11.12.1939
Neðri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

151. mál, ábúðarlög

*Pétur Ottesen:

Ég mun ekki fara út í almennar umr. um ábúðarlögin, ég get viðurkennt, að þau eru að ýmsu leyti þung í skauti fyrir jarðeigendur, en að ég var með þeirri löggjöf, þegar hún var sett, er vegna þess, að ég álít það heppilegri lausn fyrir landbúnaðinn, að sem flestar jarðir séu í sjálfsábúð, og ef löggjöfin stuðlar að því, er stefnt í rétta átt. Það er óheppilegt fyrir afkomu landbúnaðarins, að mikið af jörðum sé í leiguábúð, hvort sem þær eru í einstakra eign eða eign ríkissjóðs.

Hvað viðvíkur þessu frv. vil ég geta þess, að það er fram komið vegna þess, að dæmi eru til þess, að jarðeigendur, sem ekki hafa viljað nytja jarðir sínar sjálfir og ekki byggja þær öðrum, hafa bókstaflega ekkert um þær hirt. Þeir hafa kannske í mesta lagi slegið túnin, stundum jafnvel ekki hirt töðuna og hún hefir fúnað niður á túnunum.

Slíka meðferð á jörð á að fyrirbyggja, enda er hún jafnvel til eyðileggingar fjárhagslega fyrir jarðeigandann, sýslufélagið og landið í heild. Með frv. þessu er gerð tilraun til þess að fyrirbyggja, að jarðeigendum haldist uppi að eyðileggja jarðirnar á þennan hátt. Við, sem í sveit búum, vitum, að jörð þarf ekki að vera ábúðarlaus í mörg ár til þess að hús fúni, ræktunin verði að engu og öll mannvirki gangi úr sér.

Það er verið að tala um bótaskyldu gagnvart þeim mönnum, er yrðu að láta jarðir sínar af hendi skv. ákvæði frv. — Ég álít, að þeir geti ekki gert sér meiri skaða en með slíkri háttsemi, að stofna jörðum sínum í eyðileggingu, og eigi þeir því engar bætur skilið. Ég tel alveg sjálfsagt, að sveitarstjórn fái vald til þess að ráðstafa jörðunum, enda kemur það ekki til framkvæmda, ef eigendur gera annaðhvort: að byggja jörðina eða búa á henni sjálfir.