15.12.1939
Neðri deild: 84. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

29. mál, hegningarlög

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég varð til þess síðla á fyrri hl. þessa þings að hreyfa nokkrum aths. um frv., og var þá komið mjög að endi þess þinghalds. Virtist sem frv. ætti þá að komast gegnum þingið og verða að l., er komið var að 3. umr. Upp úr því gerðist þó það, að hæstv. dómsmrh. gekk inn á það utan þings, með hliðsjón af tilmælum, er höfðu komið fram innan þingsins og frá fleiri hliðum, að fresta málinu og leggja ekki áherzlu á, að það næði framgangi þá. Ég stakk upp á, að svo væri gert, og taldi það vel farið, er til kom.

Það má segja, að frv. hafi ekki tekið miklum stakkaskiptum eða að ekki liggi fyrir á þskj. 445 stórvægilegar brtt. við þennan mikla lagabálk. En þó má segja og er sjálfsagt að viðurkenna, að þessar brtt. á þskj. 445 áhræra það, sem sérstaklega þóttu agnúar á meiðyrðalöggjöfinni. Mér er að vísu ekki kunnugt um, að nokkrir sérstakir aðilar, sem hafa látið sig málið miklu skipta, hafi fjallað um þetta á því tímabili, sem liðið er frá því er málinu var frestað, en það vita sjálfsagt hæstv. dómsmrh. og hv. allshn. En ég ætlaðist til, að með þessum fresti yrði tóm til fyrir þær lögfræðistofnanir og sérfræðinga, sem ekki hafa verið nógsamlega til kvaddir, svo og ýmsar „korpórationir“ eins og blaðamannafélög, til að gera sínar athugasemdir og till. Ég veit ekki, hvort þaðan hafa komið nokkrar slíkar aths., og sakast ég ekki þar um, en vil aðeins lýsa yfir því, að ég tel málinu betur borgið með þessum brtt. hv. allshn., sem eflaust verða samþ., og mun ég geta sætt mig við, að málið verði afgr. nú með þeim breytingum, þó að ég hafi að vísu nokkuð að frv. að finna. Vil ég samt gera þá tilraun með þetta, því að það stendur eflaust til bóta sem önnur stórmál, þó að fordæmi sé, að þessi gömlu og viðkvæmu l. hafa enzt ótrúlega lengi og ótrúlega vel. Hefir þar farið saman fullkomin framkvæmd l. og réttlætismeðvitund þjóðarinnar. En nú er þó tími til kominn að breyta þessum l., og hefir það verið gert og að sumu leyti til batnaðar, með frv. þessu, en að sumu leyti er breytingin að vísu lítil, því að mörg þessara gömlu ákvæða hafa staðizt eldraun reynslunnar svo vel, að ótrúlegt mætti þykja. Annars býst ég ekki við, að ég eða aðrir muni leggja stein í götu þessa frv., og vil ég gjarnan sjá, hvernig það verkar í þjóðfélaginu, er það er orðið að l., eins og nú er ráð fyrir gert.