð um, að sé satt og hafa ástæðu til að halda, að sé satt, enda þótt það upplýsist að vera rangt, — það er mikill munur á þessu og hinu, þegar ærumeiðandi aðdróttanir eru hafðar í frammi móti betri vitund.